18. janúar 2005
Amor nobilis
Nú eru læknadagar og í gær fórum við félagar á hádegisverðarfund í boði lyfjafyrirtækis að hlusta á fyrirlestur um geðsjúkdóma í Íslendingasögunum. Margt var þar athyglisvert á borð borið. Geðsjúkdómar á miðöldum skiptust í fjóra megin sjúkdóma og byggðist á hugmyndum um uppruna sjúkdóma í fjórum megin vessum líkamans. Ekki verður það farið nánar í það að sinni, en til fróðleiks er rétt að greina frá helstu geðsjúkdómunum, þó þeim verði heldur ekki heldur gerð ítarleg skil.
Melancholia, sem m.a. Egill Skallagrímsson þjáðist af eftir fráfall sonar síns Böðvars. En náði heilsu með blekkingum dóttur sinnar Þorgerðar.
Amor nobilis, eða ástsýki eða ástarsorg, sem Egill þjáðist m.a. af þegar hann kynntist Ásgerði konu sinni. Einnig mun Kormákur í Kormákssögu og samskipti hans við Steingerði hafa einkennst af slíkri ofurþráhyggju. Einnig munu ágætar lýsingar vera á þessu í Björns sögu Hítdalakappa. Meðferð við amors nobilis, sem m.a. kemur ágætlega fram í þeirri sögu að Björn hafi reynt, var ekki inntaka hinna geysivinsælu SSRI lyfja. Heldur þótti ráðlegra að leggjast í ferðalög. Annað gott ráð voru samfarir og það þriðja illt umtal (eða koma fram með einhvern raunveruleikaspegil og breyta áliti elskenda á hvoru öðru með illu umtali og sögum um svik). Í Laxdælu munu einnig ágæt og mörg dæmi, svo og Víglundarsögu um samskipti Víglundar og Ketilríðar.
Af öðrum frægum miðaldasögupersónum má nefna Ofelíu í Hamlet og samskipti þeirra og örlög hennar.
Flogaveiki eða Morbus Sacer, eða helgur sjúkdómur.
Lykantropia / kyantropia var einnig vel þekkt á miðöldum, en það lýsti því þegar menn umbreyttust í hunda eða úlfa (varúlfahugmyndir m.a.) og skilt því mun líklega berserksgangur og að á menni rynni hamur eða þeir yrðu hamrammir.
Lýkur nú þessum pistli en frekari rannsóknir fyrirhugaðar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Litlar framfarir hafa orðið í geðsjúkdómafræðinni, nema ef vera skyldi fyrir lyfjafyrirtækin og auðvaldið. Geðlæknisfræðin snýst mikið um PR og auglýsingar eins flestar "fræðigreinar" í dag. Á myndinni sem fylgir pistli dagsins má hins vegar sjá að ljósmyndatæknin hefir tekið allnokkrum framförum hvað varðar litgreiningu. Meira kannski um þetta síðar enda áhugavert efni og vonandi leggst Ærir í rannsóknir þessu tengdar.
Skrifa ummæli