5. maí 2006

Heiðin (6)

Hann sat í húminu og gat hann heyrt rödd manneskjunnar. Vocalísa. Hljómfall raddar hennar. Hún andaði svo létt í svefninum. Blæbrigðin eftir því hvort hún var glöð eða áhyggjufull snerti strengi sem hann þekkti ekki áður. Nú þekkti hann röddina svo vel. Betur en sína eigin rödd. Angandi blómalykt lék um vit hans og á vörum hans var saltbragð. Snerting. Hann gekk út að kvistglugganum og horfði á klukkuturninn.

Fjarlæg borg. Tungumál hennar var framandi. Hann var nýlega farinn að greina orðaskil og þau höfðu fundið sitt sameiginlega mál. Það var alveg sama þó hann skyldi ekki orð. Eitt orð í einu. Hægt. Svo undur hægt. Og svo byrjuðu þau aftur.

Hann gat setið og hlustað allan daginn og horft á hana tala við aðra. Ætli þetta sé að vera hugfanginn. Getur maður verið það án þess að skilja orð? Hann vildi strjúka laust yfir enni hennar og velti fyrir sér draumum hennar. Óskaði að hann skyldi tungumál drauma hennar?

Engin ummæli: