9. febrúar 2005
Haldið af stað
Lagt af stað frá Leirubakka í Landsveit. Eftir dagleið frá Kaldbak, yfir Ytri-Rangá sem er sæmileg laxveiðiá, á vaði við Þingskála og upp að Leirubakka var tími komin til leggja í langferðina um Fjallabak. Þar hittum við félaga í hestamannafélaginu Fáki í Reykjavík og var ferðahópurinn stór. Fjörtíu og sex knapar allar reiðubúnir í ferðalagið. Á fjóshlaðinu voru tvær gyltur eða þrjár sem ráfuðu um og voru áhöld um að taka þær með og haft var á orði að þar væri nestið komið og skyldi haft á fæti þar til á þyrfti að halda. Vöktu þær nokkra kátínu fyrir forvitnis sakir en þær snusuðu í farangri og fleiru. Vildu margir þær nema á brott, en í hópnum voru prúðmenni ein og engir ribbaldar. Voru það nokkur vonbrigði að ekki yrði riðið um héruð með yfirgangi og ofstopa. Bú rænd og bæir brendir. Því varð ekkert úr áformum að taka svínin með. En nógur var maturinn og vel útilátinn alla daga.
En á myndinni má sjá Þorbjörgu sem snýr baki í myndavélina og situr Rjúpu, dágóðan hest sem við höfðum í láni. Við hlið hennar er Fanney á dökkum klár, sennilega Blakki sem Þráinn Bertelsson rithöfundur átti á þeim tíma og er gamalreyndur ferðarhestur. Finnur félagi okkar situr móálóttan hest, Móaling gæðing mikinn og duglegann. Af þessu tilefni heyrðist í horni.
Upp á hestinn hentist hann
og horfði stíft til fjalla.
Ómar bárust alla leið,
öræfin þau kalla.
Á fjöllum eru fyrnindi mikil
fram til þeirra hugur líður
Finnur á fáknum frækna
fremstur í stóðinu ríður
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli