Systir bauð föðurættinni okkar í kvöldmat í kvöld. Það var veisla. Haldið upp á gamla siði. Sauð siginn fisk og selspik (af Ströndum) og fjallagrasmjólk (grös úr Ófeigsfirði) í eftirrétt. Langborð eftir allri stofunni, borðum raðað saman og þétt setið. Almennilegt framtak það systir góð.
Mættur var sá hluti fjölskyldunnar sem oft kom saman á Grettó hjá Ellu og Önnu frænku og hefur haldð þeim sið að hittast á Þorláksmessu og borða skötu saman. Ella frænka var fjærri góðu gamni, á spítalanum, -en er öll að hressast. Settist upp í dag og fór í peysu og spjallaði heilmikið. Anna frænka er 90 ára, orðin mjög sjóndöpur en óskaplega hress. Hún lét sig náttúrulega ekki vanta. Ef maður hefði bara helmingin af hreysti hennar og glaðlyndi. Já þetta var fjölskylduveisla sem bragð var af.
En til að þola þennan mat fór Ærir að loknum vinnudegi og heimsókn til frænku sinnar, í ræktina. Gekk ríflega 4 km út í geim og það er sko púl fyrir linan skrokk og vanræktann og svo voru gerðar skylduæfingar fyrir blessaðan magann. Svei mér er hann minnkar ekki, en nú er bara spurning hvor átakið hafi farið veg allan veraldar með selspikinu af Ströndum (jæja sumt borðar maður nú reyndar ekki mikið af hvort sem er).
Lauk svo æfingum í baðhúsinu, í saltvatnspæklinum, með dökka kínverska steininum sem er mótaður eins og ungmeyjar bakhluti og loks í hvíldarherberginu. Maðurinn í þar, -þar, -þar næsta stóli var greinilega búinn að færa sig því nú sat hann í -þar, -þar, -þar, -þar næsta stóli og hraut. Ótrúlegt. En gott hann hefur staðið upp á milli blunda hugsaði ég.
Mikið er manni létt að vetur er liðinn. En svo er ég á bakvakt á morgun, og skrýtið nokk. -Þá kemst ég ekki á bak. Kannski ég fari samt í bað og púli og fagni sumri og byrji daginn á að gefa hrossunum.
19. apríl 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Gleðilegt sumar! Eftir 19 ár útlegð þá finnst mér sumardagurinn fyrsti í senn dásamlegur og absúrd. k
Já, það er gott að þessi vetur er liðinn. Gleðilegt sumar :)
Skrifa ummæli