16. maí 2006

Heiðin (11)

Á milli regnhviðanna áttaði hann sig á hættum auðnarinnar. Hann yrði. Já hann yrði að koma sér upp skjóli. Náttúran gat verið hörð. Hann leit í kringum sig og ákvað að ganga að hraunjaðrinum. Hann gekk yfir lágan malarkambinn meðfram ánni og skoðaði eyrarrósina sem þar óx í löngum breiðum í dældum sem jökuláin hafði áður grafið í beljandi ham.

Hraunkanturinn var ríflega mannhæðahár og á einum stað var hvilft. Undan hrauninu komu frissandi lindir og hvannabreiður nærðust á fersku fjögura gráðu köldu vatninu.

Hann leit í kringum sig og sá að bláin brosti framan í sólina. Skin á milli skúra. Hann virti fyrir sér fíngert blómið, svona undurfagurt og dökkblátt, sem aðeins opnaði sig í glaða sólskini.

Hann byrjaði að safna hellum í skjólvegg. Hann gæti notað kantinn á hraunjaðrinum sem var þverhníptur í hvilftinn sem tvo veggi. Hann þyrfti bara að hlaða í hálfhring. Hraunhellurnar voru þungar og hann varð blóðrisa á fingrum við að rífa þær upp. En verkið mjakaðist áfram. Hér byggði hann sitt hús á nýjum stað og á nýjum forsendum. Hann var ekki í mannabyggðum.

2 ummæli:

ærir sagði...

heyrði lagið frostrósir spilað í baðhúsinu í gærkveldi, þar sem ég var að fara í slökun eftir þrælapúlið í þreksalnum og 5 km speis hlaupið. engin söngur en bara blásturhljóðfæri. það þótti mér ótrúlega skemmtileg tilviljun.

Nafnlaus sagði...

That´s it, nú er ég komin með þetta á heilann