7. ágúst 2005
Haustferð
Fórum í hestaferð eins og til stóð, en þó á aðrar slóðir en upphaflega áætlað. Kannski eins gott því það gerði vitlaust veður á suðurlandi með stormi. Á föstudag fluttum við hesta og tjaldvagn að Kaldbak, við Ytri-Rangá og um kvöldið riðum við út með félögum okkar og bóndanum á Kaldbak um Skógræktargirðinguna. Að því loknu var borin fram fiskisúpa að hætti ÞH og súkkulaði mús í eftirrétt. Var það rómuð matseld. Vín var nokkuð haft um hönd en þó í góðu hófi, eins og við var að búast af félagsskapnum. Fyrr um kvöldið höfðum við farið í Selsund og samið við Sverri bónda um haga um nóttina og var því vel tekið. Athygli vakti að í forstofu og gangi hengu myndir af leiðtogunum, Lenin, Stalin, Marx og Mao og Alleande í fullri stærð. Urðu það tilefni til umræðu um hversu vinstrisinnaðir bændur í Hekluhlíðum munu hafa verið hér á árum áður og eru etv. enn.
Á laugardagsmorgun, eftir nokku kalda nótt sem sumir áttu en ekki allir, fórum við fimm saman og svo með okkur hjónin á Kaldbak. Engin asi var á mannskapnum. Lagt var af stað um hádegi í björtu og hlýju veðri. Riðið var inn í Víkingslækjarlandið og yfir hraunið inn á Hekluslóð. Gekk það stórslysalaust. Þó heltist hryssan hans ÓEÓ illilega og haltraði með síðustu metrana að áningu. Ég er svo heppin að eiga konu sem teymir hestana mína, og hefur þrjá til reiðar. Því get ég komist upp með að ríða einhesta og mun halda því þar til hún hefur tamið gæðingana okkar og kennt þeim þá kúnst að ríða saman í takt og sem teymi. Annars var haft á orði að þetta sýndi vel mun á kynjum því ég gæti aðeins sinnt einu í einu en hún hefði marga til reiða. Hvað sem það nú þýðir.
Við áðum í Koti sem nú er komið í eyði. Þaðan var haldið inn í Selsund og hestar settir í haga. Um kvöldið mikil og góð veisla með grilluðum lærum heim á Kaldbak. Um kvöldið bárust svo fréttir af stormviðvörun og var hafist handa við að flytja tjaldbúðir heim í hlað og undir skjólbelti austan við bæinn. Ekki veitti af því. Því um nóttina gerði hýfandi rok og rigningu en við sváfum vel undir víðitrjánum. Á Sunnudegi var svo legið fram eftir og beðið eftir að veðrið gengi niður. Eftir sundferð á Hellu og kaffi á Kaldbak var haldið inn í Selsund og hófst þar eltingaleikur við hesta sem náðust loks eftir nokkur hlaup um hraunið og gerðið. Hvasst var og þrýstust gleraugu í augntóftir þeirra sem ekki sjá sem best. Þegar hestar höfðu verið beislaðir var komin tími til að tygja sig af stað. Vindur var í bakið allhvass lítið ryk því rignt hafði vel um nóttina. Ferðin heim að Kaldbak tók ekki nema 1,5 klst enda hratt farið yfir. Þar beið okkar veislan enn ein með vöflum og rjóma. Kvöddum við svo hjón um kvöldið með eftirfarandi:
Að Kaldbak komum með vinum völdum,
undan vindi hrökktumst heim í hlað.
Við sem hér í túninu tjöldum,
með trega kveðjum góðan stað.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Skrifa ummæli