7. febrúar 2005

Tungutak


Á fyrstu dagleið um Fjallabak, eða réttara sagt annari. Hér þótti rétt að virða umferðarmerki og bíða eftir eftirreiðinni. Sjá má í forreiðina nokkru framar á myndinni eða nær Búrfelli fyrir þá sem eru áttavilltir og búa etv að norðan og vestan. Forreiðin er enn á undan en eftirreiðin hafði haldið sig til hlés og kom á eftir sbr. fyrri lýsingar, eða eins og einn góður ferðafélaginn kvað:

Nú er úti um ferðina for-,
fylkist -reiðin á undan.
Eftir- koma kannski í vor
karlar er -reiðina stunda.

Þegar hér var komið sögu hafði fátt eitt gerst nema að stóðið hafði lestað sig. Einn eldri knapi stungist á hausinn fram fyrir hrossið sem hann átti að ríða, enda ákafamaður mikill og sýndi því helstu einkenni forreiðarsýki, þ.e. að vera heldur á undan hrossinu. En sumum nægir að vera það í huganum og gefst það yfirleitt betur, svona til langframa.

Þá var kveðið:

Ef í huga hossast nú,
heilla knapinn góði.
Forreiðina finnur þú,
fremst í þessu stóði.

Því var svarað að bragði enda menn þegar orðnir óþolinmóðir að vera aftastir í eftirreiðinni:

Aftast í stóði er eftirreið,
engin um það efast.
Allt of löng er þessi leið.
Lítið hugur sefast.

Þegar komið var í náttstað í Áfangagili minnir mig að mig hafi berdreymt og til mín kom ári nokkur sem tönglaðist á:

Eftirreiðin á undan fór
engin vildi bíða.
Það er satt og því ég sór,
seint í forreið ríða.

Gerðust nú reimleikar miklir og hafa sest að í skeytum til okkar Æris þó ekki sé þar koffí. Um það verður fjallað síðar.


1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Halur hefur lítið horft í dagsljósið undanfarna daga af ótta við að sjá hross skeiða hjá; ótti hans er sannur. Þakklátur er hann fyrir eftirreiðina en berdreyminn er hann eigi sem Ærir.

Halur kvað:

Í Áfangagili, hélt að illa færi,
ári fyrir honum Æri.
Því eftirreið
undan sveið
í ógurlegu rass-særi.

Halur fékk senda þessa upptöku af Æri í draumi (Ærir var með hljóðum og gat ekki klæðst náttskýlu og sótti að honum kergja, haft eftir konu):

Á Adamsklæðum einum var,
atgeirinn þó reifur bar.
Draumspakur er
í draumnum fer
drengurinn á kvennafar.

Halur samgleðst öllum er vóru með í hestaferð þessari sem vonandi tekur engan enda, því nægur er efniviðurinn í nokkur bindi.