31. maí 2006

Ævintýri á gönguför

Fór síðdegis í gær með gönguklúbbi í fyrstu Esjugönguna. Rigningarsuddi var og þegar upp í fjallshlíðina kom var hvasst. Gengið var upp að Steini og en ekki þótti ráðleggt að fara ofar. Á bakaleiðinni var rigningin í andlitið og virkaði meir eins og haglél.

Heimkominn og hugsandi um afrek dagsins varð til þessi limra:
Í gærdag ég örlögum ögraði
upp fjallið klúbburinn flögraði
og ég sem óður
á eftir þeim móður
næstum alla leið á Esjuna skjögraði


Fékk svo sendingu og hvatningu frá kollega mínum LG á þessa leið

Þótt slagviðrið kýlist í kroppinn
og kuldinn mjög geri þig loppinn
ei stöðvar þig þreytan
og því síður bleytan
af þolgæði kemstu á toppinn.

29. maí 2006

Regnblá

Hvítur fákur minn
svífur um himinhvolfin
og ber þér kveðju
í óra fjærlægðinni
hjá regnbláum fjöllunum.

28. maí 2006

Endurfundir

Nýr titill þessarar bloggsíðu er sóttur í ljóð Hannesar Péturssonar.


Ég hef rifjað upp í kvöld
raddirnar sem ég þekkti
rödd lækjarins í grasinu
rödd hafsins
raddir vindsins og fuglanna
og raddir okkar sjálfra.
Trúði varla eyrum mínum.
Öllu hafði ég gleymt.

Trúði varla augum mínum:
sjá enn skinu stjörnurnar
enn kom ljós þeirra hér við
á leið sinni um geiminn.

Líka það
var mér liðið úr minni

Höf: Hannes Pétursson, 1965

27. maí 2006

Urt

Þegar þú lest ljóð
heyri ég í rödd þinni
hljóma sem snerta
rætur tilvistar minnar
og upp vex blómstrandi urt

26. maí 2006

Dómharka

Hleypir skeiði hörðu
halur yfir ísa
glymja járn við jörðu,
jakar í spori rísa.
Hátt slær nösum hvæstum
hestur í veðri geystu.
Gjósta af hjalla hæstum
hvín í faxi reistu.

Hart er í hófi frostið;
hélar anda á vör.
Eins og auga brostið
yfir mannsins för
stjarna, stök í skýi,
starir fram úr rofi.
Vakir vök í dýi
vel, þótt aðrir sofi.

Vötn í klaka kropin
kveða á aðra hlið,
gil og gljúfur opin
gapa hinni við.
Bergmál brýst og líður
bröttum eftir fellum.
Dunar dátt í svellum:
Dæmdur maður ríður!

höf: Einar Benediktsson
Flótti séra Odds...

25. maí 2006

Bragfræðibull

Sá eitthvað sem kveikti í mér svo til varð þessi vísa. Býst við að það hafi verið bragfræðibull.


Fátt í tómum heila hrærist
er heimskur reynir að yrkja.
Vonandi þó að ljóðið lærist,
þeim er lægri endan virkja.
Betri en skjóða breytnin er!
Burt þá sálin tifar
fagnar gesti himna her.
Hér er góðverk skrifað!

Ærir sinnir af og til viðvikum utan vinnu. Hann hefur þá reglu að taka aldrei neitt fyrir slíkt, en hlýtur oft að launum óvæntan glaðning. Þessi vísu fékk hann eftir að hafa skrifað eitt Rx fyrir kunningjakonu sína eða mann hennar, -Steinunni.

24. maí 2006

Ilmur af nýslegnu grasi

berst inn um gluggann minn

Þorkell þunni

Rifjum upp ljóð Jónasar Hallgrímssonar um Þorkel þunna í tilefni þessa árstíma.

Friðar biðjum Þorkeli þunna,
þagnar er hann setztur við brunna.
Óskemmtileg ævi mun vera
ekkert sér til frægðar að gera.

Fyrrum hann í söngmanna sessi
sagt er gæti tekið á vessi:
Hábeljandi glumdi við gleði,
golufylltur naumast sér réði.

Uppstigningar æðstum á degi
engin von er söngmaður þegi.
Hermdu, Bragi, höfðingi ljóða,
hvernig gekk þá "skrímslinu góða"?

Að er komið útgöngusálmi. -
Eins var það sem gneistar í hálmi,
þegar rauðum þeytir upp glóðum:
Þorkell verður allur að hljóðum.

Hausinn upp að kórstaf hann keyrir,
kúgast, svo úr nefinu dreyrir,
úr sér másar óskaparoku,
álíkt dimmri leirhverastroku.

Eins og þegar flugdrekar forðum
fleyttu um loftið glóandi sporðum,
skyggðu fyrir sólina sælu,
sátu menn í gjörningabrælu. -

Svo var inni í kórnum að kalla.
Kreppist hý á öldruðum skalla.
Sumir hættu sjálfir að drynja,
sumir fóru að emja og stynja.

Allir sneru augum frá jörðu,
upp í rjáfrið grátandi störðu.
Skalf og sveigðist þakið út þanda
Þorkels fyrir losnuðum anda.

Geggjast allur guðsorða lestur,
á grátunum tvístígur prestur,
hleypir nú í hempuna vindi,
hrökkur út úr kirkjunni í skyndi.

Í sama bili er sálmurinn búinn,
situr Keli móður og lúinn.
Öllum finnst sem eitthvað sig dreymi.
Aldrei meiri þögn varð í heimi.

Djákni fyrstur raknar úr roti,
rann sem mús úr nauðungarskoti,
fær sér bók og hættir að hrína,
herðir sig með bænina sína.

En á meðan út er að klykkja,
á er komin söguna lykkja. -
Þorkell æpir: "Hættu að hringja!
Hef ég ekki lof til að syngja?"

Að svo mæltu aftur hann byrjar,
upp og niður gengur og kyrjar.
Flýr þá, eins og fæturnir toga,
fólk sem stæði kirkjan í loga.

Seinna var hann sóttur í kórinn,
svartur var þá á honum bjórinn,
örendur og oltinn á hnakkann.
Á útgönguversinu sprakk hann.

(höf: Jónas Hallgrímsson)

Lifið heil!

23. maí 2006

Ærir er ekki yfir gagnrýni hafinn ......

Beðist er velvirðingar en athugasemdakerfið hjá mér hefur verið vanstillt og ekki virkað. Fékk loks ábendingu þar að lútandi og held mér hafi tekist að leiðrétta það. Amk einhver ný komment komin á færslur síðustu daga.

Hafði bara ekki grænan grun um að þetta væri í steik.....

Vent, henter dokumentoplysninger....

mikið óskaplega er sumt leiðinlegt á vefnum....

Nú er hann kaldur

hefði betur ekki farið í klippingu. Í 4 mm skeggi er lítil hlíf. Þekkti heldur ekki manninn sem kom úr klippingunni. Ó guð. Það snjóar í Reykjavík.

Ljóðheimar

Ljóð þitt myndast við
þögn í sindrandi huga.
Það hverfur um skeið
en birtist síðan á ný
í ókunnugum heimi.

22. maí 2006

Heiðin (12)

Hann lagðist til svefns eftir erfitt dagsverk. Um nóttina hurfu draumarnir í svefnhöfga. Martraðir eru ekki draumar. Hann átti draum sem hann yfirgaf á nóttunni en birtist aftur við sólarupprás.

Staka fyrir stelpur

Í köldum gusti kúra inni
með kafalds hríð á skjánum
Heitan blástur held þær finni
hér í grænum trjánum

Tanka

Þú flýðir á fjöll,
í létt og blátt loft þeirra
og heilnæmt frelsi.
En sæki þig angur þar,
hvert áttu þá að flýja

(Ósíkotsí Mitsúne (9.öld) - þýð. Helgi Hálfdánarson)

21. maí 2006

Viska af netinu

Að láta alla vini þína finna að þeir eru mikils virði
Að horfa á bjartari hliðar lífsins og láta óskir þínar rætast
Að hugsa aðeins um það besta, vinna að því besta og búast við hinu besta
Að vera jafn áhugasamur um velgengni annarra eins og þína eigin
Að gleyma mistökum fortíðarinnar og stefna að betri árangri í framtíðinni
Að vera glaðlegur og eiga bros handa öllum sem þú mætir
Að gefa þér mikinn tíma til þroska sjálfa þig
Að þú hafir engan tíma til að gagnrýna aðra
Að vera of stór fyrir áhyggjur, of öruggur fyrir reiði, of sterkur fyrir ótta og of hamingjusamur til að leyfa vandamálum að festa rætur

20. maí 2006

Björt kvöld

I
Maínóttin fer að-
elda kveikir í norðri
bálköst við bálköst á himni
en í borginni rökkvar.
Göturnar þagna, hætta
að hugsa upphátt - og stara
gulum ljósglyrnum.
Öll hverfast húsin um sjálf sig
full af skrafi og kossum.

Í baksýn fjöll
með brennandi ský á herðum.

II
Dagsetur.
Dimmrauð fjöllin við sjónhring
og enn fjöll
sem fjær blána
ofar, norðar-
og ísbjört víðerni landsins.
Að baki þeirra vegur minn
til vorsins niður við ána
til sjálfs mín, handan stríðsins
þegar stundirnar drupu hægt
á gamallegar sveitir
frá sól til mána.

III
Stendur við afl sinn
eldsmiðurinn mikli.
Um blá loft
bjarmar af sindurfoki!

Og nú dregur hann loks
úr logaskýjum
rauðhitaða sól
og sökkvir henni í kalda
sævardeiglu fjarðarins.

Þar herðist hún að nýju
í hvítt ljós!


Ljóðið Björt kvöld er eftir Hannes Pétursson.

19. maí 2006

Le Monde

Heimurinn er fallegur. Maður þarf bara að líta í kringum sig. Það er t.d. fallegt að keyra Miklubrautina núna og sjá gróðurinn græna og blómin í vegkantinum.

Próflok og puð

Fór út að borða í gærkveldi með yngri syninum. Hann var í síðasta prófinu í gær, - styttist í stúdents áfangann. Í tilefni dagsins drifum við okkur í bæinn og fundum ágætt karla-restúrant með þokkalegum steikum. Fórum svo og fengum okkur ís í brauðformi í góða veðrinu. Misstum af euro.

Báðir höfðum við nokkru að fagna, -hann sínum próflokum og ég því að hafa haldið út að fara í þrælapúlið í 4 vikur og 3 daga á hverjum degi nánast, aðeins misst úr tvo daga. Annars mætt daglega. Reyndar tvívegis aðeins í sund (og sólbað). Bætti við öðrum fjórum vikum á kortið í baðhúsinu, svo puðið heldur áfram. Ekki veitir af...

18. maí 2006

Að leiða kínverska stúlku
í kínverskum garði

að vita jörðina undir fótum sér
horfa á stjörnurnar í himninum
og tvær stjörnur á ská í andliti þínu
tvær fallegar stjörnur

að elska kínverska stúlku
í kínverskum garði


(úr ljóðinu Myndir 1. úr bókinni Ljóð Vilmundar.
Vilmundur Gylfason, 1983)

16. maí 2006

Heiðin (11)

Á milli regnhviðanna áttaði hann sig á hættum auðnarinnar. Hann yrði. Já hann yrði að koma sér upp skjóli. Náttúran gat verið hörð. Hann leit í kringum sig og ákvað að ganga að hraunjaðrinum. Hann gekk yfir lágan malarkambinn meðfram ánni og skoðaði eyrarrósina sem þar óx í löngum breiðum í dældum sem jökuláin hafði áður grafið í beljandi ham.

Hraunkanturinn var ríflega mannhæðahár og á einum stað var hvilft. Undan hrauninu komu frissandi lindir og hvannabreiður nærðust á fersku fjögura gráðu köldu vatninu.

Hann leit í kringum sig og sá að bláin brosti framan í sólina. Skin á milli skúra. Hann virti fyrir sér fíngert blómið, svona undurfagurt og dökkblátt, sem aðeins opnaði sig í glaða sólskini.

Hann byrjaði að safna hellum í skjólvegg. Hann gæti notað kantinn á hraunjaðrinum sem var þverhníptur í hvilftinn sem tvo veggi. Hann þyrfti bara að hlaða í hálfhring. Hraunhellurnar voru þungar og hann varð blóðrisa á fingrum við að rífa þær upp. En verkið mjakaðist áfram. Hér byggði hann sitt hús á nýjum stað og á nýjum forsendum. Hann var ekki í mannabyggðum.

12. maí 2006

Fimmtíu- og-sjö-dagar

virkir
í frí
í sumar.
ótrúlegt
en loks
staðfest.
greinilega
unnið of mikið
hér áður fyrr
því um gamalt og
uppsafnað frí er ræða
sem ég hélt að hefði glatast
að eilífu. þökk hafi réttlátir embættismenn

Heiðin (10)

Þjónustustúlkan kom að borðinu og spurði hvort ekki mætti færa honum hressingu. Dagur væri að renna upp og þau myndu byrja að bera fram morgunverð innan tíðar. Te, te takk svaraði hann og jú endilega útbúa morgunverð. Eitthvað, en ekki mikið. Alveg sama hvað. Hann hafði ekki beint skoðun á því og það yrðu bara vandræði að reyna að lesa matseðilinn. Hún brosti og gekk í burtu. Kom með hnífapörin vafinn inn í hvíta servíettu. Svo kom tevatnið. Hann fékk sér Earl Grey að vanda. Svo horfði hann á servíettuna og tók hana og vafði utan af. Amboðin ultu fram á borðið.

Hann kipptist til. Næstum kastaðist aftur þegar hann sá hvað var í servíettunni. Það brakaði í stólnum og í sömu andrá hélt hann að stóllinn myndi brotna. Tveir hnífar. Það voru tveir hnífar í hvítri servíettunni, en hvorki gaffall né skeið. Hnífapar. Þjónustustúlkan hlýtur að hafa gert mistök hugsaði hann. Hún getur ekki hafa vitað. Ósjálfrátt hneppti hann þriðju tölunni ofan frá á skyrtunni með hægri hendinni og þreifaði á brjóstkassanum.

10. maí 2006

Brosa ber í dag

Undarleg var sólin í fyrrakvöld. Glóandi eldhnöttur sveif yfir borginni. Ærir undirbýr frí, helst langt í sumar. Nýjasta hugmyndin að leggjast í víking. Leigja hús í suðrænu landi og setjast við ritstörf í nokkrar vikur. Er byrjaður á nýju verki (samhliða öðru) sem hefur vinnuheitið "brosa ber í dag", - ætli það verði ekki ærslafullur gleðileikur.

8. maí 2006

Heiðin (9)

Hann stóð fyrir innan dyrnar á kránni. Hann sá allt óglöggt, en mundi að ef hann gekk beint inn þá kæmi hann að tveim þrepum sem hann yrði að ganga upp. Þar var borðið hans. Hann hafði setið við það þegar hún hafði komið og heilsað honum. Tónlistin var enn í bakgrunni, en nú var það gömul grammafónplata. Laglínan var ekki eins villt og áður þegar hann hafði hrifist með. Það var ótrúlegt hvað önnur skilningarvit höfðu þroskast á þessum tíma frá því hann hafði misst sjónina. Sérstaklega snertiskynið. Húðin var öll svo miklu næmari og rytmi tónlistarinnar náði til hans á annan hátt en áður. Hann skynjaði; tónlist, liti og umhverfið á allt annan hátt en fyrr.

Hann notaði blindrastafinn til að forðast að reka sig á og finna þrepin. Hann settist á ný við borðið. Tíminn hafði liðið og fáir voru en eftir. Hann lét hugann líða að kvöldinu. Hún hafði spurt hvernig það væri að vera blindur. Hann afsakaði sig og sagði að hann væri það nú eiginlega ekki lengur. Hann hefði verið í aðgerð sem hefði heppnast vel. Hún varð enn forvitnari. Hvernig er það að hafa verið blindur og fá svo sjónina aftur, spurði hún. Hann hugsaði sig um. Það er ekki svo slæmt að vera blindur, svaraði hann. Ég meina sjóndapur. Ég þekki fólk sem er alsjáandi en samt alveg blint.

Carbo neutral

Viðburðarík helgi. Fór á hestbak með lögmanninum á laugardagsmorgni og dóttur hans. Ég hafði tvo til reiðar, í fyrsta sinn. Fyrri tilraunir mínar í þeim efnum hafa ekki gefist vel. Síðast þegar ég reyndi það, sýndi ég vítaverðan dómgreindarskort. Fór á Flygli og ætlaði að teyma Hóf. Þeir fóru fljótt í kapphlaup og virtu knapann að vettugi. Flækti tauminn í um handlegginn og reyndi að losa mig úr lykkjunni með annari hendi og hélt með hinni í tauminn á hestinum sem ég reið. Flygli. Báðir fældust. Missti loks Hóf á stökki og svo missti ég stjórn á Flygli. Svo kom beygja og ég tók hana ekki en það gerði Flygill.

Hef því verið hálf smeykur síðan við þetta. En nú í fylgd lögmannsins og dóttur hans lét ég vaða á ný. Nú sat ég Hóf og teymdi Glóa. Það gekk vel. Missti Glóa reyndar frá mér í tvígang. Í fyrra sinnið eftir við áðum undir brekku nokkurri og leyfðum klárunum að grípa niður. Fórum við af stað upp brekkuna bröttu og hestar lögmannsins og dóttur hans vildu mikið og þá mínir líka. Fljótt missti ég þá á stökk enda vorleikur í klárunum. Það var hið besta mál og ég glaður líka. Þar til ég sá að ég nálgaðist lögmanninn óðfluga aftan frá og mínir klárar gerðu sig líklega til aðfara sitt hvoru meginn við hann. Ég sá mína sæng útbreidda og þótti ráðlegast að kalla viðvörunarorð nokkuð hátt, hasta á klárana og svo þegar allt annað þraut sleppa taumnum svo ekki snaraði ég lögmanninn af baki. Allt fór þetta vel að lokum. Svo eiginlega missti ég Glóa aðeins frá mér í eitt skipti.


Á sunnudagsmorgni tók ég daginn snemma. Hafði mælt mér mót við skógfræðinginn, son lögmannsins. Okkar beið bjartur dagur og trjáplöntun. Mín biðu 235 vel ræktuð tré í bökkum og pottum. Var ekki um annað en að reyna að planta þessu áður en þau færu að vaxa niður úr stéttinni hjá honum. Hafa þessar plöntur verið í ríflega tvö ár í uppeldi hjá skógfræðingnum. Við byrjuðum um að setja 5 blákorn með hverri plöntu í bökkunum og eitthvað meira hjá þeim stóru. Vísindalega sannað að þetta væri réttur skammtur sagði skógfræðingurinn og vísaði í eigin tilraunir. Ekki vildi ég ofskammta áburðinn og fór nákvæmlega eftir fyrirmælum hans. Enda lært það með árunum.

Síðan fórum við tveir austur í landið og nutum sólar og minnti þetta um margt á þegar við vorum ungir menn og lögðumst í víking og plöntuðum trjám í Skotlandi, rétt skriðnir úr menntaskóla. Þá ferðuðumst við landið og út í eyjar. Í einni slíkri ferð fórum við út á Skye. Í þá daga drukkum við bara te með hunangi. Komum seint um kvöld og tjölduðum í dalverpi fögru á milli hárra fjalla. Áttum lítið matarkyns. Fórum því að sofa og næsta morgun samanstóð árbíturinn af einni appelsínu sem við skiptum jafnt á milli okkar og smurðum með hunangi. Síðan hafa appelsínur alltaf verið í ágætu uppáhaldi hjá mér. Ekki áttum við heitt vatn í te. Leituðum svo að krá eða veitingahúsi en fundum ekki og rak hungrið okkur upp á meginlandið á ný.
En þetta er útúrdúr.

Austur í landinum plöntuðum við populus trichocarpa. Úr urðu þrír trjálundir. Einn niður við veg, þar sem fyrirhugaður nýr afleggjari verður upp landið. Þar settum við 81 plöntu, af ýmsum stærðum og þroska. Allt frá bakkaplöntum upp í ríflega metershá tré. Næst settum við 84 plöntur í tjálund sem verður í reyrgresisspildunni í miðju neðra stykkinu. Loks 70 plöntur í lund neðarlega í efra stykkinu. Alls eru þetta 235 tré í þrem lundum.

Að afloknu góðu dagsverki sátum við og ræddum stórhuga plön um trjárækt á þessum 10 ha, en landið liggur held ég vel til skógræktar næst við hliðina á Sólheimum í Grímsnesi þar sem mikil skógrækt er. En til að verða carbo neutral reiknaðist skógfærðingnum til að ég þyrfti að planta 14.750 trjám í viðbót.

Setti nýtt met um helgina. Hef mætt í ræktina á hverjum degi í ríflega 3 vikur.

5. maí 2006

Heiðin (8)

Hann hrökk við. Regnið buldi á kinnum hans. Hann leit í kringum sig og sá aðeins heiðbláan himinn. Fugl vappaði á bakanum við hlið hans. Það var ekki þrösturinn sem kom á hverjum degi í litlu brekkuna fyrir utan skrifstofuglugga hans. Hvernig ætli sé að svífa skýjum ofar. Hann leit niður og sá að hann hafði fallið hné. Hann mundi ekki hvenær eða hvernig. Hversu lengi hafði hann kropið þarna hreyfingalaus.

Hann skimaði til allra átta. Allt var hljótt. Regnið rann niður að munnvikum. Vatnið tók að gárast. Litlar öldur brotnuðu á steinum við vatnsborðið. Hann hugsaði um hafið. Öldurót kom í hugann. Grænn og úfinn sær. Brim sem brotnar við klettótta strönd. Hann reyndi að muna ljóðin sín en ekkert þeirra kom í hugann. Hvers vegna hafði hann tekið upp á því að yrkja. Ekkert svar. Hann gat ekki munað ljóðið um hafið og fleyið sem brotnaði í smátt. Engin ljóð komu í hugann. Hann hafði brennt þau öll í bræði. Eldsmatur. Þetta er bara eldsmatur, hafði hann hugsað. Hann var alveg tómur.

Nú byrjaði lag djúpt í huga hans. Það varð sterkara og og á köflum ómstríðara eins og hljómsveitin bærist nær og yfirgnæfði regnið sem ekki var til staðar, en bleytti vanga hans. Þetta er gamall slagari var eina hugsunin. Hann tók undir hljómlausri röddu.

Þú komst að kveðja í gær.
Þú kvaddir og allt varð svo hljótt.
Á glugganum frostrósin grær.
Ég gat ekkert sofið í nótt.
Hvert andvarp frá einmanna sál,
hvert orð sem var myndað án hljóms,
nú greinist sem gaddfreðið mál
í gerfi hins lífvana blóms.

Er stormgnýrinn brýst inn í bæ
með brimhljóð frá klettóttri strönd.
En reiðum og rjúkandi sæ
hann réttir oft ögrandi hönd.
Ég krýp hér og bæn mína bið,
þá bæn, sem í hjartað er skráð.
Ó, þyrmd´onum, gefð´onum grið.
Hver gæti mér orð þessi láð?




------------------------------------------------------------------
(lagið Frostrósir er eftir Freymóð Jóhannsson, úr Svarfaðardal, 1895-1973).

Heiðin (7)

Hann steig nokkur skref aftur í rökkrinu og lét tunglsljósið lýsa sér. Hann tók upp fötin sín og klæddi sig í. Allar hreyfingar voru hægar. Fikraði sig svo fram á stigapallinn og lokaði varfærnislega á eftir sér. Gekk niður brattann stigann. Hann settist inn í stofuna og fékk sér vatnsglas. Hann var þyrstur. Ekki nema von, hugsaði hann og brosti að tilhugsuninni sem kviknaði. Gluggarnir á litlu stofunni voru stærri en á kvistherberginu og afríska brúðan á veggnum brosti með sína eldrauðu varir. Hann horfði út í húsagarðinn. Gekk fram að útidyrum og fór í yfirhöfnina nýju sem hún hafði hjálpað honum að velja.

Hann tók blindrastafinn sinn og setti upp dökku sólgleraugun. Þó úti væri niðdimm nótt, gerði hann þetta ósjálfrátt en ef til vill var það meðvitað. Hann var ekki búinn að jafna sig alveg eftir aðgerðina á augunum. Hann hafði verið orðinn alveg blindur. Nú sá hann nokkuð vel, en leið best í rökkri. Hann þoldi enn illa birtu í augun og bjóst við að það yrði eitthvað áfram. En árangur meðferðarinnar var undraverður. Hann fór varlega eftir stígnum og notaði stafinn til að vísa sér leiðina.

Þegar út á götu var komið taldi hann skrefin. Þetta voru ekki nema rúmlega tvö hundruð skref, þá var hann kominn út á götuhorn. Hann heyrði lágværa tónlist. Hún var ekki eins ofsafenginn og fyrr um kvöldið þegar hann gefið sig henni á vald. Þeldökka söngkonan var löngu gengin til náða.

Hann gekk inn á staðinn. Í annað sinn þessa nótt. Nú var hann einn. Velti fyrir sér nafni hans. Útskorið gyllt andlit var á húshorninu. Styttan geispaði. Gyllti geisparinn? Þannig hljómaði nafnið þegar hann var búinn að velta ýmsum útgáfum samanburðarmálfræðinnar fyrir sér. Nei það gengur ekki. Syfjaði sjómaðurinn. Þetta hlýtur að vera staður syfjaða sjómannsins. En hafið var langt í burtu.

Heiðin (6)

Hann sat í húminu og gat hann heyrt rödd manneskjunnar. Vocalísa. Hljómfall raddar hennar. Hún andaði svo létt í svefninum. Blæbrigðin eftir því hvort hún var glöð eða áhyggjufull snerti strengi sem hann þekkti ekki áður. Nú þekkti hann röddina svo vel. Betur en sína eigin rödd. Angandi blómalykt lék um vit hans og á vörum hans var saltbragð. Snerting. Hann gekk út að kvistglugganum og horfði á klukkuturninn.

Fjarlæg borg. Tungumál hennar var framandi. Hann var nýlega farinn að greina orðaskil og þau höfðu fundið sitt sameiginlega mál. Það var alveg sama þó hann skyldi ekki orð. Eitt orð í einu. Hægt. Svo undur hægt. Og svo byrjuðu þau aftur.

Hann gat setið og hlustað allan daginn og horft á hana tala við aðra. Ætli þetta sé að vera hugfanginn. Getur maður verið það án þess að skilja orð? Hann vildi strjúka laust yfir enni hennar og velti fyrir sér draumum hennar. Óskaði að hann skyldi tungumál drauma hennar?

4. maí 2006

Heiðin (5)

Þetta byrjaði allt fyrir fjórum árum síðan. Fjórtán hundruð og fjörtíu dögum. Um vorið. Það var eins og öll ævi hans hefði hrannast upp og atburðirnir greiptir í minningu hans. Hann sat á rúmstokknum í litla kvistherberginu og í djúpri gluggakistunni var pollur eftir úrhellið sem hann vaknaði við. Rigning í framandi borgum var allt öðru vísi en heima. Hvað var heima, velti hann fyrir sér þar sem hann horfði á fölan líkamann sem lá í rúminu og tunglskinið speglaðist í gylltum hárlokkum. Hann horfði lengi á lokuð augu manneskjunar sem svaf vært og litla örið á efri vörinni.

Úti sló klukkan í garðturninum tvö slög. Eitt fyrir mig og eitt fyrir þig hugsaði hann. Ómurinn lá lengi í loftinu og angan af ókunnugum trjánum barst í hreinu loftinu inn um gluggann. Loftið hafði hreinsast og mengunin, sem hafði legið yfir stórborginni hvarf eins og dögg fyrir sólu. Um miðja nótt.

Hann ímyndaði sér að hann heyrði skrjáfrið í laufblöðunum. Skyldi þetta vera eik eða hlynur. Hann þekkti ekki þessar útlendu trjátegundir of vel í sundur. Kirsuberjatréin voru í blóma. Bleik blómin gáfu frá sér ilm, sem hann var farinn að þekkja og kveiktu hjá honum kenndir. Hann sá fyrir sér grænar krónur stórra trjánna sem vörðuðu stíginn í garðinum heim að húsi hennar.

Garðurinn var umlukinn húsum á alla vegu. Í honum miðjum var lítið torg. Í vesturhorni garðsins, innan um linditréin var klukkuturninn. Við rætur hans uxu runnar með fögrum blómum. Rhododendrons ímyndaði hann sér.

Hann lagði við hlustir og skrjáfið. Jú það var þarna, en það blandaðist andardrætttinum í rúminu. Hann sá brjóstkassann lyftast undurlétt. Hún svaf alltaf nakin.

1. maí 2006

Ljóð dagsins

Í dag, 1 maí, er ljóð dagsins á ljóð.is ljóðið mitt. Ekki beint 1. maí ljóð. Kannski þó. Þetta er í annað sinn á árinu sem ljóð frá mér hefur hlotið þessa vegsemd. Ótrúlegt nokk. Það heitir Í mörkinni en var upphaflega skráð hér sem Markland.