20. janúar 2005

Hafa marga fjöruna sopið

Fékk heldur betur á baukinn í orðsifjafræðipistlum gamallrar skólasystur. Varð uppvís að lélegri landafræðikunnáttu eða orðsifjafræðibrenglun, sem er að verða algengur kvilli. En þó má með réttu segja að við skólasystkinin höfum marga fjöruna sopið hér áður fyrr, þó fátt reki nú á fjörur þeirra sléttubúa Ameríku eða réttara sagt alls ekki neitt því þar eru engar fjörur. Eða eins og fram kom hjá Æra frænda mínum í sendingu alla leið til fjarlægra landa (ekki stranda), þar sem enn finnast þjóðlegir siðir (en engar fjörur) og rúgbrauð bakað að góðum og gildum íslenskum sið:

Í landafræði skal löngum minnast
að langar fjörur ei þar finnast.
En rúgbrauð gott
með silungsvottt
má þar líka kynnast.

En fyrir húsbóndann í húsinu á sléttunni, sem lagði sig einu sinni (sem oftar) í lífshættu með félögum sínum nokkrum á menntaskóla árum, skal nú komið á framfæri að síðar verða rifjaðar upp minningar úr fallhlífarstökksferð einni frækilegri. En til þess þarf langan aðdraganda enda ekkert gamanmál á ferðinni, þó svo síðar hafi aðrir haft það í flimtingum og jafnvel reynt að gera sér mat úr því að stökkið varð aðeins eitt. Enginn fór aftur í áður fyrirhugað seinna stökk, enda lærðu menn af reynslunni í þá daga. Þó heyrist mér að lofthræddir menn séu farnir að gæla við að læra á flugvélar og því enn meiri ástæða til að rifja upp fallhlífarstökkið margfræga. Skal þeim bent á að hálfsjálfvirkar ef ekki alsjálfvirkr myndavélar eru nú í boði og geta slíkar græjur slegið nokkuð á græjufíkn (sem því miður hefur ekkert ICD-10 númer), amk tímabundið. Og fyrir þá sem taka of margar vondar myndir þá er til sá möguleiki (reyndar verða menn að vera læsir á leiðbeiningabæklinga sem fáum er reyndar gefið ef græjufíknin er á háu stigi (enska: severe) ) að eyða myndunum og kallast það í orðsifjafræðinni myndhverfing. Þ.e.a.s. að myndin hverfur ef ýtt er á "delete" takkann. En um myndafárið hafa verið skrifaðir lærðir pistlar á ónefndri netsíðu. En nú er tímaskortur og vini mínum, húsbóndanum í húsinu á sléttunni aðeins send ein bagaleg baga ort að kvæðasið Hals Húfubólgusonar skálds norðan heiða):

Rennur á kappann rúgbrauðsæði,
rifjar upp og lifnar við.
Taðreyktan silung og smjörið, -bæði,
smyrjist að ofan að góðum sið.

En silungur enginn sést þar ytra,
syndir aðeins að fjörum landa.
En (k)ostur berst til vinar vitra
og veitist til beggja handa.

Rúgbrauð sneitt með ráðnum hug,
reynist besti kostur.
En þegar hugur hefst á flug,
helst við því er ostur

Með kostulegum kveðjum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Merkilegt hvað annars alsaklaust rúgbrauð getur orðið uppspretta og innblástur hagyrtra. k

Nafnlaus sagði...

Merkilegt hvað annars alsaklaust rúgbrauð getur orðið uppspretta og innblástur hagyrtra. k