Smyrill frá Lóni í Kelduhverfi. Mynd af http://www.simnet.is/lon/hrutar.htm
Margir hafa gaman af hestamennsku og íbúar Stór-Reykjavíkur og annara höfuðstaða landsins hafa hellt sér út í hana. Hafa byggst upp hestahúsahverfi, mörg hver í upphafi í úthverfi eða útjaðri byggðar. En eins og í Víðidalnum þá standa þau nú í miðri byggð og orðin hluti af borgarlífinu. Hestamennskan hefur margar hliðar. Ein er ræktun og falla margir í þá freistni. Aðrir stunda reiðmennsku sér til ánægju og jafnvel ferðalaga og enn aðrir gerast keppendur. Keppt er bæði í ræktun og sýningum. Vaxandi vinsælda nýtur að fara í stóðhestaréttir t.d. norður í Skagafjörð eða Húnavatnssýlu eða sækja ræktunar og sölusýningar.
Ég held að næsta æði sem muni grípa þéttbýlisbúa, sem eru að leita glötuðum tengslum við náttúrna verða hrútaræktun. Nú þegar fengitíð og sæðingum er lokið hafa ýmsar hugmyndir verið að vakna. Til dæmis hvort ekki sé rétt að koma upp fjárhúsahverfi og gæti það orðið kosningamál í næstu kosningum í stað flugvallarkarpsins. Til er reyndar Fjárborg i útjaðri Stór-Reykjavíkur en þar eru aðallega hestar nú til dag. Þetta minnir mig einnig á að heima á Ólafsfirði var til Fjósahverfi þegar ég ólst upp og þaðan á ég margar mínar bestu minningar. Um það má lesa í bókunum um Emil og Skunda eftir Guðmund Ólafsson.
Víkjum aftur að hrútaræktinni. Það kom mér á óvart hversu mikið efni er um hrúta á íslenskum netþjónum. Bændur hafa greinilega tekið þessa tækni til notkunar. Að ofan má sjá Smyril frá Lónkoti og er heimasíða þeirra Lónkotsbænda til mikillar fyrirmyndar og slær eiginlega flestu út um hesta og hestamennsku í þeim miðli. En aðdragandi að áhuga mínu nú á hrútum er að mér áskotnaðist um síðustu helgi bókin hans Hjartar frá Tjörn. Æviraus eins og hann kallaði í handriti, en útgefin Spor eftir göngumann. Í slóð Hjartar á Tjörn, heitir bókin og var gefin út af Skjalborg 1997. Hjörtur var sannkallaður héraðshöfðingi. Í bókinni er margt sem veitti mér ánægju þó aðeins sé ég búin að fletta henni og grípa niður í kafla og kafla. Þar eru auðvitað sögur af Tröllaskaga, tengslum hans og ferðum í Ólafsfjörð. Margar fór hann fótgangangi sér til ánægju og eflingar. Einnig eru skemmtilegar lýsingar hans frá samskiptum við Strandamenn, en til þessara tveggja landsvæða á ég mest tengsl.
Í 11. kafla bókarinnar, Hrútasýningar eru skemmtilegar lýsingar. Ein er af hrútasýningu í Kirkjubólshreppi 1945. Þar segir svo frá hrútnum Spaki frá Arnkötludal.
"Í Kirkjubólshreppi voru sýndir margir framúrskarandi hrútar. Bestur þeirra og jafnframt kostamesti kollótti hrúturinn, sem ég hef séð hér á landi var Spakur Sigurðar Helgasonar í Arnkötludal. Hann var á sýningunni 6 vetra, vó 116 kg, hafði 120 cm brjóstmál og 27 cm breitt bak. Hann hefur óaðfinnanlegan vöxt. Hausinn er stór og sver, ennið breitt, snoppan sver, nasir víðar, varir þykkar og kjálkinn breiður, fæturnir eru fremur stuttir, mjög sverir og kjúkurnar sterklegar. Þeir eru beinir og vel settir þannig að gleitt er milli framfóta og afturfóta. Hálsinn er stuttur og sver og fyllingin framan við bóga ágæt, bringan breið og nær vel fram fyrir bóga. Herðar eru ávalar, bakið breitt, beint, sterkt og holdmikið. Síðurnar eru vel útskotnar og kjötfylling mikil aftan við bóga, malirnar eru breiðar og vel kjötfylltar, lærin þykk og lærvöðvinn þéttur". Síðan fjallar hann um annan hrút, Spak Magnúsar Lýðssonar á Hólmavík. "Hrútur þessi er smár en framúrskarandi þykkvaxinn og holdmikill, lágfættur og fríður. Augun eru óvenjulega stór og björt. Gefa þau hrútnum mjög þolslegan svip". (Spor eftir göngumann. Í slóð Hjartar á Tjörn. Skjaldborg 1997, bls 112).
Um þetta þarf ekkert frekar að segja, annað en dást að hve vel máli farinn og ritfær hann Hjörtur á Tjörn var. En fyrir mig þá er næsta mál á dagskrá að stofna þrýstihóp um að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni og þar verði byggt fjárhúsa og fjósahverfi. Um þetta ættu bæði höfuðborgar -og landsbyggðar íbúar að geta sameinast.
3 ummæli:
Með þessu áframhaldi þá fer að styttast í að þú gerist bóndi í fullu starfi. Bóndadurgurinn í þér hefur greinilega verið grafinn lengi og brýst út fullskapaður nú þegar árunum er farið að fjölga, hárunum að fækka og það sem eftir er skiptir lit eins og laufin á trjánum.
Mér datt í hug að þetta gæti líka hentað Haraldi, enda vanur bústörfum úr Eyjafirði og víðar.
Í guðanna bænum ekki minnast á þetta við hann, hann væri vís með að uppveðrast og fara að byggja fjár- og hesthús á Lönguklöpp.
Skrifa ummæli