14. janúar 2005

Hárprýði

Til vinar vors á lapsus linguae i tilefni pistils gærdagsins, þar sem hann kveinkar sér undan skertu minni og minnkandi gáfnafari við það eitt að lokkar hans lengjast. Regluleg snoðun og millimetralengd á hári er besta lækningin við því, -er mér sagt á LL. Aðrir á hans deild munu hafa skoðanir á því en hér kemur mín:

Folatollinn fæstum færir
þó feykist um hár toppurinn.
En þegar stúlkan barminn bærir
bregst við langi lokkurinn

en ef hann skyldi vera farinn að gamlast má leggja þetta svona út:

Folatollinn fæstum færir
þó feykist um hár toppurinn.
En þegar stúlkan barminn bærir
bregst við gamli kroppurinn

og ef hann skyldi vera staddur í girðingu í Kræklingahlíð:

Folatollinn fæstum færir
þó flaxist langi lokkurinn
En þegar hryssan barminn bærir
bregst við gamli skrokkurinn

Hér þykir rétt að hætta en frekari útfærslur velkomnar!

3 ummæli:

Halur Húfubólguson sagði...

Eftir erfiðan dag, þar sem fáum var bjargað og enn færri fengu líkn, var það ánægjulegt að halla sér að vísum Æris og visku. Lítilsgildur folinn norðan heiða brá sér í heimsókn til frænda síns, Halls Húfubólgusonar, sem kastaði fram þessari í kveðjuskyni:

Nægju mikla en níð hvergi færir,
naskur foli sunnan heiða.
En harður folinn heitir víst Ærir,
og heldur senn til ´"veiða".

Halur vildi einnig koma á framfæri þökkum fyrir að geta sagst vera í kynnum við fólk sem væri heimsfrægt á Íslandi, hvað þá útlöndum. Óvíst þó með öllu hvenær hann gæti sagt frá þessu, þar sem hann lifir í hálfgerðri einangrun og hittir nánast aldrei neinn til að rabba við nema frændi hans bregði sér í heimsókn.

Guðný Pálína sagði...

Útfærslan átti reyndar að vera svona sagði Halur síðar í kvöld (ekki Hallur!), lesblinda og for-gláka að plaga hann Hal Húfubólguson:

Nægju mikla en níð hvergi færir,
naskur foli sunnan heiða.
En harður folinn heitir víst Ærir,
og heldur senn til útreiða.

Nafnlaus sagði...

Þó braghættir Hals Húfubólgusonar séu um margt góðir þá sendist hér tillaga að annari útfærslu frá manni sem aldrei yrkir:

Nægju mikla en níð ei færir,
naskur foli sunnan heiða.
En harður svolinn heitir Ærir,
og heldur senn til útreiða.