17. mars 2005

Draumur við fjóshauginn

Þessar ferskeytlur eru lausn á flóknari samsetningu kvæðisins, sem birtist í Dratthalastaðadrápu. Enda er kveðskapur sá ekki fyrir viðkvæma og er varað við honum. Hér segir frá draumi Hals vinar míns sem fleygði sér við haug nokkurn norður í landi, sem reyndist þegar betur var að gáð, skv. draumskýringum, fjóshaugur sem í var lítið haugfé. Mun því draumurinn hafa stafað af Halisinasjón, sem er velþekkt fyrirbæri í andlegum fræðum, en við því eru til sterkar pillur. En það getur líka stafað af illum og torkennilegum gufum frá efnum sem sumir leita í ítrekað og verða háðir. Ekki skal hér nokkur greining sett fram, en þeirri tilgátu haldið á lofti og lögð til grundvallar að draumsýnir eða halisinasjónir Hals hafi stafað af lykt af fjóshaug og hross hafi þar ekkert komið nærri.

Þegar við hauginn henti sér
að Hali sótti draumur.
Í nætur stríði stendur hér,
styrjaldar hugarflaumur.

Upp úr haugi í hegrans stál
í hendingu einni saman,
flestir kalla að fari sál
förum, er kárnar gaman.

Allur heimur undir var,
eins og draumahending,
í Skagafjörðin skelfingu bar,
skrautleg nauðalending.

Dýrkeypt verða draumaráð,
er dagur varpar ljósi,
Getur sálin hringast snjáð
sífellt í eigin fjósi.

Því skynvillunar skondnu færi,
á Skagafjarðar melum,
lyktin sem að löngum bæri.
lengst að heilahvelum.

Orustu marga skal óttalaus,
ofurhetjan heyja.
Hafði þó engin hoggist daus
hér skal engin deyja.

(Hegrans stál=flugvél og vísast hér til fuglsins óminnishegri)

Eftirmáli:
Vonandi fer nú fram rannsókn á því, hjá vinum okkar sem eitthvað kunna í orðsifjafræði, hvernig að íslensku orðin Halur, sín og sjón hafa leitt til orðmyndarinnar hallucination. En það er notað í heimsálfum þeim sem mæla mest á enska tungu. Gæti það tengst ferðum Hals til Vínlands?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Halur mun heimsækja síðu þessa bráðlega og jafnvel gera atlögu með liði sínu.