20. maí 2006

Björt kvöld

I
Maínóttin fer að-
elda kveikir í norðri
bálköst við bálköst á himni
en í borginni rökkvar.
Göturnar þagna, hætta
að hugsa upphátt - og stara
gulum ljósglyrnum.
Öll hverfast húsin um sjálf sig
full af skrafi og kossum.

Í baksýn fjöll
með brennandi ský á herðum.

II
Dagsetur.
Dimmrauð fjöllin við sjónhring
og enn fjöll
sem fjær blána
ofar, norðar-
og ísbjört víðerni landsins.
Að baki þeirra vegur minn
til vorsins niður við ána
til sjálfs mín, handan stríðsins
þegar stundirnar drupu hægt
á gamallegar sveitir
frá sól til mána.

III
Stendur við afl sinn
eldsmiðurinn mikli.
Um blá loft
bjarmar af sindurfoki!

Og nú dregur hann loks
úr logaskýjum
rauðhitaða sól
og sökkvir henni í kalda
sævardeiglu fjarðarins.

Þar herðist hún að nýju
í hvítt ljós!


Ljóðið Björt kvöld er eftir Hannes Pétursson.

2 ummæli:

ærir sagði...

Í stað þess að horfa á sönglakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, greip ég bók og fyrir valinu varð kvæðasafn Hannesar Péturssonar, 1951-1976.

Ljóðið Björt kvöld er frá 1967.

Fríða sagði...

Meira vit í því :)