Þættinum hefur borist fyrirspurn um hvort stjórnandi þekki orðið tjaldhestur. Svo er nú ekki, en þó hafa athuganir leit í ljós að það mun vera til í máli okkar. Fyrst notað eða skráð í ritheimild árið 1948 af Braga Sigurjónssyni í bók hans Göngur og réttir. Vonandi skýrist notkun og þýðing þess skjótt.
Önnur fyrirspurn var um hvort þekktist notkun á grillógeðsvökva með keti keyptu í plasti eða sett í plast með slíku fyrirbæri. Suðuramtsbúar kannast vel við þetta fyrirbæri þó það sé lítt þekkt norðan jökla. Þó skal tekið fram að slíkt er sjaldan notað á heimili þáttastjórnanda og nýverið á menningarnótt í Rangárþingi var lambaket kryddað á einfaldan hátt, með grænum pipar, sítrónupipar, blóðbergi úr Stærra-Skálholti cum Ragnheiðarstöðum svo og heimaspíruðum hvítlauk sem smátt var brytjaður og marinn. Örlítlu sjávarsalti í flögum var stráð yfir í lokin. Þetta var reyndar allt hrist saman í plastpoka en ekki látið liggja þar lengur en tók að tendra bál í kolum. Var það ljúfmeti sem skolað var niður með misglærum skolvökva.
Annars hrjáir fiskleysi sunnlendinga, þeir kunna ekki lengur með stöng að fara. Helst að keyptur, sé bleikur fiskur og jafnvel alinn, yfir búðarborð. Þó hafa samningar tekist við nágranna í Útey sem liggur eigi svo langt frá tilvonandi óðalsjörð títtnefndri og einnig Klausturbleikju sem er í stíl við trúhneigð tilvonandi landseta og nágranna biskupsetursins. Því skal þessi uppskrift uppjóstruð, en hún er ættuð frá MÓla, þeim er yrkir af og til en hann taldi hana hafa komið frá Rúnari nokkrum Marvinssyni, en um flökku uppskrift er að ræða.
Bleikja í kókos:
Nýveidd bleikja er flökuð og vellt upp úr kókosmjöli og þakin vel.
Hvítlaukur er látin meirna/meyrna á pönnu í smjöri eða olíu, en ekki brúnast. Undirritaður gerði þá bragarbót að uppskriftinni að láta hvítlaukin liggja drjúga stund áður en að steikingu kom, ásamt flís af engiferrót smátt saxaðri og bút af steinselju.
Síðan er kokosbleikjan steikt eftir smekk og salt og pipar stráð yfir að hætti hver og eins.
Framreitt með kartöflum nýuppteknum.
Bon appetite. Fleira er ekki í þættinum í dag.
24. ágúst 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli