Vaknaði upp aðfaranótt föstudagsins við það að konan var að ganga út. Kastaði á mig stuttlegri kveðju í svefnrofunum. Uppgötvaði svo um morguninn að hún var farin. Húsið í rúst. Heimilisstörf ekki í forgangi í allt sumar. Eftir sátum við þrír fullorðnir karlmenn. Drengirnir hurfu svo líka á föstudagskvöldið. Sá yngri í æfingabúðir og kom ekki heim fyrr en á laugardagskvöld, þreyttur. Sá eldri fór í vísindaferð. Sína fyrstu sem læknanemi. Kom ekki heim fyrr en um hádegi á sunnudegi. Ég var því einn og yfirgefinn og heldur einmanna. Fann mér fátt til dundurs, var bæði áhugalaus og framtakslaus. Þó blöstu við verkefnin, - heimilisstörfin. Hristi af mér sliðruorðið í nokkur augnablik á föstudagseftirmiðdaginn. Dreif mig til Þorsteins Bergmanns og keypti nokkrar sultukrukkur (tómar). Fór svo í Heiðrúnu og keypti tvo pela af vodka (fulla). Týndi berjauppskeruna af runnunum. Fuglar höfðu verið fyrri til þetta árið svo aðeins tvö sólber voru eftir, en þeim mun meira af rifsbberjum. Þó ekkert í líkingu við það sem var í fyrra. Stikilsberin voru skrýtin. Ýmist mikið þorskuð og fallin af runnanum eða græn og hörð. Tókst þó að ná í eina lögun af rifsberjum og svolítið af stikilsberjum. Byrjaði svo á því að þvo krukkur í nýju uppþvottavélinni sem getur þvegið á 75C, en tekur í það 2,5 klst! Því var komið undir miðnætti þegar sultun og bruggun hófst. Lagði í berjablöndu, rifs 2/3 og stikilsber 1/3 og tvö sólber í Smirnoff ásamt sykri. Þetta á að verða snafsinn í vetur. Sultaði svo rifsber, aðeins 1 kg og setti í litlu krukkurnar frá Þorteini Bergamann. Lagðist sæll til hvílu þrátt fyrir að vera einn.
Á laugardegi var drungi yfir heimsbyggðinni allri og ekki síðst við rúmstokkinn minn, fram undir hádegi, þrátt fyrir einmuna blíðu utandyra. Vappaði innan um stafla af dagblöðum, strauk ryk með puttanum og virti fyrir mér fatahrúgur. Ekkert lífsmark í húsinu, drengirnir í sínum ferðum, æfingum og vísindaiðkunum. Fór og tafði kunningja minn sem er að byggja hús í Hafnarfirði. Drakk eftirhádegismatskaffi með honum svo hann komst ekki til starfa fyrr en kl 14. Sóluðum okkur á meðan við sögðum lygisögur og dáðumst að því sem við eigum best. Hesta. Fór í bíltúr í miðbæinn. Rataði varla inn í hann af nýju hraðbrautinni. Þar var margt um manninn, en heima beið hús í rúst og heimilisstörf. Fór heim og gekk um gólf og lét mér fallast hendur. Enn framtakslaus og áhugalaus og eirðarlaus. Velti fyrir mér hvort rétt væri að auka lyfjaskammtinn. En við tiltektarkvíða og yfirgefningu (ekki fyrirgefningu) er engin lækning til nema horfast í augu við vandann. Um kvöldið kom sá yngri heim, búinn að borða pylsur. Ég fór því og eldaði Tom Yum fiskisúpu, sem var mjög sterk og örvaði dofin og döpur skilningarvitin. Kom ekki miklu niður. Við feðgarnir urðum síðan sammála um að rétt væri að skjótast á Nings og ná sér í mat áður en Lost in Translation byrjaði. Á eftir fundum við Hagen Das jarðaberjaís í frysti sem við gerðum nokkur skil. Svo var hann floginn út á lífið og ég aftur einn. Húsið í jafnmikilli óreiðu og þegar hún gekk út um miðja nótt.
Sunnudagsmorgun, eða hádegi réttara sagt. Smá meðvitundarglæta. Hefði betur drukkið viský í gærkveldi til að hafa afsökun fyrir bágri líðan. Er að verða veikur fyrir víni, sennilega. Drekk sennilega ekki nóg. Spegilmynd morgunsins ekki glæsileg. Hefði betur farið í klippingu á föstudaginn. Gekk fram og prufaði berjahlaupið. Fylltist augnabliksgleði og var ekki úrkula vonar um að rétt væri að ýta langyfirvofandi sálfsvígi til hliðar. Kallaði saman herráðsfund þriggja fullorðina karlmanna og tveir mættu. Einn enn í vísindaferð. Húsi skipt í átakasvæði og hér þyrfti beita herkænsku svo óvinurinn næði ekki yfirhöndinni og um algjöra uppgjöf yrði að ræða strax fyrstu sókn. Sá yngsti sendur á háaloftið með tusku og rykbindiefni. Ég ákvað sem formaður (sjálfskipaður) herráðins að sinna utandyra störfum, þar sem fjendur höfðu lengi búið um sig og náð fótfestu sem óvíst væri hvort yrði nokkurn tímann brotin á bak aftur. Enda viss um að innadyra átök myndu bera mig ofurliði á augabragði. Ég er nefninlega svona meiri útitýpa þegar kemur að því að taka til inni. Það þarf að bera á sólpallinn! Þetta hafði verið vanrækt lengi. Af einskærum báráttuvilja, tókst mér að fresta átökum og hóf taktiska sókn með því að fara í búðir! Eyddi þar nokkrum tíma og meiri en nauðsyn krafði við að kaupa pallaolíu. Trebit, oregon pine 386 og bursta. Sá svo að ég var á undanhaldi fremur en í sókn, en sá að mér og hélt heim. Sópaði og bar á. Sá eldri nú kominn úr vísindaleiðangri, -tveggja nátta. Hann tók að sér herstjórn innan dyra. Áður en vissi voru tuskur, vatn og ilmefni komin á fullt sving. Sá kann til verka hugsaði ég. Örvandi hreingerningarlyktin fyllti okkur mætti og hvatti til dáða. Hér skyldi tekið á því. Óvinurinn féll hver af öðrum. Á klósettinu, loftinu, eldhúsinu, gluggakistunni, sófanum, sófaborðinu, parkettið (sem reyndar þarf að olíubera fyrr en síðar). Bakarofninn. Just name it. Hreingerningailmur fylgdi drengjunum mínum við hvert fótmál. Mikið var ég stoltur faðir.
Stakk upp á að við hefðum kaffitíma eins og í almennilegri vinnu. Baunir voru malaðar, kaffi bruggað og sá yngri náði að kríja út súkkulaðiköku hjá hverfisbakaranum. En mín beið erfitt hlutskipti. Taka þátt í innibardaganum. BÍLSKÚRINN beið eins og óvinnandi virki sem aðeins fuglinn kemst yfir. Strönd sem brýtur á, dót sem enginn notar en ekki má henda! Náði í fyrstu lotu að hreinsa 2 fm blett í norðvestur horninu. Náði að sópa hann líka. Varð að taka hvíld og setjast niður. Átök. Var það eini bletturinn sem í sást á þessum ríflega 20fm bílskur. Smám saman tókst að endurskipuleggja hillur. Vinsa úr það sem nú mátti henda en var ómissandi í síðustu tiltekt. Gólfflöturinn smá stækkaði og hillur fylltust. Tók meira segja til í skóskápnum. Hentum sameiginlega einum fullum svörtum plastpoka af úrsérgengnum skóm. Eftir 6 klst stöðuga sókn og gagnsóknir tókst að koma mynd á skúrinn, vann fullnaðarsigur undir miðnætti í gær. Þá reyndar búinn að taka góðan kvöldmat. Sá eldri fór í hverfisverslunina og keypti T-bone í amerískum stærðum, sá yngri grillaði kartöflur og ég sat til borðs með þeim og gerði þessu öllu góð skil. Sá eldri grillaði af snilld T-beinið, rare til medium rare. Átti von á afgöngum í aðra máltíð, en allt hvarf, bein nöguð. Haft var á orði að kvenmannsleysi heimilisins væri ekki sem verst ef slíkar steikur yrðu framreiddar á slíkum stundum. Yrðum að koma á slíkum árlegum viðburðum.
Sá yngri þvoði þvott og þvoði þvott og þvoði þvott og þvoði þvott. Flokkaði og braut saman. Langt fram eftir kvöldi þannig að nú sést að þvottahús er í húsinu, ekki bara geymsla fyrir óhrein föt í bunkum. Undir miðnætti vorum við ánægðir. Ég bauð drengjunum í skoðunarferð um bílskúrinn og hafði leiðsögn. Allir vorum við ánægðir, með vel unnið dagsverk. Eftir er að ganga frá forstofu og gangi og þvo meiri þvott. En það er smáorusta miðað við þá stórsigra sem við karlmennirnir þrír höfum unnið. Því skil ég ekki hversvegna ég var andvaka til klukkan þrjú í nótt. Hvað er að brjótast um í undirmeðvitundinni, -þeirri djúpu og dökku.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
"Maðurinn er alltaf einn" var skrifað á síðustu öld og Ærir þarf ekki að örvænta, þótt hann, þessi mikli höfðingi, leggist einn til hvílu. Hann þarf að ná áttum einsamall og þá helst í veiði. Halur telur lýsingar hans þess legar að gefa þyrfti Þjóðskjalasafninu afrit til síðari tíma, en hin greinargóða lýsing hans á fjölmörgum þáttum nútímalífs karla segir allt hvert stefnir. Halur veit af bílskúrum sunna heiða þar sem mannskaðar gætu orðið ef aðalhurðin yrði opnuð. Svo mun ekki vera hjá Æri.
Skrifa ummæli