18. febrúar 2005

Súper 8

Hinn nýji bloggheimur er athyglisvert fyrirbæri. Þar komast sögur á kreik, jafnvel upp á æru og trú. En Ærir er gleyminn og man fátt deginum lengur og á hann eru bornir kviðlingar sem hann kannast ekkert við. Svo eru sagðar sögur af æskuárum hans og afrekum misjöfnum. Það muna aðrir betur sem gamalt er og jafnvel það sem betur væri gleymt en geymt. Minni þeirra í Minni-Sóta er gott, þó ég haldi að þau misminni þessa sögu. Þau eru eru vesturfarar af nýrri kynslóð. Ég vona að þau verði aldrei annað en Íslendingar, um annað má ég ekki hugsa, því þá gætu draumfarir mínar orðið slæmar á ný og öðrum yrkisefni. En ég hafði gaman nýlegri upprifjun úr ferð okkar á Akrópólis. Það er rétt að á þeim tíma voru myndir skýrar og lítt hreyfðar, enda var Ærir og félagar ekki orðnir skjálfhenntir eins og dag. Það verður þó að leiðrétta mikla villu í textanum sem liggur næri að vera Ærumeiðing. En nákvæmni er aðall Ærinna félaganna. Kvikmyndavélin var nefnilega ekki af 8mm vél, heldur Súper 8 mm vél. Á því var stór munur.

Annars er þetta en eitt dæmið um að snemma beygist krókurinn. Við félagarnir höfum nefnilega aldrei getað veðjað á réttan hest (þetta hljómar nú reyndar skrítið þegar ég skrifa það). Í aðdraganda skólaferðarinnar sem má sjá margar myndir úr á Ugluvefnum okkar, var ákveðið að fara úr hefðbundinni ljósmyndum yfir í kvikmyndagerð. Í fríhöfninni reyndi sölumaður nokkur að selja, með ærinni fyrirhöfn, ný tæki sem kölluðust því undarlega nafni vídeó og stórar vélar til að taka vídeómyndir á í sjónvörpum. Þar sem ungur maður hafði enga trú á slíkri tækni og tækjum og taldi þau bólu sem fljótt myndi springa, afþakkaði hann statt og stöðugt slíkt tæki og bað sölumanninn í guðsbænum að selja sér ekki slíka vitleysu. Hann vildi bara Súper 8mm kvikmyndatökuvél og þrífót. Hann þóttist vita best (kannast einhverjir við þann fjanda). Þar við sat.

Haft er fyrir satt og illar tungur bera út að þetta hafi verið síðasta súper 8mm vélin sem seld var á Íslandi og jafnvel heiminum öllum. Önnur tækni ruddi sér til rúms skömmu síðar. Nú mun hægt í henni stóru ameríku að láta færa myndir af super 8 mm spólum yfir á vídeó. Það er erfitt að hafa alltaf rétt fyrir sér.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég bið forláts á mirstökunum og lofa að vera nákvæmari i vinnubrögðum. Söguna man ég vel vegna þess hversu óskaplega Böðvar hló að svarinu þínu, honum fannst þetta dásamlegur orðaleikur. k