31. janúar 2005
Úr myndaalbúminu
Hauststemming á fjörunum. Löngufjörur 2003.
Fátt nýtt til að skrifa í dag. Held því bara áfram að birta myndir úr albúminu. Fórum á hestbak í gær, riðum upp að Elliðavatni í sannkallaðri vorblíðu. Logn svo ekki bærði hár á höfði. Elliðavatn aftur orðið íslaust og talsvert um endur og svo eru vinkonur okkar, álftirnar þrjár, komnar þangað og sungu tregafullan söng.
30. janúar 2005
Dulúð
29. janúar 2005
Sund
Alþjóðlegt sundmót er í dag í nýju sundlauginni. Þar synda þeir bræður, en hvorugur heyrist mér að sé upplagður og meiðlsi að há þeim eins og vill gerast með íþróttamenn. Hér er mynd af yngri syninum, Hólmgeiri tilbúnum í slaginn á sundmóti. Í kvöld syndir hann í úrslitum í 200 m flugsundi og Hjörtur í 50 m flugsundi.
28. janúar 2005
Íslensk náttúra og víðerni
Íslensk náttúra er einstök. Því til áréttingar birti ég mynd frá sl. sumri úr ferð okkar með Fáki um Fjallabak nyrðra (Landmannaleið) og syðra (Mælifellssand), um Fljótshlíð og síðan Heklubraut frá Gunnarsholti að Leirubakka. Ferðin tók 10 daga, og leiðréttist missögn í jólakortum þar sem hún var talin tveim dögum styttri en raun var. En sumum dögum vill maður gleyma, en reyndar engum þessara 10. Því voru þessi mistök illskiljanleg og eru enn. Þorbjörg er á gæðingnum Fjalari sem við fengum lánaðan enda urðum við að hafa fjóra hesta hvort í ferðinni. Myndin er tekin á talsverðri ferð upp brekku úr gili í námunda við Álftavatnskrók. En með einstakri lagni, og aðra hönd á taumi tókst mér að ná þessari mynd aftur fyrir mig, án þess að af því yrðu skakkaföll.
Það er ánægjulegt að fleiri en ég hafa hrifist að Færeyskri myndlist. Ég þakka viðbrögð vina norðan og vestan við stuttum pistli mínu. Enda fá þeir stuttu mun betri viðtökur en langlokurnar sem fáir commenta á, sennilega af því enginn nennir að lesa þá. Líklegast er það best. Svo ég mun reyna að halda áfram að skrifa langt mál.
Því miður uppgötvaði ég Færeysku listamennina seint, ólíkt frænda mínum sem er langförull, veraldavandur og víðlesinn. Vinir mínir, hjón ættuð að sunnan en sem bjuggu norður í landi um árabil og ég heimsótti reglulega eða þar til þau fluttu aftur suður yfir heiðar bentu mér á myndirnar. Reyndar líka á myndir eftir Óla G. Jóhannsson , sem er reyndar óskyldur Kristni G Jóhannssyni, nema að því leiti að báðir eru í uppáhaldi hjá okkur. Reyndar keypti vinur okkar myndina sem fylgdi síðasta pistli, í einni af mörgum ferðum sínum til Færeyja. En þangað hef ég aðeins komið einu sinni og Þorbjörg aldrei. Myndin átti upphaflega að prýða skrifstofur eins stærsta og merkasta fyrirtækis þeirra norðanmanna eða þartil mér tókst að komast inn dílin og forða því frá þeim örlögum. Hún minnti mig öldurót og brimbrot við klettótta strönd eða múla sem stendur í sjó fram. Nokkuð sem bæði við og Færeyingar þekkjum svo vel.
Það er kannski nálægðin við þessa margbreytilegu náttúru sem heillar okkur svo mikið og hefur greipst inn i huga okkar eða undirmeðvitund (kemur ekki Freud aftur að málum, ef svo heldur áfram verð ég orðin hugvísindamaður áður en langt um líður). Ég heillast helst að verkum sem hafa einhverja skýrskotun í náttúrun, en hún þarf ekki endilega vera auðsjáanleg. Oft er hún mjög abstract og þá stundum er það kannski bara mynduppbyggingin eða litavalið sem myndar tengsl.
Ég sé að vinir okkar í Minni-Sóta (sbr. Minni-Árskógur í Eyjafirði og að ég bý auðvitað í Stór-Reykjavík) hafa líkan smekk og svo skemmtilegt að við skulum hafa valið myndir eftir sama listmálara og það sem meira er úr sömu myndaröð og af sama mótívi. Náttúran norður í landi. Það hlýtur að vera eitthvað í umhverfinu sem mótar hug okkar á yngri árum (kannski alla ævi), en við vorum saman í skóla og á þeim árum vorum við kannski ekki að velta fyrir okkur myndum. Tíminn fór í að læra í skóla sem var þó ekki steingeldur því þar var svo margt annað en bara skruddulærdómur í gangi. En við heilluðumst mörg af útiveru á þeim tíma. Og sumir vina okkar s.s. Kata og Halli stunda það enn sé ég á myndum. Gönguferðum, skíðaferðum og svaðilförum á Trabant og öðrum viðlíka appartötum. Kannski það hafi haft þessi áhrif. Ég set það nú fram sem kenningu, hún byggir á eigindlegu mati, sem eru hugvísindi og engin tölfræði. Kannski vantar áhrif þessarar náttúru og sífelldu breytinga í veðri í myndir og listaverk vestur í miðri Ameríku. Ég hef ekki oft komið yfir í þessa framandi heimsálfu, en í þau fáu skipti sem ég hef ráfað þar um stórborgir og reynt að hafa upp á smáum galleríum, hef ég oft orðið fyrir vonbrigðum, eins og vinir mína sem þar búa. Stundum finnst mér verkin bera merki skreytilistar gerðar fyrir ákveðinn kaupendahóp, fremur en innri þörf og af innblæstri listamannsins. En ég hef líka séð glæsileg verk, og þá held ég aðallega höggmyndir fremur en málverk. Merkilegt nokk.
En í skólum sunnan lands er auðvitað ekki nein skreytilist, heldur alvörulistaverk. Þess hefur þurft til að bæta upp einhæft sjónarhorn í Stærri-Reykjavík. Gott það bjargaði smekk vinar míns og frænda sem hafði vit á því, strax sem ungur maður að setjast að á Brekkunni, þar sem er víðsýnt og vindasamt svo menn verða fyrir stöðugum innblæstri. En hvernig er útblásturinn? Hann má sjá á lapsus linguae.
27. janúar 2005
Frá Færeyjum
Mynd eftir Trond Patursson frá Kirkjubæ í Færeyjum.
Fyrst farið er að ræða um myndlist og minningar. Þá eigum við marga góða vini. Þeir hafa sumir hverjir farið til Færeyja. En á eyjum frænda okkar í austri leynist ótrúlega gróskuleg menning og ekki hvað síst að þar búa stórkostlegir myndlistamenn. Við eigum eina mynd frá Færeyjum sem er hér að ofan. Hún er eftir myndlistarmanninn Trond Patursson frá Kirkjubæ.
26. janúar 2005
Af draumförum
Þetta er nú aðeins nefnt hér til að gefa bakgrunnsupplýsingar um drauminn sem hefur valdið félaga Æris heilabrotum undanfarið. Þannig er nefnilega mál með vexti að fyrir nokkru tjáði vinur okkar talmeinafræðingnum og rannsóknarstjóranum á áður nefndri heilbrigðisstofnun, ásamt ýmsum öðrum sem urðu vitni að mjólkurgreiningarferilverki sem hér áður er lýst, frá draumi sínum.
Þannig var að vinurinn, sem reyndar átti á þessum tíma í eldhúsraunum af ýmsum toga eftir áralangan skort á bakaraofni sem hefur reynst honum dýrkeypt, dreymdi að hann stæði fyrir framan ísskápinn. Honum til mikillar skelfingar, þegar hann opnaði skápinn, sá hann að í honum voru margar fernur af Fjörmjólk (en annað drekkur hann auðvitað ekki). Ótrúlega margar fernur voru opnar, sem er auðvitað mikil sóun og ill umgengni um slíkan kalk- og D-vítamínbættan þjóðardrykk. Fann hann í draumnum hvernig gremjan óx og vanlíðan og spennam náði yfirhöndinni þegar hann uppgötvaði að sumar af fernunum voru með útrunna dagsetningar.
Þær voru nefnilega dagsettar 2. febrúar. Það sem meira var, að búið var líka að opna fernur dagsettar 4. febrúar, sem voru ekki útrunnar og þær fleiri en eina. En allir vita sem þekkja til mjólkur, að maður opnar aðeins eina fernu í einu. Draumfarirnar voru sem sé slæmar. Svo slæmar að jaðraði við martröð. Segi og skrifa martröð. Þvílík sóun og þvílik umgengni um ísskáp og mjólk. Hugur hans róaðist örlítið þegar hann sér til mikillar ánægju og léttis sá að ekki var búið að opna fernur sem stóðu innst í skápnum og voru dagsettar 7. febrúar voru ósnertar. Algjörlega óopnaðar. Hvílíkir dýrgripir. Honum leið betur og næstum eins og somelier í vínkjallara sínum. En hugsið ykkur martraðir víngæðinga ef þá dreymdi að búið væri að opna hluta af árgangsvínum þeirra og það sem verra væri að þeir hefðu ekki náð að drekka vínið áður enn dagsetningar á flöskunum væru útrunnar, en vinur okkar telur að flöskur eins og fernur beri dagsetningar til vitnis um framleiðsludag og hvenær geymsluþoli veiganna er útrunnið.
Stuttu síðar vaknaði vinur okkar og fann að hann var enn með hjartslátt. Náði smám saman áttum og kominn var morgun i byrjun janúar. Dimmt var úti og skammdegið mikið. Febrúar langt undan. Ísskápurinn á sínum stað, en fátt annað í eldhúsinu enda í miðju eldhúsraunatímabilinu. Engin merki um að mjólkurslóðar hefðu komist í heimilisbirgðirnar. Hann hélt því til vinnu en fann að honum var enn mikið niðri fyrir. Hann róaðist ekki fyrr en hann hafði haft upp á talmeinafræðingnum og rannsóknarstjóranum og fleira góðu fólki og sagt þeim frá draumnum. Enda trúir hann því að ef maður segi frá draumi þá rætist hann ekki, og eftir því sem honum leið um nóttina þá var kannski eins gott að það gerðist ekki.
Hann er nefnilega raunvísindalega menntaður og tekur draumum bókstaflega. Það að dreyma of margar opnar fernur og mjólk með útrunnar dagsetningar hlýtur að þýða að hann eigi eftir að uppgötva margar útrunnar mjólkurfernur í ísskápnum sínum. Heima hjá mjólkurconnosör má það ekki gerast, né spyrjast út. En mikið barn gat hann verið að líta svo einfallt á málið, enda var það umsvifalaust rekið ofan í hann. Strax og hann hafði sagt frá næturraunum sínum var farið að leggja dýpri merkingu í atburði næturinnar. Meira segja sótti talmeinafræðingurinn, sem nú er einni helsti ráðgjafi Æris og vina hans allra sem á þurfa að halda á úrræðum í dulspekilegum málum, draumaráðningabók eina mikla og var heldur niðri fyrir þegar hún rétti honum bókina. Vinur Æris las hana með hálfum hug, að hætti raunvísindalegra menntaðra manna, og lagði lítið út frá því sem þar var skrifað. Hann sást þó oft gjóa í hana næstu daga, og hann var greinilega ekki að flýta sér að skila bókinni. Enginn veit enn hvers vegna.
En það gerði hann þó nú um daginn. Því ein af samstarfskonum hans kom að máli við hann þar sem hann var að drekka mjólk með kaffi út í og stundi upp í hálfum hljóðum að hún hefði hitt draumspaka konu úti í bæ. Sú draumspaka dulúðarkona hafði heldur brugðið við að heyra drauminn og varð mjög hugsi og vildi lítið tjá sig um hann, fyrr en nefnt var að um Fjörmjólk hefði verið að ræða. Þá réðist draumurinn á augabragði. Þetta gat aðeins haft eina þýðingu og draumurinn augljós. Það nálgaðist nefnilega fengitímann. Og ef vinur okkar væri í barneignahugleiðingum, og reyndi að geta barn þann 2. febrúar myndi honum mistakast hrapalega, hann ætti meiri möguleika þann 4. febrúar og það myndi heppnast alveg pottþétt, eins og hún komst að orði, þann 7. febrúar. Vakti þetta kátínu í kaffistofunni og vinur Æris reyndi að bera allt slíkt af sér, enda varla liðtækur til kvenna lengur eftir að árin hrundu svona yfir hann, nú um daginn. En þá hafði draumaráðningnarkonan haft á orði og því skyldi skilað til hans að ef hann segist ekki vera í þessum hugleiðingum, þá sé þetta að minnsta kosti góður tími til að reyna.....
Við þessu eru engin svör. Vinur minn hefur síðan þessi uppákoma varð, verið hugsi og jafnvel þungt hugsi, en hvorutveggja er sjaldagæft af hans hálfu hin síðari ár. Þar sem hann gerir flest í hugsunarleysi. Það sem meira er, borið hefur á nokkurri tortryggni hans í garð eiginkonunar sem enn burðast með hann eftir langa og oft á tíðum erfiða sambúð, enda er hann dyntóttur og lítt liðtækur til heimilisstarfa. En þar sem hann er fv. raunvísindamaður , titlaður svo í símaskrá, því hann heldur að aðrir haldi að sé maður fyrrverandi þetta og fyrrverandi hitt þá hafi maður verið eitthvað annað en maður er í dag. Enn hann hafði alltaf haft gaman af vísindum þó hann vissi aldrei almennilega hverskonar vísindum og þar sem hann hlaut fyrst og fremst raunir af slíku þá er hann i dag helst kominn á þá skoðun og þykir hún fín að hann hafi verið raunvísindamaður og hann hafi verið menntaður í slíku. Þar sem hann hefur misst allan áhuga á vísindum eins og nánast öllu öðru en mjólk þá sé hann fyrrverandi raunvísindamaður. En þetta var nú bara útúrdúr.
En skyndilega hefur vísindaáhugi okkar fv. raunvísindamanns vaknað á ný, því hann hefur tekið eftir því að hafið er heilsuátak á heimili hans. Þannig er farið að elda ófeita rétti í ofni, fremur en á pönnu, enda kominn nýr ofn í húsið. Farið er að bera í hann vítamín auk lýsis. Hann jafnvel áminntur um ágæti hreyfingar. Einnig er eiginkonan farin að laumast í vítamín heldur hann. Og þar sem hann fv. vísindamaðurinn er líka efahyggjumaður, magna grata, þá efast hann um allt. Hann er nefnilega farinn að efast um að skýringar hans á draumum séu réttar, þ.e. að það að dreyma opnar mjólkurfernur þann 2., 4., og 7. febrúar muni þýða að of mikið verði keypt inn og að morgni 3. febrúar vakni hann upp og finni út að einhver hafið verið á mjólkurfylleríi kvöldið áður og gengið í hina merkilegu dagganga mjólkur sem hann hyggst koma sér upp í ísskápnum þegar eldhúsið verður aftur orðið sem nýtt. Honum þykir nefnilega rétt að athuga kenningar draumráðingarkonunar nánar og þar sem hann vill ekki uppljóstra áhyggjum sínum við eiginkonuna þá hefur hann hafið skipulegar njósnir um vítamín inntöku hennar, minnugur þess að vinkona hennar ein norðan úr landi, hafði einu sinni rekið mikinn áróður fyrir því að konur byggðu upp vítamínforða sinn fyrir getnað. Þær ættu nefnilega að taka fólasín, sem samkvæmt orðanna hljóðan er fyrir fól eða jafnvel fola ef ekki er notaður breiður sérhljóði, sem mun hafa verið ritháttur hér á árum áður. Sér til mikillar skelfingar hefur raunvísindamaðurinn fyrrverandi komist að því að í vítamíntöflum hans og þá væntanlega eiginkonunnar líka (sem hann grunar en hefur ekki fengið staðfest að taki) er talsvert magn af ofangreindu fólasíni sem mun vera B-vítamín. Hafa honum nú alveg fallist hendur og þorir sig hvergi að hræra og hefur leitað til Æris og vina hans um ráð við vanda sínum.
Ærir og aðrir vinir hans hafa því rifjað upp gamlan húsgang sem þeir sömdu fyrir skemmstu, en komst aldrei á milli húsa, í tilefni þess að farið var að reka áróður fyrir fólasín töku fyrir getnað. Þykir nú ærið tilefni til að rifja hann upp.
Engum lík er ástin mín
ýmislegt hún gerir.
Farin er á fólasín
og flaxast leggir berir.
Unga dreymir alla tíð
ástina að hljóta,
fólasínið fá um hríð
og fengitímans njóta.
Fáðu þér eina folasín
og flest mun gott af hljótast.
Eina töflu tátan mín
taktu og komdu að njótast.
Löngum konur vilja, en veita
vörn í tíma og líka rúmi.
Fólasín mun flestum heita
fagra stund í kvöldsins húmi.
Fólasín er í fínu lagi
fæst i flestum búðunum.
Ef laumast inn í læknisbragi
leikur allt á súðunum.
Eftirmáli.
Fv. raunvísindamenn geta verið berdreymnir, en dýpri merkingu þarf í útleggingar á draumum þeirra. Þeim er ráðlagt að sofa í náttfötum og skrá sig á námskeið um kenningar Freuds sem er aðhefjast hjá Endurmenntunarstofnun i febrúar þar sem fjallað verður um áhrif kenninga Freuds á læknisfræði nútímanns, en einnig um kenningar hans um drauma. Kennari á námskeiðinu verður Sigurjón Björnsson, prófessor emeritus og hestamaður. Það hefst í febrúar.
Neyðarkall úr norðri
Staka
Dæmalaust margt á þér dynur,
en duga skaltu drengurinn góði.
Þess óskar þér frændi og vinur
í litlu en laglegu ljóði.
Því ljóðin þau lina og laga,
og lengi þau geta lifað.
Þó illa sé ort þessi baga,
er betra að hafana skrifað.
Burt mun alla bölsótt særa,
ef berst þér kveðjan staka.
Flogin frá frændanum æra
í faðm þinn og aftur til baka.
24. janúar 2005
Dolorós
Þá er þessi dagur runninn upp. Það gerist alltaf einu sinni á ári, en kemur alltaf jafnmikið á óvart, - og þó. Á þessum degi er gott að líta til baka. Minningar. Þær eru fjársjóðir. Sumir vel faldir. Aðrir alltaf að vekja gleði. Dagbækur geyma minningar. Það gera myndir líka. Að ofan má sjá mynd sem við eigum. Hún er tengd minningum. Norðlenskt fjall speglast í haffletinum. Litadýrð náttúrunar flutt heim í stofu, minningar um dvöl á æskuslóðum. Þar bjuggum við, litla fjölskyldan einu sinni. Á okkar fyrstu sambúðarárum. Þar stækkaði fjölskyldan. Myndin er líka eftir gamlan mentor, Kristinn G. Jóhannsson listmálar, sem kom mér til nokkurs þroska á unglingsárum. Var kennari minn og stjórnaði unglingaskólanum heima, sem hét þá gagnfræðaskóli. Þar voru gagnfræði kennd. Þess er gott að minnast í dag.
En enginn dagur er eins. Ekki einu sinni þessi, sem kemur alltaf á sama tíma á hverju ári. Fékk ánægjulegar fréttir í morgun. Enn ein rannsóknaráætlun sem ég hef verið svo lánsamur að fá að taka þátt í að undirbúa, þó hlutur minn hafi ekki verið mikill, fékk hljómgrunn hjá RANNÍS. Fengum styrk til að gera klíniska samaburðarrannsókn á verkjameðferð. Ætlunin er að athuga áhrif hugrænrar atferlismeðferðar á langvinna verki. Ég er lánsamur því ég er alltaf að læra eitthvað nýtt og kynnast nýjum hugmyndum og það sem best er; - góðu fólki.
En engin dagur líður án þrauta. Ekki þessi heldur. Hann byrjaði ekki þrautarlaust. Átti erfitt með að komast á fætur. Bólga eftir byltu gærdagsins enn ekki gengin niður. Fór nefnilega í heimsókn í gær til vinar míns. Hann hefur nýlega gengið í gegnum erfiða reynslu. Missti uppáhalds hestinn sinn, hann Doksa úr ókennilegum sjúkdómi. Á nokkrum klukkutímum var hann allur. Hans er sárt saknað. Við heygðum hann fyrir nokkru síðan og drukkum minningarskál. Í hans stað er kominn móálóttur klár, sem gengur undir gælunafninu Trotsky enda búsettur nú í hesthúsinu Stalingrad. Hann mun hvers manns hugljúfi, - eða næstum hvers manns. Átti að verða sýningarhestur en eins og Trostky, hinn eini sanni var settur af. Ég álpaðist á bak Trotsky í gær, enda hefur hann aldrei sýnt annað en góðmennsku. Fór með félaga mínum og vini, sem hafði þrjá til reiðar. Allt góðhestar í mikilli þjálfun. Þá brá sér einnig með húskarl vinar míns á blesóttum og stórum jálk. Vel gekk framan af. Trotsky tók brokkspor, og hélt hann væri kominn í sýningu. Honum var alveg sama þó húsbóndinn og húskarl hans væru komnir langt á undan, enda þeir á stökki. Húsbóndinn á leirljósu hryssunni Birtu, með Silfur-Grána í taum og þann rauða Lenín ystan. Við Trotsky héldum reyndar báðir að við værum að fara í montreið en ekki þolreið. Enda kann hann það best. Hann var samvinnuþýður lengi framan af, eða á meðan hann fékk að ráða. En einsog í gamla Sovét þá þykir betra að hafa stjórnina, eða ráðstjórnina. Því tókumst við aðeins á. Hann hristi haus og lét illa á mélum. En sýndi ekkert illt. Fór meira að segja fremur hægt. Enda lengdist bilið í meðreiðina. Við drógumst aftur úr. Náðum þeim köppum þó þar sem þeir biðu okkar við flugbrautina á Leiráreyrum. Höfðu orð á glæsileika okkar félaga, enda komnir að nokkru samkomulagi og sæmilega mjúkt tölt uppi á borðinu það augnablikið, með háum framfótalyftum. Það átti eftir að batna þegar hann fór að ganga betur undir sig og slaka á í hryggnum. Enda kitlaði ég hann með hælunum aftur undir nára, sem er viðkvæmt svæði á klárhesti. Varð hann þá lungamjúkur, en þurfti áminningar um það. Trotsky líkar ekki áminningar. Tók þeim fálega og hafði kynnst betri og skýrar boðum frá knapa býst ég við. Vorum þó sælir, - báðir, þegar við fengum að fara fetið heimáleið. Hesturinn sótti greinilega traust til húsbóndans, sem var fríður á velli með þrjá til reiðar. Í því komapaníi líkaði klárnum vel. En svo æstist leikur. Stutt eftir heim og húsbóndinn og sveit hans nennti ekki að hangsa þetta. Fór aftur á stökk. Við Trotsky sátum eftir með sárt ennið. Reyndar áttu aðrir partar eftir að verða sárari. Reyndum að fylgja. Fórum meira segja á stökk. Mjúkt og ljúft. En svo skyndilega. Eitthvað gerðist. Klárinn ókyrrðist. Veit enn ekki hvað. Kannski fengið snjóköggul úr hófi í nárann. Færið var þannig. Hann tók viðbragð, vildi ekki stoppa. Hamaðist á mélum og vatt hausinn. Við töluðum greinilega sitthvort tungumálið. Ég bjó mig undir roku. Hann bjó sig undir að losa sig við knappann. Vatt haus, svo búk, rauk og lyfti baki Sneri upp á sig, stoppaði og svo áfram. Hratt. Áður en varði var hnakkur kominn út á hlið. Enda illa girtur og ekki með nægjanlega margar gjarðir. Gjarðaskortur getur haft alvarlegar afleiðingar. Sá næst vegamót. Húsbóndinn stoppaður þar í örvæntingu og horfði á aðfarir knapans, heldur klaufalegar. Um tvær áttir að ræða á gatnamótunum. Óljóst hvert skyldi haldið. Hesturinn þó ákveðinn í að fara sína leið; - einn. Hnakkur á hlið. Knapi á hlið. Algjör ósigur. Fósturjörðin fríð getur verið hörð þegar frosin. Við búum á Fróni. Reis upp aftur. Stoltið sært. Saknaði ísaxarinnar. Kjagaði eins og gæs í átt að hesthúsum. Hesturinn hljóp til húsbónda síns úr Stalingrad. Hittumst þar aftur. Augljóst hver vann þessa glímu. Eitthvað í augnsvip klársins, veit en ekki hvað það þýddi. Sættumst. Lagaði hnakkinn og staulaðist á bak. Trotsky tók mér vel. Muldraði afsakanir við eigandann sem var miður sín, en þurfti ekki að vera það. Enda hinn ágætasti klár þegar á heildina er litið. Klárinn var alveg slakur veit ekki hvort það var af sigurvímu eða þó það sem líklegra er iðrandi gjörða sinna. Við riðum um hesthúsahverfið, -hægt. Vildum hvorugur láta um okkur spyrjast að við værum klaufar í samskiptum.
En aftur að deginum í dag. Ekki gat ég vitað að í dag, einmitt þennan dag yrði ég heima við rúmið að sleika sár mín, bíðandi þess að bólgur renni af bógum og síðum. Svo sá ég á netinu að við fengum styrk til að kanna hugræna atferlismeðferð við verkjum. Lífið getur verið snúið og tekið óvænta stefnu. Er það ekki dásamlegt!
21. janúar 2005
20. janúar 2005
Bættir braghættir frá Reyðarfirði
Nægju mikla en níð ei færir,
naskur foli sunnan heiða.
En harður svolinn heitir Ærir,
sem heldur senn til útreiða.
Eru honum færðar þakkir og munu kveðjur hans og vísur áframsendar til Æris frænda míns, hvers umboðsmaður ég er en samt algjörlega ábyrgðarlaus gagnvart kveðskap hans og ambögum. Eru þær því birtar hér án allrar ábyrgðar.
Hafa marga fjöruna sopið
Í landafræði skal löngum minnast
að langar fjörur ei þar finnast.
En rúgbrauð gott
með silungsvottt
má þar líka kynnast.
En fyrir húsbóndann í húsinu á sléttunni, sem lagði sig einu sinni (sem oftar) í lífshættu með félögum sínum nokkrum á menntaskóla árum, skal nú komið á framfæri að síðar verða rifjaðar upp minningar úr fallhlífarstökksferð einni frækilegri. En til þess þarf langan aðdraganda enda ekkert gamanmál á ferðinni, þó svo síðar hafi aðrir haft það í flimtingum og jafnvel reynt að gera sér mat úr því að stökkið varð aðeins eitt. Enginn fór aftur í áður fyrirhugað seinna stökk, enda lærðu menn af reynslunni í þá daga. Þó heyrist mér að lofthræddir menn séu farnir að gæla við að læra á flugvélar og því enn meiri ástæða til að rifja upp fallhlífarstökkið margfræga. Skal þeim bent á að hálfsjálfvirkar ef ekki alsjálfvirkr myndavélar eru nú í boði og geta slíkar græjur slegið nokkuð á græjufíkn (sem því miður hefur ekkert ICD-10 númer), amk tímabundið. Og fyrir þá sem taka of margar vondar myndir þá er til sá möguleiki (reyndar verða menn að vera læsir á leiðbeiningabæklinga sem fáum er reyndar gefið ef græjufíknin er á háu stigi (enska: severe) ) að eyða myndunum og kallast það í orðsifjafræðinni myndhverfing. Þ.e.a.s. að myndin hverfur ef ýtt er á "delete" takkann. En um myndafárið hafa verið skrifaðir lærðir pistlar á ónefndri netsíðu. En nú er tímaskortur og vini mínum, húsbóndanum í húsinu á sléttunni aðeins send ein bagaleg baga ort að kvæðasið Hals Húfubólgusonar skálds norðan heiða):
Rennur á kappann rúgbrauðsæði,
rifjar upp og lifnar við.
Taðreyktan silung og smjörið, -bæði,
smyrjist að ofan að góðum sið.
En silungur enginn sést þar ytra,
syndir aðeins að fjörum landa.
En (k)ostur berst til vinar vitra
og veitist til beggja handa.
Rúgbrauð sneitt með ráðnum hug,
reynist besti kostur.
En þegar hugur hefst á flug,
helst við því er ostur
Með kostulegum kveðjum.
Viðurkenning
Ljósmynd af Mbl.is.
Reykjavíkurborg veitti íþróttafólki viðurkenningar í gærkveldi. Hjörtur Már fékk viðurkenningu fyrir sundið á sl. ári, veglega fjárhæð - 200.000 kr. Hann setti 5 Íslandsmet í flugsundi og tók svo þátt í Olympíuleikunum í Aþenu. Synti þar á nýju Íslandsmeti. Við erum svakalega stolt af strákunum okkar, sem hafa erft sundgenin og keppnisskapið frá foreldrunum og öðrum áum. Amk fljótum við hin vel í vatni.
18. janúar 2005
Amor nobilis
Nú eru læknadagar og í gær fórum við félagar á hádegisverðarfund í boði lyfjafyrirtækis að hlusta á fyrirlestur um geðsjúkdóma í Íslendingasögunum. Margt var þar athyglisvert á borð borið. Geðsjúkdómar á miðöldum skiptust í fjóra megin sjúkdóma og byggðist á hugmyndum um uppruna sjúkdóma í fjórum megin vessum líkamans. Ekki verður það farið nánar í það að sinni, en til fróðleiks er rétt að greina frá helstu geðsjúkdómunum, þó þeim verði heldur ekki heldur gerð ítarleg skil.
Melancholia, sem m.a. Egill Skallagrímsson þjáðist af eftir fráfall sonar síns Böðvars. En náði heilsu með blekkingum dóttur sinnar Þorgerðar.
Amor nobilis, eða ástsýki eða ástarsorg, sem Egill þjáðist m.a. af þegar hann kynntist Ásgerði konu sinni. Einnig mun Kormákur í Kormákssögu og samskipti hans við Steingerði hafa einkennst af slíkri ofurþráhyggju. Einnig munu ágætar lýsingar vera á þessu í Björns sögu Hítdalakappa. Meðferð við amors nobilis, sem m.a. kemur ágætlega fram í þeirri sögu að Björn hafi reynt, var ekki inntaka hinna geysivinsælu SSRI lyfja. Heldur þótti ráðlegra að leggjast í ferðalög. Annað gott ráð voru samfarir og það þriðja illt umtal (eða koma fram með einhvern raunveruleikaspegil og breyta áliti elskenda á hvoru öðru með illu umtali og sögum um svik). Í Laxdælu munu einnig ágæt og mörg dæmi, svo og Víglundarsögu um samskipti Víglundar og Ketilríðar.
Af öðrum frægum miðaldasögupersónum má nefna Ofelíu í Hamlet og samskipti þeirra og örlög hennar.
Flogaveiki eða Morbus Sacer, eða helgur sjúkdómur.
Lykantropia / kyantropia var einnig vel þekkt á miðöldum, en það lýsti því þegar menn umbreyttust í hunda eða úlfa (varúlfahugmyndir m.a.) og skilt því mun líklega berserksgangur og að á menni rynni hamur eða þeir yrðu hamrammir.
Lýkur nú þessum pistli en frekari rannsóknir fyrirhugaðar.
14. janúar 2005
Hárprýði
Folatollinn fæstum færir
þó feykist um hár toppurinn.
En þegar stúlkan barminn bærir
bregst við langi lokkurinn
en ef hann skyldi vera farinn að gamlast má leggja þetta svona út:
Folatollinn fæstum færir
þó feykist um hár toppurinn.
En þegar stúlkan barminn bærir
bregst við gamli kroppurinn
og ef hann skyldi vera staddur í girðingu í Kræklingahlíð:
Folatollinn fæstum færir
þó flaxist langi lokkurinn
En þegar hryssan barminn bærir
bregst við gamli skrokkurinn
Hér þykir rétt að hætta en frekari útfærslur velkomnar!
8. janúar 2005
Jólamyndir
Dansað í kringum jólatré hjá Hólmgeiri og Jónínu í Hraunbænum. Loksins komu myndir úr gömlu spóluvélinni úr framköllum.
Fleiri myndir úr jóladagsboði tengdaforeldranna má sjá á http://aerir.photosite.com/ . Nú hefur tæknin verið endurbætt og opnað fyrir lysthafendur að hlaða niður myndum..
7. janúar 2005
Þegar hróður berst víða
Skjóta álftir skelk í bringu,
Skuld og Æri í Hexa.
Þröngur gallinn, sem í þvingu,
þótt´ann sé Large-Extra.
(höf: má finna á Lapsus linguae)
Verður þeim seint fullþakkað.
5. janúar 2005
Hófur Páfason
Hófur Páfason (IS199715847).
Komst ekkert á bak besta vini mínum, honum Hófi. Hann er sonur Nánasar frá Ásgeirsbrekku. Páfi Angason (frá Laugarvatni) er Kirkjubæingur. Nánös er Roðadóttir frá Kolkuósi.
Af ferðum mínum er þó ýmislegt að frétta. Í kvöld var riðið út þrátt fyrir hryðjuverk og sprengjur íbúa í Breiðholti. Náði niður í hús rétt um hálf sjö. Sá að einn hestur var úti. Mætti síðan nágranna okkar í lengjunni. Konu nokkurri sem var með þrjá til reiðar. Hafði þá ekki lengur afsökun. Eiginkonan náttúrulega fjarri góðu gamni að vinna. Fór að troða mér í snjógallann, Extralarge frá Hexa. Heldur stór og ekki beint sniðinn til að bæta vaxtarlagið. Grænn og með endurskinnsmerkjum þannig að ekki verður í honum dulist nema setja upp hettuna og spillist skyggni þá heldur. En margt má á sig leggja. Var kominn hálfa leið inn að stíum þegar Finnur mætti galvaskur með áform um að fara út. Ekki með þrjá til reiðar heldur einn í einu og ekki færri en þrír hestar skyldu hreyfðir. Hver á eftir öðrum. Þrír túrar. Ekert minna dyggði. Ég varð að samsinna því. Rólegt kvöld mitt við að kemba og klappa var greinilega farið til spillis. Rakettur streymdu úr Breiðholtinu og hvellir og drunur til að æra hvern meðalstilltan hest. Ég fór því á Skuld. Enda er hún enn ógreidd og ber nafn með rentu og því eðlilegast að taka mestan séns á henni, ef á okkur yrði skotið. Hún trylltist og hlypi út í náttmyrkrið og ég sæti eftir með sárt ennið og ýmislegt fleira. Fyrsti túr fór vel, enda er hún yndið mitt yngsta og besta. Reyndar bara nýjasti hesturinn minn og sennilega sá elsti. Er á óræðum aldri eins og flest kvenkyns og nákvæmari skilgreining fæst ekki frá fyrri eiganda, amk ekki fyrr en að fullu greidd. Hún er þó vel tennt sem segir nokkuð. Eftir vanalegan undirbúning riðum við niður að Elliðaám, við reiðvöllinn ofanverðan og svo upp undir brú. Þar fórum við undir Breiðholtsbraut. Hittum þar í myrkrinu fyrir þrjár álftir, - ungar, sem hafa fyrir sið að fljúga upp úr skurði þegar við ríðum hjá. Þær eru nokkuð greindar og sjá við okkur í hvert sinn sem við eigum leið um. Finna alltaf nýjan stað til að leynast á. Tekst því ítrekað að fæla hestana og skjóta okkur skelk í bringu. Það tókst líka núna. Við félagarnir fengum því eina salíbunu, reyndar eftir á að hyggja heldur stutta og slappa enda báðir á tryggðartröllum. Finnur náttúrulega á hesti frá Fanneyju, honum Lýsingi sem er hesta léttfetastur. Náðum því heim í hús óskaddaðir en lítt ánægðir með hesta því enga montreið náðum við úr þeim í þetta skiptið.
Næst var farið á Flygli, -hennar Þorbjargar. Villtum gæa. Hét upphaflega Brynjar og kom frá hjáleigu nokkurri á suðurlandi en vegna lundarfars, hraða og yfirferðar var nafni snarlega breytt. Hann er lítið fyrir að hleypa mér á bak. Heldur að verið sé að bjóða sér upp í tangó þegar reynt er að lyfta löpp upp í ístað, sem reynist kviðsíðum knöpum erfitt. Tekur þá að bakka og snúast og taka spor sem sennilegast, miðað við tiktúrur, eiga uppruna til Argentínu, amk ekki er það Spánska sporið. Hef fengið ótal ráð til bæta úr þessu. Ekkert dugað lengi. Nema helst að gefa Þorbjörgu hrossið, hvað ég gerði á Fjallabaksleið syðri í sumar og þarf því mun sjaldnar að reyna að klöngrast á bak. Nú tók hann aðeins tvo hringi og ekkert prjón eins og á Landmannaleið (Fjallabaki nyrðra) forðum. Ekki minnkaði spenningur í honum þegar öslaðir voru skaflar niður keppnisvöllinn í Víðidal alveg niður að brú, sem liggur yfir Elliðaár og er nánast í hlaðinu á sundlauginni í Árbæ. Finnur taldi sig illa girtan, þ.e. hnakkinn og vildi af baki en ég taldi það óráð og ákvað að sitja sem fastast enda óvíst hvort annað tækfifæri gæfist til að komast á bak. Hesturinn er greinilega ánægðari með Þorbjörgu en karlinn enda líklega léttari byrði. Á heimleið tókust síðan á stálinn stinn. Hestinum skyldi kenndir mannasiðir. En hestar eru lítt kunnandi í þeim siðum og eins og ég komst að, ekki sérlega námsfúsir í þeirri grein. Tamningar fyrir utan þá sem nefnd er: "Með aðferðinni af frjálsum vilja" kann ég lítil skil. Hef reyndar diplóma í þeirri aðferð, nánar tiltekið einungis í hringgerði. Hef því litla reynslu í öðru, en á tölt skyldi klárinn og drógumst við þá aftur úr. Sáum aðeins undir hófana á meðreiðarfélögum okkar. Það þolum við báðir illa, Flygill og ég. En hann er þeirrar náttúru gerður að hann verður alltaf að vera fremstur, -amk þegar Þorbjörg er á honum. Á hægt tölt skyldi hann fara og fékk ýmsar bendingar þar um,, en undi því illa og lét í það í ljósi. Gladdist hann því mjög í beygju nokkurri fyrir neðan brekkusporð í útjaðri Fákabóls, þegar Finnur kallaði nokkuð á undan mér: "Eigum við ekki að leyfa þeim að teygja sig". Þar með var hann horfinn, enn lengra á undan okkur. Þótti Fygli þetta hið vænsta ráð og betra að fylgja öðrum knapa en þeim sem á baki sat. Ekkert varð við ráðið. Hrossið á heljarstökki upp brekkuna og inn í beygju eina nokkuð krappa og alveg ljóst að við vorum ekki einhuga. Því varð sá að vægja sem vitið hafði meira. Nei, nei, ekki Flygill heldur ég, þó einhverjum mætti detta það í hug. Fyrir þá sem hafa littla reynslu í Burtreiðum, en ég hef nú öðlast hana nokkra, þ.e. að bregðast við þegar hestar neita að lúta einum vilja og sá dagur getur orðið eftirminnilegur, get ég sagt að aðeins er til eitt ráð. Ég náði að slaka taumnum í tíma og og að nokkru mjöðmum (en þær stirðna með aldrinum) og fylgja eftir þegar við stímdum beint á afturhluta Óðins (hestsins Finns eins og sagt var í minni heimabyggð), -og síðan fram úr. Allt fór þetta vel, fyrir utan nokkuð los á mjóbaki og mjöðm þannig að nú get ég kvartað með klíentalinu.
Þrátt fyrir þetta ævintýri ef ævintýri skyldi kalla þá var ég ekki af baki dottinn. Komst sjálfur af og með nokkurri reisn, sem því miður fáir eru til vitnis um. En gamanið var ekki búið. Sprengjur heldur að magnast í Breiðholtinu, nú tívólíbombur og sprengitertur og minni kökur. Var ákveðið þó langt væri liðið kvölds og eftir ítarlegt samráð okkar félaganna, þar sem Finnur réði mestu eins og vanalega, að taka þriðja settið. Enda vildi Finnur gefa Illuga sínum tækifæri til að brokka í sköflunum á keppnisvellinum. Sá klár brokkar ekki ótilneyddur og breyttu hnédjúpir skaflar þar engu um. Hinsvegar lyfti hann fótum meir en fyrr á tölti og langt upp fyrir 90 gráður, var hann vel pakkaður saman þannig að unun var á að horfa. En við vinur minn hann Glói frá Ásgeirsbrekku, Hugason frá Hafsteinsstöðum í Skagafirði erum mun rólyndari enda hlóðst í hóf og var yfirferð okkar fram að því tignarleg og öllum til sæmdar og það eina sem ég gat kvartað um voru klíentaltýpueinkenni frá mjóbaki og mjöðm, -eftir hestinn Þorbjargar.
4. janúar 2005
Vetur í Reykjavík
Bögubósi
Vetri hallar og versnar tíð
vandi er nú að lifa.
Engum manni öðrum býð
eðal vísur skrifa.
Á veiði kallar og vitnar til
vísna drengur góði.
Með stöng og streng í stórum hyl,
stærðar fann hann sjóði.
....
Með stóran fisk í strengnum lá
stæltur veiðimaður.
Bólginn á húfu halur sá
hét hann bögu glaður.
2. janúar 2005
Sólarkoma
Sólarkoma. Í dag er annar dagur ársins og honum fylgir sýn til sólar. Horft af svölunum hjá okkur yfir til nágranna og Bláfjalla, kl 13.00. Frost er úti -10C. Snjóföl er yfir öllu en birta dagsins falleg í upphafi árs.
Kvöldblogg: Fórum saman hjónin á hestbak síðdegis í frosti en blíðviðri. Fyrstir urðu samferða Flygill sem bar Þorbjörgu á svifbrokki fram að Elliðavatni og ég kom á góðhryssunni Skuld. Með okkur riðu Óli á Svarti frá Sörlatungu, -stóðhesti efnilegum og Finnur reið Lýsingi hinum léttfeta hungangsangandi unghesti. Að lokinni smáhvíld var aftur gengið til húss og nú lagt á þá Glóa og Hóf frá Ásgeirsbrekku. Finnur fékk stóðhest, einn graðann til að ríða á og Óli kom á jörpu tryppi úr Skagafirði sem var ótamið en bandvant. Það reyndi að sýna mótþróa með ýmsum leikfimisæfingum, en varð ekki kápan úr klæðinu með það. Enn var frost um -8C og engin lét það á sig fá. Riðið var í átt að Elliðavatni í rökkurbyrjun og áð undir brekku í skjóli furulundar sem þar er. Finnur og Óli sýndu þó ekki slíkt harðfylgi í reiðmennskunni og kusu fetgang innan byggðar, enda hestar þeirra lítt til langferða búnir. Leiðir skildu því fljótt. Öðru máli gengdi um þá félaga frá Ásgeirsbrekku og ekki síður í Þorbjörgu. Af mikilli gleði var haldið austur undir Breiðholtsbraut, með frostið í andlitið og drunur flugelda í bakið. Ég hélt vel í, - svo engin skömm var af reiðlagi. Farið var hratt yfir á hröðu tölti. Á köflum var svifið á mjúku stökki. Brokkæfingar voru fáar en öllum til gleði. Yfirferðin á töltinu svo mikil að lítill tími gafst til að sinna skipulögðum æfingum. Nú í vetrarbyrjun er áberandi hve þrek og þol þeirra félaga Glóa og Hófs hefur aukist í ferðunum sl. sumar. Yfirferð og rýmd er ótrúleg. Eða eins og Þorbjörg sagði, betri hestar finnast vart. Aðrir eiga góða hesta en okkar eru ágætastir.
1. janúar 2005
Nýársdagur 2005
Áramót. Fyrsti dagur nýs árs rennur upp og er fagnað. Þorbjörg með frænkum sínum og fleiri gestum á Strætinu í áramótafagnaði. Sjá má fleiri myndir úr því á http://www.aerir.photosite.com/ , eða með því að smella á titilinn hér að ofan.