24. janúar 2005

Dolorós


Þá er þessi dagur runninn upp. Það gerist alltaf einu sinni á ári, en kemur alltaf jafnmikið á óvart, - og þó. Á þessum degi er gott að líta til baka. Minningar. Þær eru fjársjóðir. Sumir vel faldir. Aðrir alltaf að vekja gleði. Dagbækur geyma minningar. Það gera myndir líka. Að ofan má sjá mynd sem við eigum. Hún er tengd minningum. Norðlenskt fjall speglast í haffletinum. Litadýrð náttúrunar flutt heim í stofu, minningar um dvöl á æskuslóðum. Þar bjuggum við, litla fjölskyldan einu sinni. Á okkar fyrstu sambúðarárum. Þar stækkaði fjölskyldan. Myndin er líka eftir gamlan mentor, Kristinn G. Jóhannsson listmálar, sem kom mér til nokkurs þroska á unglingsárum. Var kennari minn og stjórnaði unglingaskólanum heima, sem hét þá gagnfræðaskóli. Þar voru gagnfræði kennd. Þess er gott að minnast í dag.

En enginn dagur er eins. Ekki einu sinni þessi, sem kemur alltaf á sama tíma á hverju ári. Fékk ánægjulegar fréttir í morgun. Enn ein rannsóknaráætlun sem ég hef verið svo lánsamur að fá að taka þátt í að undirbúa, þó hlutur minn hafi ekki verið mikill, fékk hljómgrunn hjá RANNÍS. Fengum styrk til að gera klíniska samaburðarrannsókn á verkjameðferð. Ætlunin er að athuga áhrif hugrænrar atferlismeðferðar á langvinna verki. Ég er lánsamur því ég er alltaf að læra eitthvað nýtt og kynnast nýjum hugmyndum og það sem best er; - góðu fólki.

En engin dagur líður án þrauta. Ekki þessi heldur. Hann byrjaði ekki þrautarlaust. Átti erfitt með að komast á fætur. Bólga eftir byltu gærdagsins enn ekki gengin niður. Fór nefnilega í heimsókn í gær til vinar míns. Hann hefur nýlega gengið í gegnum erfiða reynslu. Missti uppáhalds hestinn sinn, hann Doksa úr ókennilegum sjúkdómi. Á nokkrum klukkutímum var hann allur. Hans er sárt saknað. Við heygðum hann fyrir nokkru síðan og drukkum minningarskál. Í hans stað er kominn móálóttur klár, sem gengur undir gælunafninu Trotsky enda búsettur nú í hesthúsinu Stalingrad. Hann mun hvers manns hugljúfi, - eða næstum hvers manns. Átti að verða sýningarhestur en eins og Trostky, hinn eini sanni var settur af. Ég álpaðist á bak Trotsky í gær, enda hefur hann aldrei sýnt annað en góðmennsku. Fór með félaga mínum og vini, sem hafði þrjá til reiðar. Allt góðhestar í mikilli þjálfun. Þá brá sér einnig með húskarl vinar míns á blesóttum og stórum jálk. Vel gekk framan af. Trotsky tók brokkspor, og hélt hann væri kominn í sýningu. Honum var alveg sama þó húsbóndinn og húskarl hans væru komnir langt á undan, enda þeir á stökki. Húsbóndinn á leirljósu hryssunni Birtu, með Silfur-Grána í taum og þann rauða Lenín ystan. Við Trotsky héldum reyndar báðir að við værum að fara í montreið en ekki þolreið. Enda kann hann það best. Hann var samvinnuþýður lengi framan af, eða á meðan hann fékk að ráða. En einsog í gamla Sovét þá þykir betra að hafa stjórnina, eða ráðstjórnina. Því tókumst við aðeins á. Hann hristi haus og lét illa á mélum. En sýndi ekkert illt. Fór meira að segja fremur hægt. Enda lengdist bilið í meðreiðina. Við drógumst aftur úr. Náðum þeim köppum þó þar sem þeir biðu okkar við flugbrautina á Leiráreyrum. Höfðu orð á glæsileika okkar félaga, enda komnir að nokkru samkomulagi og sæmilega mjúkt tölt uppi á borðinu það augnablikið, með háum framfótalyftum. Það átti eftir að batna þegar hann fór að ganga betur undir sig og slaka á í hryggnum. Enda kitlaði ég hann með hælunum aftur undir nára, sem er viðkvæmt svæði á klárhesti. Varð hann þá lungamjúkur, en þurfti áminningar um það. Trotsky líkar ekki áminningar. Tók þeim fálega og hafði kynnst betri og skýrar boðum frá knapa býst ég við. Vorum þó sælir, - báðir, þegar við fengum að fara fetið heimáleið. Hesturinn sótti greinilega traust til húsbóndans, sem var fríður á velli með þrjá til reiðar. Í því komapaníi líkaði klárnum vel. En svo æstist leikur. Stutt eftir heim og húsbóndinn og sveit hans nennti ekki að hangsa þetta. Fór aftur á stökk. Við Trotsky sátum eftir með sárt ennið. Reyndar áttu aðrir partar eftir að verða sárari. Reyndum að fylgja. Fórum meira segja á stökk. Mjúkt og ljúft. En svo skyndilega. Eitthvað gerðist. Klárinn ókyrrðist. Veit enn ekki hvað. Kannski fengið snjóköggul úr hófi í nárann. Færið var þannig. Hann tók viðbragð, vildi ekki stoppa. Hamaðist á mélum og vatt hausinn. Við töluðum greinilega sitthvort tungumálið. Ég bjó mig undir roku. Hann bjó sig undir að losa sig við knappann. Vatt haus, svo búk, rauk og lyfti baki Sneri upp á sig, stoppaði og svo áfram. Hratt. Áður en varði var hnakkur kominn út á hlið. Enda illa girtur og ekki með nægjanlega margar gjarðir. Gjarðaskortur getur haft alvarlegar afleiðingar. Sá næst vegamót. Húsbóndinn stoppaður þar í örvæntingu og horfði á aðfarir knapans, heldur klaufalegar. Um tvær áttir að ræða á gatnamótunum. Óljóst hvert skyldi haldið. Hesturinn þó ákveðinn í að fara sína leið; - einn. Hnakkur á hlið. Knapi á hlið. Algjör ósigur. Fósturjörðin fríð getur verið hörð þegar frosin. Við búum á Fróni. Reis upp aftur. Stoltið sært. Saknaði ísaxarinnar. Kjagaði eins og gæs í átt að hesthúsum. Hesturinn hljóp til húsbónda síns úr Stalingrad. Hittumst þar aftur. Augljóst hver vann þessa glímu. Eitthvað í augnsvip klársins, veit en ekki hvað það þýddi. Sættumst. Lagaði hnakkinn og staulaðist á bak. Trotsky tók mér vel. Muldraði afsakanir við eigandann sem var miður sín, en þurfti ekki að vera það. Enda hinn ágætasti klár þegar á heildina er litið. Klárinn var alveg slakur veit ekki hvort það var af sigurvímu eða þó það sem líklegra er iðrandi gjörða sinna. Við riðum um hesthúsahverfið, -hægt. Vildum hvorugur láta um okkur spyrjast að við værum klaufar í samskiptum.

En aftur að deginum í dag. Ekki gat ég vitað að í dag, einmitt þennan dag yrði ég heima við rúmið að sleika sár mín, bíðandi þess að bólgur renni af bógum og síðum. Svo sá ég á netinu að við fengum styrk til að kanna hugræna atferlismeðferð við verkjum. Lífið getur verið snúið og tekið óvænta stefnu. Er það ekki dásamlegt!

5 ummæli:

huxy sagði...

ný mynd? aftur til hamingju með daginn!

Nafnlaus sagði...

Ekki alveg ný. Máluð 2003. Vaðlaheiði speglast í Pollinum. Verið á veggnum í rúmt ár.

Katrin Frimannsdottir sagði...

Til hamingju með daginn. Þetta blessaða aðdráttarafl er nú stundum aðeins of öflugt, verst að þyngd skuli hafi áhrif á kraft falls, það væri mun betra að vera í þyngdarleysi.

Ég reikna með að hann Kristinn G hafi einstakt lag á að láta okkur burtflutt fólkið finna heimahagana í verkum hans. Við Halli eigum líka verk úr þessum flokki mynda hans!

ærir sagði...

Þakka góðar kveðjur, sem hafa borist bæði austan og vestan Atlantsála. Mér líður eins og heimsmanni sem á vini beggja vegna hafsins. Kannski eiga þau sem búa austan hafs og neðan sjávarmáls eftir að eignast mynd úr þessum flokki líka, enda helmingur þeirra ættaður úr höfuðstað norðanlands. Greinilegt að þær snerta taugaræturnar.

Nafnlaus sagði...

Halur og frændi hans smámennið norðan heiða senda Æri ekkert læri en aðeins þetta:

Ekki skal á frænda lýsa frati,
þó fáir klárar hald´á baki,
en Trotsky þver
og þrjóskan ber
þungan nærri endagati.

Dolores-Trotsky kallast klárinn,
en kannski voru það gömlu árin,
en fá bætti,
sá fjórfætti
fjandans sárin.