Hann steig nokkur skref aftur í rökkrinu og lét tunglsljósið lýsa sér. Hann tók upp fötin sín og klæddi sig í. Allar hreyfingar voru hægar. Fikraði sig svo fram á stigapallinn og lokaði varfærnislega á eftir sér. Gekk niður brattann stigann. Hann settist inn í stofuna og fékk sér vatnsglas. Hann var þyrstur. Ekki nema von, hugsaði hann og brosti að tilhugsuninni sem kviknaði. Gluggarnir á litlu stofunni voru stærri en á kvistherberginu og afríska brúðan á veggnum brosti með sína eldrauðu varir. Hann horfði út í húsagarðinn. Gekk fram að útidyrum og fór í yfirhöfnina nýju sem hún hafði hjálpað honum að velja.
Hann tók blindrastafinn sinn og setti upp dökku sólgleraugun. Þó úti væri niðdimm nótt, gerði hann þetta ósjálfrátt en ef til vill var það meðvitað. Hann var ekki búinn að jafna sig alveg eftir aðgerðina á augunum. Hann hafði verið orðinn alveg blindur. Nú sá hann nokkuð vel, en leið best í rökkri. Hann þoldi enn illa birtu í augun og bjóst við að það yrði eitthvað áfram. En árangur meðferðarinnar var undraverður. Hann fór varlega eftir stígnum og notaði stafinn til að vísa sér leiðina.
Þegar út á götu var komið taldi hann skrefin. Þetta voru ekki nema rúmlega tvö hundruð skref, þá var hann kominn út á götuhorn. Hann heyrði lágværa tónlist. Hún var ekki eins ofsafenginn og fyrr um kvöldið þegar hann gefið sig henni á vald. Þeldökka söngkonan var löngu gengin til náða.
Hann gekk inn á staðinn. Í annað sinn þessa nótt. Nú var hann einn. Velti fyrir sér nafni hans. Útskorið gyllt andlit var á húshorninu. Styttan geispaði. Gyllti geisparinn? Þannig hljómaði nafnið þegar hann var búinn að velta ýmsum útgáfum samanburðarmálfræðinnar fyrir sér. Nei það gengur ekki. Syfjaði sjómaðurinn. Þetta hlýtur að vera staður syfjaða sjómannsins. En hafið var langt í burtu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli