5. maí 2006

Heiðin (8)

Hann hrökk við. Regnið buldi á kinnum hans. Hann leit í kringum sig og sá aðeins heiðbláan himinn. Fugl vappaði á bakanum við hlið hans. Það var ekki þrösturinn sem kom á hverjum degi í litlu brekkuna fyrir utan skrifstofuglugga hans. Hvernig ætli sé að svífa skýjum ofar. Hann leit niður og sá að hann hafði fallið hné. Hann mundi ekki hvenær eða hvernig. Hversu lengi hafði hann kropið þarna hreyfingalaus.

Hann skimaði til allra átta. Allt var hljótt. Regnið rann niður að munnvikum. Vatnið tók að gárast. Litlar öldur brotnuðu á steinum við vatnsborðið. Hann hugsaði um hafið. Öldurót kom í hugann. Grænn og úfinn sær. Brim sem brotnar við klettótta strönd. Hann reyndi að muna ljóðin sín en ekkert þeirra kom í hugann. Hvers vegna hafði hann tekið upp á því að yrkja. Ekkert svar. Hann gat ekki munað ljóðið um hafið og fleyið sem brotnaði í smátt. Engin ljóð komu í hugann. Hann hafði brennt þau öll í bræði. Eldsmatur. Þetta er bara eldsmatur, hafði hann hugsað. Hann var alveg tómur.

Nú byrjaði lag djúpt í huga hans. Það varð sterkara og og á köflum ómstríðara eins og hljómsveitin bærist nær og yfirgnæfði regnið sem ekki var til staðar, en bleytti vanga hans. Þetta er gamall slagari var eina hugsunin. Hann tók undir hljómlausri röddu.

Þú komst að kveðja í gær.
Þú kvaddir og allt varð svo hljótt.
Á glugganum frostrósin grær.
Ég gat ekkert sofið í nótt.
Hvert andvarp frá einmanna sál,
hvert orð sem var myndað án hljóms,
nú greinist sem gaddfreðið mál
í gerfi hins lífvana blóms.

Er stormgnýrinn brýst inn í bæ
með brimhljóð frá klettóttri strönd.
En reiðum og rjúkandi sæ
hann réttir oft ögrandi hönd.
Ég krýp hér og bæn mína bið,
þá bæn, sem í hjartað er skráð.
Ó, þyrmd´onum, gefð´onum grið.
Hver gæti mér orð þessi láð?




------------------------------------------------------------------
(lagið Frostrósir er eftir Freymóð Jóhannsson, úr Svarfaðardal, 1895-1973).

5 ummæli:

ærir sagði...

(lagið Frostrósir er eftir Freymóð Jóhannsson, úr Svarfaðardal, 1895-1973).

Nafnlaus sagði...

Freymóður bjó í Ólafsfirði einhvern tíma og kenndi eftir því sem fróðir menn segja mér.

Kv. Guðbjörn

Fríða sagði...

Þetta er svona texti sem maður þorir ekki að pæla í

ærir sagði...

engar áhyggjur kæra útifrík,

enn er óvíst hvort um almennilega glæpasögu verður að ræða, bleikur kilju rómans eða harmasaga.

bróðir, þetta eru merkilegar upplysingar. veistu á hvað tíma hann dvaldi í ÓF?

ærir sagði...

lagið frostrósir heyrði ég nokkrum dögum áður en ég skrifaði þetta, á tónleikum með sinfó og Eivöru og Ragnhildi. Eivör söng þetta lag þannig að ýtti snarlega og fast við hjartarótunum. Það var eiginlega ógleymanlegt.

en þarna kemur tengingin við söguna.