Ella frænka mín er fædd árið 1918, sumir myndu segja frostaveturinn mikla. Það eru mörg ár síðan. Í síðustu viku veiktist hún mikið og var flutt á sjúkrahús. Hún veiktist ung af berklum og var í mörg ár, sennilega 7 ár á Reykjalundi. Á miðvikudagskvöldið, þegar ég var að tala við vin minn eins og kemur fram hér fyrr, fékk ég símtal frá ættingja okkar sem sagði mér frá því að Ella væri veik og komin á sjúkrahúsið í Fossvogi. Ég fór því eftir samtal okkar vinanna til hennar, enda kom hún mér, eins og svo mörgum öðrum í ættinni nánast í móður stað. Sérstaklega þegar ég flutti suður til að fara í Háskólann. Þá bjó ég í sama húsi og hún og Anna systir hennar og Bjarni frændi. Þau voru öll ógift.
Það var langt liðið kvölds þegar ég kom til hennar og þá var hún nánast í móki og gat ekki tjáð sig. Þó náði ég sambandi við hana á milli óráðanna og skilaboðin voru skýr. Hún vildi deyja. Hún gat ekki talað og við héldum að kannski hefði hún fengið blóðtappa, en fyrir utan óráðið og málstolið hafði hún ekki önnur einkenni um slíkt. Á fimmtudagskvöldið var hún komin með hita og enn var óráð og hún gat lítið talað. Ég kom til hennar fyrir hádegi og svo aftur um kvöldið og sat hjá henni. Skilaboðin voru alltaf þau sömu, ítrekað reyndi hún að segja og gera mér skiljanlegt að hún vildi ekki halda áfram að lifa. Við náðum af og til sambandi, og oft reyndi ég að fylla í eyðurnar til að hjálpa henni við að finna orðin. Nú var enn leitað að orsökum veikindanna. Teknar voru blóðræktanir og mænustunga.
Á föstudagskvöldið bjó ég mig undir það versta. Ég kom upp úr kvöldmat og sat lengi fram eftir. Var í marga klukkutíma. Mér fannst hún vera að hressast og ákvað að sitja hjá henni. Alltaf voru skilaboðin skýr, og nú var alveg skýrt að ég ætti að fá læknana til að stöðva alla meðferð. Það var erfitt og nokkrum sinnum fór ég fram á gang á meðan starfsfólk deildarinnar, alveg dásamleg fólk var að sinna henni. Á ganginum var greinilega ein fjölskylda hjá mikið veikum einstaklingi. Ég sagði við sjálfan mig. Þau eru að bíða. Þau eru að kveðja. Ég fylgdist með þögull og hugsaði, skyldi ég vera að gera það líka. En hún Ella frænka var svo miklu hressari en kvöldin á undan.
Ég fór heim til að sofa og það var margt sem fór í gegnum hugann á leiðinni til systur minnar. Um kvöldið hafði ég mikið hugsað um langt lífshlaup hennar Ellu frænku, en einnig mitt eigið. Það er samtvinnað á svo morgum stöðum. Eins og flétta með flóknu mynstri. Ég var ósköp sorgmæddur. Það var svo dagsatt og blasti svo við að maður á bara eitt líf og hver er sinnar gæfu smiður. Á stundum sem slikum er maður reiðubúinn að taka ákvarðanir, að gera upp hug sinn. Lífið allt nær samhengi, en svo getur það hrunið eins og spilaborg. Það sem var erfitt í gær, í síðustu viku eða sl. mánuði eða jafnvel ár virðist auðvelt. Lífið hefur forgang og maður gerir upp hug sinn um hvernig maður vill lifa því.
Ég fór heim og hugsaði um þetta, sumir myndu segja reyndi að senda hugskeyti eða biðja. Fann þá katólskuna koma upp í mér. Fann sterkt innra með mér í hjarta mínu, að nú vildi ég að ég gæti kveikt á kertum í fallegri kirkju á hárri hæð. Ég reyndi að biðja þess og var hugsað til þess að í katólskum kirkjum getur maður farið og kveikt kertum og ljósið logar fyrr þann sem maður hugsar um. Ég óskaði að ég gæti kveikt á tveim kertum, öðru fyrir Ellu frænku og hinu fyrir okkur öll hin. Ég reyndi að senda vinum mínum hugboð. Það sótti sterkt að mér að þurfa að gera þetta en varð fljótt magnþrota, því mér fannst viðbrögði vond. Varð meira að segja reiður, en vonaði samt. Hver kveikir á kertum á föstudagskvöldum í kirkjum. Kannski myndi duga að einhver gerði það á laugardegi. En stundum snúast bænir upp í andhverfu sína. Það fannst mér þessa aðfararnótt laugardags. Ég fann líka mikla þörf fyrir að láta eitthvað gott af mér leiða. Gera einhverjum gott, miðla einhverjum af því sem ég þekkti best og sem væri ánægjulegt og gefandi.
En seint um nótt er það erfitt. Hvernig fer maður að því? Getur maður notað tæknina, getur maður sent hugskeyti, hvernig getur einmanna maður miðlað einhverri sameiginlegri reynslu? Tækni er viðsjárverð undur og hana skyldi maður nota varlega. Etv eru hugboðin betri, hugskeytin. Ég held að hugskeyti séu til en tæknin vefst fyrir mér. Hún verður mér oft að falli hugsaði ég þessa nótt. Það getur hvatvísin líka gert.
En kannski var ég bænheyrður eða bónheyrður. Eru það ekki skyld orð? Ég veit það ekki og það mun ég aldrei vita. En nú kemur sagan sem mig langar að segja ykkur. Á laugardagskvöldið kom ég um kvöldmatarleitið. Átti ekki von á því að breyting hefði orðið. Ég sá strax að hún var hressari hún gat talað. Málstolið var horfið, en hún var ósköp andstutt og móð. Það blés og ískraði í henni. Hún hefur léleg lungu hugsaði ég, hefur verið, brennd, blásin og höggvin. Eftir smá stund áttaði ég mig á því að ég yrði að gera eitthvað. En ekki það sem hún vildi sem var að hjálpa henni að deyja. Ég gæti ekki staðið til hliðar við lífið.
Ég talaði við indæla unga hjúkrunarkonu sem sagðist myndu kalla til aðstoðarlækni. Fljótlega kom hún með súrefnisslöngur og Ella frænka fékk smá í nös. Hún var enn móð en samt heldur jákvæðari, kvartaði um andþyngsli og þegar ungi læknirinn kom að stjana við hana lifnaði hún öll við í orðsins fyllstu merkingu. Hún fékk lyf til að tappa vökva af lungum og þegar verið var að gefa henni lyfið benti hún unga lækninum á eitthvað á borðinu sem hún vildi fá. Hún gat ekki fundið orð yfir það og var andstutt. Það var ekki vatnsglasið, það var ekki hárbustinn. Það var varaliturinn, rauður varasalvi.
Hún rétt mér varasalvan og setti stút á muninni. Ég átti að varalita hana. Það hef ég aldrei gert, hvorki á sjálfum mig né aðra. En þetta voru skýr skilaboð og þegar Ella frænka gefur skýr skilaboð þá fer maður eftir þeim. Þannig hefur það alltaf verið. Kannski er það unga fólkið sem hefur svona góð áhrif hugsaði ég. Lyfin og súrefnið virkuðu vel. Hún Ella frænka hresstist og leit svo vel út með varalitinn. Ég spurði hvort við ættum ekki að horfa á Ædólið. Það vildi hún og sagðist alltaf horfa á það. Hún fékk verkjatöflur og settist upp og drakk næringardrykk með jarðaberjabragði og við sátum saman þögul og horfðum á sjónvarpsþáttinn. Hlustuðum á lögin og unga fólkið snerist í kringum hana Ellu. Mikið var hún ánægð og glöð og hress í bragði. Henni fannst strákurinn skemmtilegri og betri en var þó viss um að stelpan myndi vinna.
Þegar ædólið var búið slökktum við á sjónvarpinu og ræddum um gang lífsins og hvað hún hefði alltaf verið lánsöm og allir góðir og hjálpsamir. Alveg eins og unga fólkið sem stjanaði svona vel í kringum hana. Það var komið annað hljóð í strokkinn.
Ég kvaddi Ellu bjartsýnni og trúmeiri en áður. Vissi nú hvað ég þyrfti að gera, hvað ég vildi. Lífið er aðeins eitt. Kannksi eru þær systur von og trú enn máttugri en okkur grunar.
Í kvöld fórum við feðgar til Ellu frænku. Umræðuefnið var hvað unga fólkið væri að gera. Fermingarveislurnar í gær og hvort ekki væri rétt að hún fengi maukað fæði, en hún hafði nú ekki viljað ónáða starfsfólkið með það, sem hefði nóg með að sinna þeim sem veikir væru á deildinni.