15. ágúst 2005

Heilræðavísur auðkýlingsins

Um helgina fékk ég matarboð. Slíkt hefur ekki gerst lengi að nokkur utan fjölskyldu skuli bjóða mér í mat, hvað þá veislu. Þetta var höfðinglegt boð, þó svo ég væri þar líka. Fram var reiddur silungur bleikur, nýveiddur úr Mjóavatni á Auðkúluheiði og rabbabaragrautur með rjómablandi í eftirrétt. Áfengi var nokkuð haft um hönd en á því snerti ég ekki. Drukku þar sumir meira en aðrir. Var þá almælt að veisluhöld væru mikil og góð. Var húsráðandi mærður mjög fyrir góðan afla og rausnarlega fram borin. Hér koma nokkrar heilræðavísur.

Upp á fjöllum aflann veiðir
Ingó Reyðfirðingur
Feikn af bleikju fram hann reiðir
foldarsonur slyngur

Með pela í vasa og pyttlu á landi
pukrast nætur svartar
Vatnið óð í vondu standi
og vöðlum tveimur skartar

Í vatnið lagði, ég varla þori
frá veiðum þessum segja
En fáir síðan falla úr hori
þó flestir um það þegja.

Upp á heiði sig höldar eggja
heldur vígalegir
Netadræsur um nætur leggja
frá nóttu ekki segir.

Vikur tvær í vatni óð
veiði góðrar bíður
Í netið veiðir silfursjóð
sæll nú tíminn líður

Að morgni veiði mikla gerðu,
og máttu vart þá mæla
Þessa fiska þarna sérðu
í þá skulum næla.

Inn í netið álpast höfðu
ógnarstórir boltar
Í öllum netum út úr löfðu
átta hundruð skoltar.

Auðkýlingar að afla gera
og ekki bara einum.
Þúsund fiska þarf að skera
þessu frá við greinum.

Er góða veislu gerið þið
gangið á kúlu heiði
Netadræsur notist við
strax í næstu veiði.

Engin ummæli: