Snemma um vorið fór Ólafur konungur austur til Konungahellu til stefnu móti Sigríði drottningu. En er þau fundust þá töluðu þau það mál er rætt hafði verið um veturinn, að þau mundu gera samgang sinn, og fór það mál allt líklega. Þá mælti Ólafur konungur að Sigríður skyldi taka skírn og rétta trú. Hún segir svo: "Ekki mun eg ganga af trú þeirri er eg hefi fyrr haft og frændur mínir fyrir mér. Mun eg og ekki að því telja, þótt þú trúir á þann guð er þér líkar." Þá varð Ólafur konungur reiður mjög og mælti brálega: "Hví mun eg vilja eiga þig hundheiðna?" - og laust andlit hennar með glófa sínum er hann hélt á. Stóð hann upp síðan og bæði þau. Þá mælti Sigríður: "Þetta mætti verða vel þinn bani." Síðan skildu þau.
Snorri Sturluson: Ólafs saga Tryggvasonar - Heimskringla