Viðburðarík helgi. Fór á hestbak með lögmanninum á laugardagsmorgni og dóttur hans. Ég hafði tvo til reiðar, í fyrsta sinn. Fyrri tilraunir mínar í þeim efnum hafa ekki gefist vel. Síðast þegar ég reyndi það, sýndi ég vítaverðan dómgreindarskort. Fór á Flygli og ætlaði að teyma Hóf. Þeir fóru fljótt í kapphlaup og virtu knapann að vettugi. Flækti tauminn í um handlegginn og reyndi að losa mig úr lykkjunni með annari hendi og hélt með hinni í tauminn á hestinum sem ég reið. Flygli. Báðir fældust. Missti loks Hóf á stökki og svo missti ég stjórn á Flygli. Svo kom beygja og ég tók hana ekki en það gerði Flygill.
Hef því verið hálf smeykur síðan við þetta. En nú í fylgd lögmannsins og dóttur hans lét ég vaða á ný. Nú sat ég Hóf og teymdi Glóa. Það gekk vel. Missti Glóa reyndar frá mér í tvígang. Í fyrra sinnið eftir við áðum undir brekku nokkurri og leyfðum klárunum að grípa niður. Fórum við af stað upp brekkuna bröttu og hestar lögmannsins og dóttur hans vildu mikið og þá mínir líka. Fljótt missti ég þá á stökk enda vorleikur í klárunum. Það var hið besta mál og ég glaður líka. Þar til ég sá að ég nálgaðist lögmanninn óðfluga aftan frá og mínir klárar gerðu sig líklega til aðfara sitt hvoru meginn við hann. Ég sá mína sæng útbreidda og þótti ráðlegast að kalla viðvörunarorð nokkuð hátt, hasta á klárana og svo þegar allt annað þraut sleppa taumnum svo ekki snaraði ég lögmanninn af baki. Allt fór þetta vel að lokum. Svo eiginlega missti ég Glóa aðeins frá mér í eitt skipti.
Á sunnudagsmorgni tók ég daginn snemma. Hafði mælt mér mót við skógfræðinginn, son lögmannsins. Okkar beið bjartur dagur og trjáplöntun. Mín biðu 235 vel ræktuð tré í bökkum og pottum. Var ekki um annað en að reyna að planta þessu áður en þau færu að vaxa niður úr stéttinni hjá honum. Hafa þessar plöntur verið í ríflega tvö ár í uppeldi hjá skógfræðingnum. Við byrjuðum um að setja 5 blákorn með hverri plöntu í bökkunum og eitthvað meira hjá þeim stóru. Vísindalega sannað að þetta væri réttur skammtur sagði skógfræðingurinn og vísaði í eigin tilraunir. Ekki vildi ég ofskammta áburðinn og fór nákvæmlega eftir fyrirmælum hans. Enda lært það með árunum.
Síðan fórum við tveir austur í landið og nutum sólar og minnti þetta um margt á þegar við vorum ungir menn og lögðumst í víking og plöntuðum trjám í Skotlandi, rétt skriðnir úr menntaskóla. Þá ferðuðumst við landið og út í eyjar. Í einni slíkri ferð fórum við út á Skye. Í þá daga drukkum við bara te með hunangi. Komum seint um kvöld og tjölduðum í dalverpi fögru á milli hárra fjalla. Áttum lítið matarkyns. Fórum því að sofa og næsta morgun samanstóð árbíturinn af einni appelsínu sem við skiptum jafnt á milli okkar og smurðum með hunangi. Síðan hafa appelsínur alltaf verið í ágætu uppáhaldi hjá mér. Ekki áttum við heitt vatn í te. Leituðum svo að krá eða veitingahúsi en fundum ekki og rak hungrið okkur upp á meginlandið á ný.
En þetta er útúrdúr.
Austur í landinum plöntuðum við populus trichocarpa. Úr urðu þrír trjálundir. Einn niður við veg, þar sem fyrirhugaður nýr afleggjari verður upp landið. Þar settum við 81 plöntu, af ýmsum stærðum og þroska. Allt frá bakkaplöntum upp í ríflega metershá tré. Næst settum við 84 plöntur í tjálund sem verður í reyrgresisspildunni í miðju neðra stykkinu. Loks 70 plöntur í lund neðarlega í efra stykkinu. Alls eru þetta 235 tré í þrem lundum.
Að afloknu góðu dagsverki sátum við og ræddum stórhuga plön um trjárækt á þessum 10 ha, en landið liggur held ég vel til skógræktar næst við hliðina á Sólheimum í Grímsnesi þar sem mikil skógrækt er. En til að verða carbo neutral reiknaðist skógfærðingnum til að ég þyrfti að planta 14.750 trjám í viðbót.
Setti nýtt met um helgina. Hef mætt í ræktina á hverjum degi í ríflega 3 vikur.