26. janúar 2005

Af draumförum

Frændi og góðvinur Æris kom til hans óðamála og kvaðst vera orðin berdreyminn. Fyrir því hefði hann fengið staðfestingar draumaráðningarkonu, ónefndrar úti í bæ. Þannig er nefnilega mál með vexti að vinurinn og frændinn er afburðamaður í greiningu mjólkur. Nokkurs konar mjólkurconnosör. Á meðan aðrir smakka vín og aðra áfenga drykki, dreypa á þeim og reyna að skynja dulmagnað bragð guðaveiganna bæði á útsogi og innsogi, sötrar frændinn og vinurinn mjólk. Helst þannig að hátt heyrist í. Þegar mikið liggur við tekur hann gúlsopa, eins og til dæmis þegar greina þarf hvort ákveðin mjólkurferna hefur verið keypt í Bónus eða Nóatúni. Hann hefur aldrei spýtt út úr sér mjólk, hvað þá skolað munninn á milli mjólkursopa. Hæfileikar hans hafa verið vísindalega sannaðir með tvíblindri rannsókn af rannsóknastjóra og talmeinafræðingi einnrar virtustu og elstu heilbrigðisstofnunar landins. En eins og allir vita, þá vita talmeinafræðingar allt um munnhol og talfæri og þar af leiðandi dómbærir á slíka eiginleika. Rannsóknastjórinn hefur kynnt sér og býr að áralangri reynslu í framkvæmd rannsókna og prófa ýmiskonar. Hún þekkir alla króka og kima í rannsóknarferlum og rannsóknarleyfisveitingum. Þær geta vottað að vinur minn sýndi það og sannaði í eitt skipti fyrir öll, þannig að það verður ekki endurtekið að greina má mun á mjólk sem keypt er í Bónus eða Nóatúni, jafnvel þó svo fernurnar beri sömu dagsetningar. Til þess þarf aðeins langa þjálfun í mjólkurþambi og næma bragðlauka, svo og áræði og elju í mjólkurprófunum. Taka skal fram að vinur okkar hefur aldrei þjáðst af mjólkuróþoli né fæðuofnæmi eins og þeir geta séð sem hann þekkja.

Þetta er nú aðeins nefnt hér til að gefa bakgrunnsupplýsingar um drauminn sem hefur valdið félaga Æris heilabrotum undanfarið. Þannig er nefnilega mál með vexti að fyrir nokkru tjáði vinur okkar talmeinafræðingnum og rannsóknarstjóranum á áður nefndri heilbrigðisstofnun, ásamt ýmsum öðrum sem urðu vitni að mjólkurgreiningarferilverki sem hér áður er lýst, frá draumi sínum.

Þannig var að vinurinn, sem reyndar átti á þessum tíma í eldhúsraunum af ýmsum toga eftir áralangan skort á bakaraofni sem hefur reynst honum dýrkeypt, dreymdi að hann stæði fyrir framan ísskápinn. Honum til mikillar skelfingar, þegar hann opnaði skápinn, sá hann að í honum voru margar fernur af Fjörmjólk (en annað drekkur hann auðvitað ekki). Ótrúlega margar fernur voru opnar, sem er auðvitað mikil sóun og ill umgengni um slíkan kalk- og D-vítamínbættan þjóðardrykk. Fann hann í draumnum hvernig gremjan óx og vanlíðan og spennam náði yfirhöndinni þegar hann uppgötvaði að sumar af fernunum voru með útrunna dagsetningar.

Þær voru nefnilega dagsettar 2. febrúar. Það sem meira var, að búið var líka að opna fernur dagsettar 4. febrúar, sem voru ekki útrunnar og þær fleiri en eina. En allir vita sem þekkja til mjólkur, að maður opnar aðeins eina fernu í einu. Draumfarirnar voru sem sé slæmar. Svo slæmar að jaðraði við martröð. Segi og skrifa martröð. Þvílík sóun og þvílik umgengni um ísskáp og mjólk. Hugur hans róaðist örlítið þegar hann sér til mikillar ánægju og léttis sá að ekki var búið að opna fernur sem stóðu innst í skápnum og voru dagsettar 7. febrúar voru ósnertar. Algjörlega óopnaðar. Hvílíkir dýrgripir. Honum leið betur og næstum eins og somelier í vínkjallara sínum. En hugsið ykkur martraðir víngæðinga ef þá dreymdi að búið væri að opna hluta af árgangsvínum þeirra og það sem verra væri að þeir hefðu ekki náð að drekka vínið áður enn dagsetningar á flöskunum væru útrunnar, en vinur okkar telur að flöskur eins og fernur beri dagsetningar til vitnis um framleiðsludag og hvenær geymsluþoli veiganna er útrunnið.

Stuttu síðar vaknaði vinur okkar og fann að hann var enn með hjartslátt. Náði smám saman áttum og kominn var morgun i byrjun janúar. Dimmt var úti og skammdegið mikið. Febrúar langt undan. Ísskápurinn á sínum stað, en fátt annað í eldhúsinu enda í miðju eldhúsraunatímabilinu. Engin merki um að mjólkurslóðar hefðu komist í heimilisbirgðirnar. Hann hélt því til vinnu en fann að honum var enn mikið niðri fyrir. Hann róaðist ekki fyrr en hann hafði haft upp á talmeinafræðingnum og rannsóknarstjóranum og fleira góðu fólki og sagt þeim frá draumnum. Enda trúir hann því að ef maður segi frá draumi þá rætist hann ekki, og eftir því sem honum leið um nóttina þá var kannski eins gott að það gerðist ekki.

Hann er nefnilega raunvísindalega menntaður og tekur draumum bókstaflega. Það að dreyma of margar opnar fernur og mjólk með útrunnar dagsetningar hlýtur að þýða að hann eigi eftir að uppgötva margar útrunnar mjólkurfernur í ísskápnum sínum. Heima hjá mjólkurconnosör má það ekki gerast, né spyrjast út. En mikið barn gat hann verið að líta svo einfallt á málið, enda var það umsvifalaust rekið ofan í hann. Strax og hann hafði sagt frá næturraunum sínum var farið að leggja dýpri merkingu í atburði næturinnar. Meira segja sótti talmeinafræðingurinn, sem nú er einni helsti ráðgjafi Æris og vina hans allra sem á þurfa að halda á úrræðum í dulspekilegum málum, draumaráðningabók eina mikla og var heldur niðri fyrir þegar hún rétti honum bókina. Vinur Æris las hana með hálfum hug, að hætti raunvísindalegra menntaðra manna, og lagði lítið út frá því sem þar var skrifað. Hann sást þó oft gjóa í hana næstu daga, og hann var greinilega ekki að flýta sér að skila bókinni. Enginn veit enn hvers vegna.

En það gerði hann þó nú um daginn. Því ein af samstarfskonum hans kom að máli við hann þar sem hann var að drekka mjólk með kaffi út í og stundi upp í hálfum hljóðum að hún hefði hitt draumspaka konu úti í bæ. Sú draumspaka dulúðarkona hafði heldur brugðið við að heyra drauminn og varð mjög hugsi og vildi lítið tjá sig um hann, fyrr en nefnt var að um Fjörmjólk hefði verið að ræða. Þá réðist draumurinn á augabragði. Þetta gat aðeins haft eina þýðingu og draumurinn augljós. Það nálgaðist nefnilega fengitímann. Og ef vinur okkar væri í barneignahugleiðingum, og reyndi að geta barn þann 2. febrúar myndi honum mistakast hrapalega, hann ætti meiri möguleika þann 4. febrúar og það myndi heppnast alveg pottþétt, eins og hún komst að orði, þann 7. febrúar. Vakti þetta kátínu í kaffistofunni og vinur Æris reyndi að bera allt slíkt af sér, enda varla liðtækur til kvenna lengur eftir að árin hrundu svona yfir hann, nú um daginn. En þá hafði draumaráðningnarkonan haft á orði og því skyldi skilað til hans að ef hann segist ekki vera í þessum hugleiðingum, þá sé þetta að minnsta kosti góður tími til að reyna.....

Við þessu eru engin svör. Vinur minn hefur síðan þessi uppákoma varð, verið hugsi og jafnvel þungt hugsi, en hvorutveggja er sjaldagæft af hans hálfu hin síðari ár. Þar sem hann gerir flest í hugsunarleysi. Það sem meira er, borið hefur á nokkurri tortryggni hans í garð eiginkonunar sem enn burðast með hann eftir langa og oft á tíðum erfiða sambúð, enda er hann dyntóttur og lítt liðtækur til heimilisstarfa. En þar sem hann er fv. raunvísindamaður , titlaður svo í símaskrá, því hann heldur að aðrir haldi að sé maður fyrrverandi þetta og fyrrverandi hitt þá hafi maður verið eitthvað annað en maður er í dag. Enn hann hafði alltaf haft gaman af vísindum þó hann vissi aldrei almennilega hverskonar vísindum og þar sem hann hlaut fyrst og fremst raunir af slíku þá er hann i dag helst kominn á þá skoðun og þykir hún fín að hann hafi verið raunvísindamaður og hann hafi verið menntaður í slíku. Þar sem hann hefur misst allan áhuga á vísindum eins og nánast öllu öðru en mjólk þá sé hann fyrrverandi raunvísindamaður. En þetta var nú bara útúrdúr.

En skyndilega hefur vísindaáhugi okkar fv. raunvísindamanns vaknað á ný, því hann hefur tekið eftir því að hafið er heilsuátak á heimili hans. Þannig er farið að elda ófeita rétti í ofni, fremur en á pönnu, enda kominn nýr ofn í húsið. Farið er að bera í hann vítamín auk lýsis. Hann jafnvel áminntur um ágæti hreyfingar. Einnig er eiginkonan farin að laumast í vítamín heldur hann. Og þar sem hann fv. vísindamaðurinn er líka efahyggjumaður, magna grata, þá efast hann um allt. Hann er nefnilega farinn að efast um að skýringar hans á draumum séu réttar, þ.e. að það að dreyma opnar mjólkurfernur þann 2., 4., og 7. febrúar muni þýða að of mikið verði keypt inn og að morgni 3. febrúar vakni hann upp og finni út að einhver hafið verið á mjólkurfylleríi kvöldið áður og gengið í hina merkilegu dagganga mjólkur sem hann hyggst koma sér upp í ísskápnum þegar eldhúsið verður aftur orðið sem nýtt. Honum þykir nefnilega rétt að athuga kenningar draumráðingarkonunar nánar og þar sem hann vill ekki uppljóstra áhyggjum sínum við eiginkonuna þá hefur hann hafið skipulegar njósnir um vítamín inntöku hennar, minnugur þess að vinkona hennar ein norðan úr landi, hafði einu sinni rekið mikinn áróður fyrir því að konur byggðu upp vítamínforða sinn fyrir getnað. Þær ættu nefnilega að taka fólasín, sem samkvæmt orðanna hljóðan er fyrir fól eða jafnvel fola ef ekki er notaður breiður sérhljóði, sem mun hafa verið ritháttur hér á árum áður. Sér til mikillar skelfingar hefur raunvísindamaðurinn fyrrverandi komist að því að í vítamíntöflum hans og þá væntanlega eiginkonunnar líka (sem hann grunar en hefur ekki fengið staðfest að taki) er talsvert magn af ofangreindu fólasíni sem mun vera B-vítamín. Hafa honum nú alveg fallist hendur og þorir sig hvergi að hræra og hefur leitað til Æris og vina hans um ráð við vanda sínum.

Ærir og aðrir vinir hans hafa því rifjað upp gamlan húsgang sem þeir sömdu fyrir skemmstu, en komst aldrei á milli húsa, í tilefni þess að farið var að reka áróður fyrir fólasín töku fyrir getnað. Þykir nú ærið tilefni til að rifja hann upp.


Engum lík er ástin mín
ýmislegt hún gerir.
Farin er á fólasín
og flaxast leggir berir.

Unga dreymir alla tíð
ástina að hljóta,
fólasínið fá um hríð
og fengitímans njóta.

Fáðu þér eina folasín
og flest mun gott af hljótast.
Eina töflu tátan mín
taktu og komdu að njótast.

Löngum konur vilja, en veita
vörn í tíma og líka rúmi.
Fólasín mun flestum heita
fagra stund í kvöldsins húmi.

Fólasín er í fínu lagi
fæst i flestum búðunum.
Ef laumast inn í læknisbragi
leikur allt á súðunum.


Eftirmáli.
Fv. raunvísindamenn geta verið berdreymnir, en dýpri merkingu þarf í útleggingar á draumum þeirra. Þeim er ráðlagt að sofa í náttfötum og skrá sig á námskeið um kenningar Freuds sem er aðhefjast hjá Endurmenntunarstofnun i febrúar þar sem fjallað verður um áhrif kenninga Freuds á læknisfræði nútímanns, en einnig um kenningar hans um drauma. Kennari á námskeiðinu verður Sigurjón Björnsson, prófessor emeritus og hestamaður. Það hefst í febrúar.

Engin ummæli: