14. apríl 2006

In Memoriam á föstudaginn langa


Ég kveð þig fugl er flaugst yfir hafið
og færðir gleði og birtu í mitt líf
Nú flýgur þú aftur og ferðast um heiminn
og finnur á ný einhverja einmanna sál,
á erlendum ströndum sem fagnar þeim söng
er að morgni þú syngur í byrjun hvers dags

En minningin lifir og mun eg ei gleyma,
magnþrungnum vængjum er báru þig hátt
Ég hélt að ég gæti og trúði í senn
í augnabliks gleði að flogið ég gæti
um heim allan bjartan á vængjunum þeim,
við hálsin þinn hvíta og brjóstið þitt rauða

Við bárumst til Kína og byggðum í huga
heim okkar nýjan, þar sem bættist allt böl
Á framtíð við trúðum, um frelsið við dreymdum
en földumst í skugga án birtu og ljóss,
í skugganum fölnar og skemmist hver urt
og fuglarnir villast af leið yfir hafið

Við töpuðum áttum, enn upp hófum flugið
að sólinni stefndum, við geislunum fylgdum
er brennandi heitir í fiðrinu kveiktu
og þú fuglinn minn fagri þú logaðir bjartur
sem fönix þú hverfur, aska er ein eftir
en upp ríst þú aftur í einhverjum lendum
og syngur þinn óð fyrir glaðværa sál

Ég kveð þig fugl, er flaugst yfir hafið
en minning lifir og mun eg ei gleyma
Nú syng ég að morgni sérhvern söng
er þú kenndir, en sárt brenna geislar
í brjósti mér und er skugginn þinn
skyldi eftir brennandi heitur

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

vááá gott að sjá að ljóðin þín aftur þó ég tárfelli yfir textanum.Þú ert náttúrlega frábær.Kv sys

ærir sagði...

Takk, sys. Ærir biðst velvirðingar á verkfræðilegri uppbyggingu verksins...

ærir sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
ærir sagði...

Ekki það að verkfræðileg uppbygging skipti miklu máli í þessu tilfelli. Ærir er ekki allt of formfastur og stífur. Hann er hættur að afsaka sig.