12. apríl 2006

Dx: gula

Ærir gerði læknamistök á föstudaginn. Í meðferð hjá honum er eldri kona svolítið skert eftir mikil veikindi. Hún tók upp því fyrir um tveim vikum að kvarta um verk í hægri síðu. Greindist fljótt með gallsteina, ofan á allt annað blessuð konan. Fór í aðgerð í vikunni á undan og svo tveim dögum áður en hún kom til mín aftur, fór hún í gallvegaskoðun innan frá. Svo tók hún upp á því á föstudagseftirmiðdaginn (svona rétt fyrir kl 15:30) að kvarta um meiri verki í kviðnum og þenjast út. Af þessu höfðu hjúkrunarfræðingar áhyggjur og Ærir fenginn til að líta til hennar. Við fyrstu sín blasti við að konan var heiðgul. Ærir var fljótur að greina gallvegastíflu og senda hana til lækna á spítala sem kunna að meðhöndla slíkt, enda það best svona rétt fyrir kl 16:00. Hann undraðist þó hversu hress hún var og hafði í raun lítil önnur einkenni.

Nú fer Ærir með veggjum, eins gott að hann á nýja skó og yfirhöfn, því ekki reyndist konan með stíflaða gallganga eða lifrarsjúkdóm. Ó nei. Hún var ekki með trufluð lifrarpróf umfram það sem vænta mátti 7 dögum eftir aðgerð. Ó nei, sjúkdómsgreining Æris var röng.

Það kom nefnilega í ljós að nokkrum dögum áður hafði hjúkrunarlið deildarinnar tekið sig til og ákveðið að stjana við og hjálpa konunni við snyrtingu svo hún liti betur út. Já og nema hvað. Þær báru á hana svokallað brúnkukrem sem með tímanum gefur húðinni gulleitan blæ. Gulu. Þetta vissi Ærir ekki.

Ærir hefur greinilega lítið innsæi inn í snyrtiheim kvenna. Klínisk greining var rétt, en etiologian (orsökin) var kolröng hjá sveitalækninum.

En svona geta konur villt á sér heimildir og Ærir fallið fyrir því hugsaði hann. Útlitið er ekki allt. Í þessu tilfelli var útlitið ekki í lagi en innrætið í góðu lagi.

2 ummæli:

Fríða sagði...

Þetta hefðirðu vitað ef þú hefðir verið 25 ára stúdent í sumar sem leið og fylgst með undirbúningi 25 ára stúdínanna... það var mikil og skemmtileg stúdía í mannlegu eðli og hégómagirni :) Ákaflega gaman.

ærir sagði...

hugsandi til baka þá hef ég sennilega rekist einu sinni áður á þetta fyrirbæri. vissi ekki að það væri svona algengt, hélt þá að það gæti verið einhverjar pillur sem yllu því :)