7. janúar 2005

Þegar hróður berst víða

Óvæntur glaðningur barst langt að. Kveðjur frá vinum á sléttum norður-Ameríku, sem hafa hnotið um bloggið mitt. Ég er enn með höfuðið í bleyti við átta mig á hvernig það hefur rekið á þeirra fjörur. En þetta segir okkur hve hinn stóri heimur fer ört smækkandi og nálægðin vex með tilkomu tækninar. Þetta færir forna vini nær vona ég. Fleiri myndir verða á boðstólum á næstu dögum og misserum. Eftir að hafa lagt niður þá skemmtilegu iðju að taka myndir (stundum í tíma og ótíma) á yngri árum, virðist möguleikinn á að koma þeim til annara (hvort sem þeim líkar betur eða verr) espa upp gamalt hobbí. Þar sem ég geri ekkert af eigin frumkvæði og neita að bera alla ábyrgð, þá verð ég náttúrulega að kenna vini mínum ónefndum um þetta. Það er nefnilega svo með góða vini að þeir hvetja mann áfram og sjá alltaf ágætar hliðar í fari manns alveg sama hversu ómögulega maður lætur. Ljósmyndun er heldur ekki sem verst sem terapía, því á mynd vill heimurinn oft blasa við fallegri en hann virðist í augnablikinu og að varðveita augnablikið, tímann sem aldrei kemur aftur er dýrmætara eftir því sem árin líða. Tími og vinir eru með því það dýrmætasta eða dýrmæti (sbr verðmæti) sem við eigum, til að átta sig á því getur þurft þroska. Sem betur fer senda sumir línur, jafnvel allaleið frá sléttum norður-Ameríku og aðrir jafnvel kvæði t.d:

Skjóta álftir skelk í bringu,
Skuld og Æri í Hexa.
Þröngur gallinn, sem í þvingu,
þótt´ann sé Large-Extra.
(höf: má finna á Lapsus linguae)

Verður þeim seint fullþakkað.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú skal koma höfðinu úr bleytunni og upplýsa þig hér með að frændi þinn fyrir Norðan, Lapsus Linguae og spúsa hans eru afa góðir vinir okkar og les ég bloggsíður þeirra hjóna daglega. Nú hefur þú bæst í hópinn og þykir mér það afar skemmtilegt. Þó svo ég sé ekki hestamanneskja, þrátt fyrir góðar tilraunir Ingólfs í að gera okkur hjónin meðsek í áráttunni, þá hef ég ómælt gaman af að lesa um ferðir þínar og Þorbjargar og samskipti ykkar við dýrin stór og smá.
Svo er það þetta orðatiltæki, máltæki, orðsifjafræði og annað í þá veruna. Hér er eins lángt til sjávar eins og það mest gerist á þessari jörðu svo engar eru fjörurnar, því miður, og svo eru ekki fjöll eins lángt og augað eygir, bara gaddfreðnar sléttur, stundum öldóttar en oftast rennisléttar. Nú er reyndar kominn tími til að þið hjónin láti sjá ykkur hér vestra, ekki væri nú verra ef þið tækjuð sómahjónin að norðan með í för, eða þau í Búlandinu, Mayo hefur órgrynni af fundum sem þið gætuð nú setið á í leiðinni.
Kata