22. ágúst 2005

Menningarnótt við Rangá

Ekki undum við hag okkar í höfuðborginni. Menningarnótt í aðsigi. Fórum austur fyrir fjall og tókum niður tjald í höfuðstaðnum Stærra Skálholti eða Ragnheiðarstöðum sem sumir vilja kalla svo um þessar mundir. Höfum meðferðis tjaldvagnin og tókum stefnu austur að Rangárbökkum-ytri. Þar settum við upp búðir í Mýrarsundi við Kaldbak. Síðar komu vinir okkar

Frá Ytri-Rangá (mynd af agn.is)

Finnur og Fanney sem var þá 50 ára og eins dags gömul ásamt Sigrúnu systur hennar, en Fúsi kokkur á Löngufjörum að kokka ofan í lið sem við höfum ferðast með um þær slóðir sl. þrjú haust. En nú er annað ár og annað að upp á teningnum. Til að bæta okkur upp fjöruferðina var blásið til útreiða frá Kaldbak. Laugardagsreið upp í Hekluskóga sem Landgræðslan er að rækta til að vernda örföka land sem þar blæst upp. Er þar unun að ríða um og njóta skógræktarinnar. Laugardagskvöldið var síðan sannkölluð menningarnótt. Ýmsar sögur sagðar, missannar, grillað lambakjöt og viti menn, norsku kolin úr Europris eru alveg einstök. Þau eru ekki olíupressuð, heldur hrein viðarkol og gefa það besta grillbragð sem undirritaður hefur fundið lengi, enda orðin vanur gasgrilli og því með skert bragðskyn. En þarna enduruppgötvuðum við gamlar minningar bragðlaukanna. En þess má geta í framhjáhlaupi, að í eina tíð lærði undirritaður grilllist hjá Hali Norðuramtshöfðingja. Dagskipunin þar var að snúa lærisneiðum bara einu sinni og tapa ekki safa úr kjötinu. Þessi rödd hefur búið með mér síðan, eins og svo margt annað gott sem frá þeim ágæta manni hefur komið.

Um nóttina gerði svo úrhelli og varð hann allhvass á köflum, en í okkar yndislegu híbýlum komst maður bara í nánari tengsl við alnáttúrna. Um morguninn var votviðri og því setið lengi við morgunverðarborðið, rætt um hesta og landsins gagn og nauðsynjar og svo aftur hesta. En sambýli okkar við fákana hefur gefið lífinu nýtt gildi og svo enduruppgötvun tjaldútilegunnar. Hinn frumstæði tjaldbúi býr enn á meðal vor. ´

Um hádegisbil var svo gengið að Þingskálum, en þar var Rangárþing til forna og enn má sjá móta fyrir búðum Gunnars og Njáls og Marðar Gígju og fleiri Njálu sögupersóna. Allt kortlagt og merkt. Gengum við einnig upp á Þinghól þar norðanundan.

Að loknu kaffi á Kaldbak var svo haldið til útreiða. Hnykkja þurfti á skeifum á Hófi mínum sem Þorbjörg hafði valið sér til ferðar en ég var á Skuld, þeirri ágætu hryssu sem hafði mikin áhuga á graðhestinum Mídasi sem þar var í húsi. Nú héldum við upp með Rangá austanverðri, en áður hafði verið ráðgert að ríða yfir ána og upp vesturbakka hennar að Landsrétt. Verður það gert síðar. Ferðin var skemmtileg. Riðið um sandhóla sem búið er að græða upp. Komið er mikið víðikjarr, birki og fura þar sem áður voru örfoka sanhólar. Landslagið gefur tækifæri til að hleypa upp og niður hóla og inn á milli trjánna. Hestur og maður leika því saman og tengsl þeirra verða náin í slíkum leik.

1 ummæli:

Halur Húfubólguson sagði...

Halur hefir verið deigur við að gera athugasemdir hjá öðrum skrifurum og jafnvel í Suðuramti þar sem tjaldforingjar eru og fara fyrir höfðingjum í Rangárþingi. Halur vill spyrja sunnanmenn hvort þeir kannist við orðið "tjaldhestur", tjaldhestur? Halur minnist gamla tímans er hann var við veiðar á bökkum Eystri-Rangár í Álafossúlpu, þungri í vætu, gúmmístígvélum og stundum vettlingum ef kalt var. Á þeim tímum voru engin grill til nema frá náttúrunnar hendi. Vonandi hefir höfðinginn Ærir verið með gott ket á grillið og alls ekki keypt það í plasti eða lagt í plast með s.k. grillógeðsvökva. Halur minnist grilltímans með Æri, en sjálfur kýs hann helst "fesk" (les: fisk) á grillið og ekki verra að skola niður með misglærum (skol-) vökva.