1. febrúar 2005

Landafræði



Hér kemur enn ein mynd af fjörunum. Hér má sjá hvernig forreiðin leiðir lausu hrossin. Myndirnar eru loks farnar að bera tilætlaðan árangur. Vinir og frændur að smitast af löngun, en óvíst um getu til að byrja í hestamennsku. Annars væri mikill fengur af slíkum liðsauka. Sérstaklega því enn og aftur hefur komist upp um takmarkaða landafræði kunnáttu og ónákvæmni í lýsingum á staðháttum hjá ærnum vini og með ólíkindum að hann hafi skilað sér úr hestaferðum. En það má auðvitað skrifa á þekkingu samferðamanna og GPS tækja þeirra. En þessi mynd er úr Breiðuvík á Snæfellsnesi í ferð sem farin var á Löngufjörur og nokkru lengra en þær. Nánar tiltekið er verið að ríða yfir Grafarós út á Hraunlandarif þar sem spretta má úr spori, hestum og mönnum til gleði. Rétt áður hefur verið farið yfir Sölvahamar , og síðan fram hjá Þrífyssu sem fellur fram af bjargbrúninni. Þar og víðar hefði mátt renna færi fyrir fisk ef svo hefði borið undir og einhverjir kunnáttu menn í þeirri list verið með í för. Það væri því ærið tilefni að fagna komu frænda okkar í þann góða og skemmtilega félagsskap sem hestamennska er. Komi þeir flestir fagnandi og megi þeir ætíð leita í viskubrunn okkar án ærinnar fyrirhafnar. Annars upplýsist að enginn pistill er hér lengur skrifaður án þess að athugað sé og gaumgæft yfir landakorti.

Engin ummæli: