5. janúar 2005

Hófur Páfason


Hófur Páfason (IS199715847).
Komst ekkert á bak besta vini mínum, honum Hófi. Hann er sonur Nánasar frá Ásgeirsbrekku. Páfi Angason (frá Laugarvatni) er Kirkjubæingur. Nánös er Roðadóttir frá Kolkuósi.

Af ferðum mínum er þó ýmislegt að frétta. Í kvöld var riðið út þrátt fyrir hryðjuverk og sprengjur íbúa í Breiðholti. Náði niður í hús rétt um hálf sjö. Sá að einn hestur var úti. Mætti síðan nágranna okkar í lengjunni. Konu nokkurri sem var með þrjá til reiðar. Hafði þá ekki lengur afsökun. Eiginkonan náttúrulega fjarri góðu gamni að vinna. Fór að troða mér í snjógallann, Extralarge frá Hexa. Heldur stór og ekki beint sniðinn til að bæta vaxtarlagið. Grænn og með endurskinnsmerkjum þannig að ekki verður í honum dulist nema setja upp hettuna og spillist skyggni þá heldur. En margt má á sig leggja. Var kominn hálfa leið inn að stíum þegar Finnur mætti galvaskur með áform um að fara út. Ekki með þrjá til reiðar heldur einn í einu og ekki færri en þrír hestar skyldu hreyfðir. Hver á eftir öðrum. Þrír túrar. Ekert minna dyggði. Ég varð að samsinna því. Rólegt kvöld mitt við að kemba og klappa var greinilega farið til spillis. Rakettur streymdu úr Breiðholtinu og hvellir og drunur til að æra hvern meðalstilltan hest. Ég fór því á Skuld. Enda er hún enn ógreidd og ber nafn með rentu og því eðlilegast að taka mestan séns á henni, ef á okkur yrði skotið. Hún trylltist og hlypi út í náttmyrkrið og ég sæti eftir með sárt ennið og ýmislegt fleira. Fyrsti túr fór vel, enda er hún yndið mitt yngsta og besta. Reyndar bara nýjasti hesturinn minn og sennilega sá elsti. Er á óræðum aldri eins og flest kvenkyns og nákvæmari skilgreining fæst ekki frá fyrri eiganda, amk ekki fyrr en að fullu greidd. Hún er þó vel tennt sem segir nokkuð. Eftir vanalegan undirbúning riðum við niður að Elliðaám, við reiðvöllinn ofanverðan og svo upp undir brú. Þar fórum við undir Breiðholtsbraut. Hittum þar í myrkrinu fyrir þrjár álftir, - ungar, sem hafa fyrir sið að fljúga upp úr skurði þegar við ríðum hjá. Þær eru nokkuð greindar og sjá við okkur í hvert sinn sem við eigum leið um. Finna alltaf nýjan stað til að leynast á. Tekst því ítrekað að fæla hestana og skjóta okkur skelk í bringu. Það tókst líka núna. Við félagarnir fengum því eina salíbunu, reyndar eftir á að hyggja heldur stutta og slappa enda báðir á tryggðartröllum. Finnur náttúrulega á hesti frá Fanneyju, honum Lýsingi sem er hesta léttfetastur. Náðum því heim í hús óskaddaðir en lítt ánægðir með hesta því enga montreið náðum við úr þeim í þetta skiptið.

Næst var farið á Flygli, -hennar Þorbjargar. Villtum gæa. Hét upphaflega Brynjar og kom frá hjáleigu nokkurri á suðurlandi en vegna lundarfars, hraða og yfirferðar var nafni snarlega breytt. Hann er lítið fyrir að hleypa mér á bak. Heldur að verið sé að bjóða sér upp í tangó þegar reynt er að lyfta löpp upp í ístað, sem reynist kviðsíðum knöpum erfitt. Tekur þá að bakka og snúast og taka spor sem sennilegast, miðað við tiktúrur, eiga uppruna til Argentínu, amk ekki er það Spánska sporið. Hef fengið ótal ráð til bæta úr þessu. Ekkert dugað lengi. Nema helst að gefa Þorbjörgu hrossið, hvað ég gerði á Fjallabaksleið syðri í sumar og þarf því mun sjaldnar að reyna að klöngrast á bak. Nú tók hann aðeins tvo hringi og ekkert prjón eins og á Landmannaleið (Fjallabaki nyrðra) forðum. Ekki minnkaði spenningur í honum þegar öslaðir voru skaflar niður keppnisvöllinn í Víðidal alveg niður að brú, sem liggur yfir Elliðaár og er nánast í hlaðinu á sundlauginni í Árbæ. Finnur taldi sig illa girtan, þ.e. hnakkinn og vildi af baki en ég taldi það óráð og ákvað að sitja sem fastast enda óvíst hvort annað tækfifæri gæfist til að komast á bak. Hesturinn er greinilega ánægðari með Þorbjörgu en karlinn enda líklega léttari byrði. Á heimleið tókust síðan á stálinn stinn. Hestinum skyldi kenndir mannasiðir. En hestar eru lítt kunnandi í þeim siðum og eins og ég komst að, ekki sérlega námsfúsir í þeirri grein. Tamningar fyrir utan þá sem nefnd er: "Með aðferðinni af frjálsum vilja" kann ég lítil skil. Hef reyndar diplóma í þeirri aðferð, nánar tiltekið einungis í hringgerði. Hef því litla reynslu í öðru, en á tölt skyldi klárinn og drógumst við þá aftur úr. Sáum aðeins undir hófana á meðreiðarfélögum okkar. Það þolum við báðir illa, Flygill og ég. En hann er þeirrar náttúru gerður að hann verður alltaf að vera fremstur, -amk þegar Þorbjörg er á honum. Á hægt tölt skyldi hann fara og fékk ýmsar bendingar þar um,, en undi því illa og lét í það í ljósi. Gladdist hann því mjög í beygju nokkurri fyrir neðan brekkusporð í útjaðri Fákabóls, þegar Finnur kallaði nokkuð á undan mér: "Eigum við ekki að leyfa þeim að teygja sig". Þar með var hann horfinn, enn lengra á undan okkur. Þótti Fygli þetta hið vænsta ráð og betra að fylgja öðrum knapa en þeim sem á baki sat. Ekkert varð við ráðið. Hrossið á heljarstökki upp brekkuna og inn í beygju eina nokkuð krappa og alveg ljóst að við vorum ekki einhuga. Því varð sá að vægja sem vitið hafði meira. Nei, nei, ekki Flygill heldur ég, þó einhverjum mætti detta það í hug. Fyrir þá sem hafa littla reynslu í Burtreiðum, en ég hef nú öðlast hana nokkra, þ.e. að bregðast við þegar hestar neita að lúta einum vilja og sá dagur getur orðið eftirminnilegur, get ég sagt að aðeins er til eitt ráð. Ég náði að slaka taumnum í tíma og og að nokkru mjöðmum (en þær stirðna með aldrinum) og fylgja eftir þegar við stímdum beint á afturhluta Óðins (hestsins Finns eins og sagt var í minni heimabyggð), -og síðan fram úr. Allt fór þetta vel, fyrir utan nokkuð los á mjóbaki og mjöðm þannig að nú get ég kvartað með klíentalinu.

Þrátt fyrir þetta ævintýri ef ævintýri skyldi kalla þá var ég ekki af baki dottinn. Komst sjálfur af og með nokkurri reisn, sem því miður fáir eru til vitnis um. En gamanið var ekki búið. Sprengjur heldur að magnast í Breiðholtinu, nú tívólíbombur og sprengitertur og minni kökur. Var ákveðið þó langt væri liðið kvölds og eftir ítarlegt samráð okkar félaganna, þar sem Finnur réði mestu eins og vanalega, að taka þriðja settið. Enda vildi Finnur gefa Illuga sínum tækifæri til að brokka í sköflunum á keppnisvellinum. Sá klár brokkar ekki ótilneyddur og breyttu hnédjúpir skaflar þar engu um. Hinsvegar lyfti hann fótum meir en fyrr á tölti og langt upp fyrir 90 gráður, var hann vel pakkaður saman þannig að unun var á að horfa. En við vinur minn hann Glói frá Ásgeirsbrekku, Hugason frá Hafsteinsstöðum í Skagafirði erum mun rólyndari enda hlóðst í hóf og var yfirferð okkar fram að því tignarleg og öllum til sæmdar og það eina sem ég gat kvartað um voru klíentaltýpueinkenni frá mjóbaki og mjöðm, -eftir hestinn Þorbjargar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Norðanhalur las söguna með undrun og skjálfta enda álftir ekki auðþekktar eða sjáanlegar (sökum smæðar) sveitafólki sem hefur sagt skilið við átthagana, hvað þá borgarbörnum. Halur hittir oft ungt fólk í dag (<40) sem þekkir ekki mun á ýsu og ufsa, hvað þá þorski og ýsu eða litfögrum hrossum í dilknum hjá Æri. Tengdamóðir mín úr Hornafirði er eina manneskjan sem ég þekki mér nærri sem nefnt getur alla sauða- og hrossaliti.

Skjóta álftir skelk í bringu,
Skuld og Æri í Hexa.
Þröngur gallinn, sem í þvingu,
þótt´ann sé Large-Extra.

Lapsus linguae