Ærir fagnaði nýjum fjölskyldumeðlim í ættinni í dag. Var í skírn hjá bróðurdóttur sinni. Bróðir minn er næst ríkasti maður í heimi. Eg á frábæra syni tvo sem gera mig þann ríkasta (í eigin huga). En bróðir fékk nafna. Guðbjörn Máni var skírður í dag, laglegur snáði. Þar voru miklar veitingar og ég spurður um átakið mitt nýjasta. Hvort ég væri virkilega svona upptekin af því að ég hefði ekki einu sinni tíma til að skrifa um það. Vildi að svo væri.
Hét því að drífa mig í ræktina og gerði það síðdegis áður en ég fór í hesthúsið að gefa. Fannst það líka við hæfi, að taka út iðrunina á eigin skrokk. Er að verða katólskari, meir og meir. Hefði þurft að skrifta, en ekki þýðir að gera það á netinu. Ekki get ég farið og látið hýða mig fyrir framan allar höfuðkirkjur, né farið á hnjánum upp scala sancta og farið með eitt Maríuvers í hverri tröppu.
Ég dreif mig í ræktina og ákvað að vera góður við sjálfan mig um leið. Píska mig út, en dekra líka svolítið. Keypti mér uppbótarkort í betri baðstofuna næsta mánuðinn. Nú kemst ég inn í það allra heilagasta. Unga myndarlega stúlkan sem afgreidd mig sagði að það væri æðislegt að vera þarna. Maður færi bara alltaf, -og svo hætti maður að nenna í íþróttasalinn, færi bara niður í baðhúsið. Þá væri bara um að gera að muna eftir að spenna rass- og magavöðvana. Það væru líka góðar æfingar.
Hitti svo niðri í sal alþingismann sem ég er málkunnugur og spjallaði aðeins við hann. Hann sagði að maður ánetjaðist þennan lúxus um leið og maður væri kominn upp á lag með að mæta þarna.
Ég fór í 30 mín í speis göngu og fór báðar hraðbrautirnar í lyftingum. Var þá farinn að finna hvernig ég iðraðist. Expecto Patronum og dementorarnir hurfu á braut. Sveittur og aumur staulaðist ég í baðstofuna. Það var nú æðislegt eins og stúlkan sagði. Fór í veitingastofun og fékk mér melónuvatn. Settist inn í ilmslökunarklefann og fann hvernig ég slakaði á eftir erfiðið og gufurnar hreinsuðu nefholið. "Kannski maður hrjóti minna eftir svona meðferð" hugsað ég þar inni. Síðan fór úr hverjum slökunarklefanum og saltböðunum, og fékk mér á milli melónuvatn.
Þetta er sko lúxus hugsaði ég. Fór svo inn í kyrrðarherbergið. Lagðist í leðurstólinn við arineldinn og lét líða úr mér streituna (sem reyndar var ekki mikil eftir). Lét ljúfar minningar líða um hugann. Rumskaði svo við að kallinn í þar, þar næsta stóli hraut. "Jæja, svo gufurnar koma ekki í veg fyrir að maður hrjóti". En þær hreinsa hugann.
"Þetta er sko annars konar átak" hugsaði ég þegar ég gekk út. Held bara að það sé upphaf nýs kafla í lífinu.
15. apríl 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli