2. janúar 2005

Sólarkoma


Sólarkoma. Í dag er annar dagur ársins og honum fylgir sýn til sólar. Horft af svölunum hjá okkur yfir til nágranna og Bláfjalla, kl 13.00. Frost er úti -10C. Snjóföl er yfir öllu en birta dagsins falleg í upphafi árs.


Kvöldblogg: Fórum saman hjónin á hestbak síðdegis í frosti en blíðviðri. Fyrstir urðu samferða Flygill sem bar Þorbjörgu á svifbrokki fram að Elliðavatni og ég kom á góðhryssunni Skuld. Með okkur riðu Óli á Svarti frá Sörlatungu, -stóðhesti efnilegum og Finnur reið Lýsingi hinum léttfeta hungangsangandi unghesti. Að lokinni smáhvíld var aftur gengið til húss og nú lagt á þá Glóa og Hóf frá Ásgeirsbrekku. Finnur fékk stóðhest, einn graðann til að ríða á og Óli kom á jörpu tryppi úr Skagafirði sem var ótamið en bandvant. Það reyndi að sýna mótþróa með ýmsum leikfimisæfingum, en varð ekki kápan úr klæðinu með það. Enn var frost um -8C og engin lét það á sig fá. Riðið var í átt að Elliðavatni í rökkurbyrjun og áð undir brekku í skjóli furulundar sem þar er. Finnur og Óli sýndu þó ekki slíkt harðfylgi í reiðmennskunni og kusu fetgang innan byggðar, enda hestar þeirra lítt til langferða búnir. Leiðir skildu því fljótt. Öðru máli gengdi um þá félaga frá Ásgeirsbrekku og ekki síður í Þorbjörgu. Af mikilli gleði var haldið austur undir Breiðholtsbraut, með frostið í andlitið og drunur flugelda í bakið. Ég hélt vel í, - svo engin skömm var af reiðlagi. Farið var hratt yfir á hröðu tölti. Á köflum var svifið á mjúku stökki. Brokkæfingar voru fáar en öllum til gleði. Yfirferðin á töltinu svo mikil að lítill tími gafst til að sinna skipulögðum æfingum. Nú í vetrarbyrjun er áberandi hve þrek og þol þeirra félaga Glóa og Hófs hefur aukist í ferðunum sl. sumar. Yfirferð og rýmd er ótrúleg. Eða eins og Þorbjörg sagði, betri hestar finnast vart. Aðrir eiga góða hesta en okkar eru ágætastir.


Engin ummæli: