Þetta byrjaði allt fyrir fjórum árum síðan. Fjórtán hundruð og fjörtíu dögum. Um vorið. Það var eins og öll ævi hans hefði hrannast upp og atburðirnir greiptir í minningu hans. Hann sat á rúmstokknum í litla kvistherberginu og í djúpri gluggakistunni var pollur eftir úrhellið sem hann vaknaði við. Rigning í framandi borgum var allt öðru vísi en heima. Hvað var heima, velti hann fyrir sér þar sem hann horfði á fölan líkamann sem lá í rúminu og tunglskinið speglaðist í gylltum hárlokkum. Hann horfði lengi á lokuð augu manneskjunar sem svaf vært og litla örið á efri vörinni.
Úti sló klukkan í garðturninum tvö slög. Eitt fyrir mig og eitt fyrir þig hugsaði hann. Ómurinn lá lengi í loftinu og angan af ókunnugum trjánum barst í hreinu loftinu inn um gluggann. Loftið hafði hreinsast og mengunin, sem hafði legið yfir stórborginni hvarf eins og dögg fyrir sólu. Um miðja nótt.
Hann ímyndaði sér að hann heyrði skrjáfrið í laufblöðunum. Skyldi þetta vera eik eða hlynur. Hann þekkti ekki þessar útlendu trjátegundir of vel í sundur. Kirsuberjatréin voru í blóma. Bleik blómin gáfu frá sér ilm, sem hann var farinn að þekkja og kveiktu hjá honum kenndir. Hann sá fyrir sér grænar krónur stórra trjánna sem vörðuðu stíginn í garðinum heim að húsi hennar.
Garðurinn var umlukinn húsum á alla vegu. Í honum miðjum var lítið torg. Í vesturhorni garðsins, innan um linditréin var klukkuturninn. Við rætur hans uxu runnar með fögrum blómum. Rhododendrons ímyndaði hann sér.
Hann lagði við hlustir og skrjáfið. Jú það var þarna, en það blandaðist andardrætttinum í rúminu. Hann sá brjóstkassann lyftast undurlétt. Hún svaf alltaf nakin.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli