28. janúar 2005

Íslensk náttúra og víðerni


Íslensk náttúra er einstök. Því til áréttingar birti ég mynd frá sl. sumri úr ferð okkar með Fáki um Fjallabak nyrðra (Landmannaleið) og syðra (Mælifellssand), um Fljótshlíð og síðan Heklubraut frá Gunnarsholti að Leirubakka. Ferðin tók 10 daga, og leiðréttist missögn í jólakortum þar sem hún var talin tveim dögum styttri en raun var. En sumum dögum vill maður gleyma, en reyndar engum þessara 10. Því voru þessi mistök illskiljanleg og eru enn. Þorbjörg er á gæðingnum Fjalari sem við fengum lánaðan enda urðum við að hafa fjóra hesta hvort í ferðinni. Myndin er tekin á talsverðri ferð upp brekku úr gili í námunda við Álftavatnskrók. En með einstakri lagni, og aðra hönd á taumi tókst mér að ná þessari mynd aftur fyrir mig, án þess að af því yrðu skakkaföll.

Það er ánægjulegt að fleiri en ég hafa hrifist að Færeyskri myndlist. Ég þakka viðbrögð vina norðan og vestan við stuttum pistli mínu. Enda fá þeir stuttu mun betri viðtökur en langlokurnar sem fáir commenta á, sennilega af því enginn nennir að lesa þá. Líklegast er það best. Svo ég mun reyna að halda áfram að skrifa langt mál.

Því miður uppgötvaði ég Færeysku listamennina seint, ólíkt frænda mínum sem er langförull, veraldavandur og víðlesinn. Vinir mínir, hjón ættuð að sunnan en sem bjuggu norður í landi um árabil og ég heimsótti reglulega eða þar til þau fluttu aftur suður yfir heiðar bentu mér á myndirnar. Reyndar líka á myndir eftir Óla G. Jóhannsson , sem er reyndar óskyldur Kristni G Jóhannssyni, nema að því leiti að báðir eru í uppáhaldi hjá okkur. Reyndar keypti vinur okkar myndina sem fylgdi síðasta pistli, í einni af mörgum ferðum sínum til Færeyja. En þangað hef ég aðeins komið einu sinni og Þorbjörg aldrei. Myndin átti upphaflega að prýða skrifstofur eins stærsta og merkasta fyrirtækis þeirra norðanmanna eða þartil mér tókst að komast inn dílin og forða því frá þeim örlögum. Hún minnti mig öldurót og brimbrot við klettótta strönd eða múla sem stendur í sjó fram. Nokkuð sem bæði við og Færeyingar þekkjum svo vel.

Það er kannski nálægðin við þessa margbreytilegu náttúru sem heillar okkur svo mikið og hefur greipst inn i huga okkar eða undirmeðvitund (kemur ekki Freud aftur að málum, ef svo heldur áfram verð ég orðin hugvísindamaður áður en langt um líður). Ég heillast helst að verkum sem hafa einhverja skýrskotun í náttúrun, en hún þarf ekki endilega vera auðsjáanleg. Oft er hún mjög abstract og þá stundum er það kannski bara mynduppbyggingin eða litavalið sem myndar tengsl.

Ég sé að vinir okkar í Minni-Sóta (sbr. Minni-Árskógur í Eyjafirði og að ég bý auðvitað í Stór-Reykjavík) hafa líkan smekk og svo skemmtilegt að við skulum hafa valið myndir eftir sama listmálara og það sem meira er úr sömu myndaröð og af sama mótívi. Náttúran norður í landi. Það hlýtur að vera eitthvað í umhverfinu sem mótar hug okkar á yngri árum (kannski alla ævi), en við vorum saman í skóla og á þeim árum vorum við kannski ekki að velta fyrir okkur myndum. Tíminn fór í að læra í skóla sem var þó ekki steingeldur því þar var svo margt annað en bara skruddulærdómur í gangi. En við heilluðumst mörg af útiveru á þeim tíma. Og sumir vina okkar s.s. Kata og Halli stunda það enn sé ég á myndum. Gönguferðum, skíðaferðum og svaðilförum á Trabant og öðrum viðlíka appartötum. Kannski það hafi haft þessi áhrif. Ég set það nú fram sem kenningu, hún byggir á eigindlegu mati, sem eru hugvísindi og engin tölfræði. Kannski vantar áhrif þessarar náttúru og sífelldu breytinga í veðri í myndir og listaverk vestur í miðri Ameríku. Ég hef ekki oft komið yfir í þessa framandi heimsálfu, en í þau fáu skipti sem ég hef ráfað þar um stórborgir og reynt að hafa upp á smáum galleríum, hef ég oft orðið fyrir vonbrigðum, eins og vinir mína sem þar búa. Stundum finnst mér verkin bera merki skreytilistar gerðar fyrir ákveðinn kaupendahóp, fremur en innri þörf og af innblæstri listamannsins. En ég hef líka séð glæsileg verk, og þá held ég aðallega höggmyndir fremur en málverk. Merkilegt nokk.

En í skólum sunnan lands er auðvitað ekki nein skreytilist, heldur alvörulistaverk. Þess hefur þurft til að bæta upp einhæft sjónarhorn í Stærri-Reykjavík. Gott það bjargaði smekk vinar míns og frænda sem hafði vit á því, strax sem ungur maður að setjast að á Brekkunni, þar sem er víðsýnt og vindasamt svo menn verða fyrir stöðugum innblæstri. En hvernig er útblásturinn? Hann má sjá á lapsus linguae.

Engin ummæli: