Til mín leitaði vinur minn forn, á ekki orð yfir því að hann varð 65 ára fyrri nokkrum dögum. Honum fannst ég ungur. Hann vildi læra allt um orkukorn og erfðaefni þess, sem við fáum bara frá mæðrum okkar. Ekki snefill úr körlunum. Hann ætlar að messa á lærðum fundi um allt þetta skrýtna fyrirbæri, -orkukorn. Mitochondria.
Hann vildi borga hæsta taxta norðan Alpafjalla fyrir viðvikið. Var þar vel boðið. Mér var veitt sjálfdæmi. Það varð honum dýrt. Hann varð að kenna mér bragfræði. Við höfum nú setið tvo laugardagsmorgna saman í hesthúsinu hjá mér.
Ég hef þulið orkukorna fræði.
Kannski eru vísurnar mínar, mín orkukorn.
Hver veit.
Vinur minn forni sem er semsagt 65 ára og mun eldri en ég, en þó í anda mun yngri en árin, taldi að mér hentaði best gagnfræðaskólalærdómur. Við höfum verið að fara í það. Ég þarf mikla orku til að leiðrétta bragfræðina.
Nú verður gerð bragarbót. Þó eins og segir í málhættinum mínum í dag. "Sígandi lukka er best". Hestarnir mínir eru taktfastir á gangi. Ég þarf að læra hrynjanda af þeim.
Hesthús eru lærdómshús.
27. mars 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Það gætir í senn, bæði gleði og nokkurrar öfundar hjá Hali í garð Æris við þessar ágætustu aðstæður er hann býr nú við. Ljóst er að hugurinn verður ekki verklaus næstu vikurnar og gott til þess að vita að fátt hefur hann annað að starfa en moka skít og kveðast á við hrossin. Eggþór er hann eigi.
Halur kvað:
Víst er það óðsmannsæði,
einhver segir hugarbræði,
í hesthúsi að kenna,
þó hrossin eigi nenna,
- höfuðskáldi bragfræði.
Það er ljóst að taxtar þeir sem Ærir setur upp, verða ekki greiddir úr vasa neins venjulegs manns, allra síst úr norðuramti. Mörgum hefur gengið illa að skilja raunverulega hvernig orkukornin vinna þótt myndræn séu. Slík korn gefa endalausa vexti. Í tilefni orkunnar kvað Halur ambögu þessa:
Gamansamur guminn lærir,
gildin er hamingju færir.
Orkuna seldi
í öðru veldi
öldruðum vini - hann Ærir.
Það er ljóst að taxtar þeir sem Ærir setur upp, verða ekki greiddir úr vasa neins venjulegs manns, allra síst úr norðuramti. Mörgum hefur gengið illa að skilja raunverulega hvernig orkukornin vinna þótt myndræn séu. Slík korn gefa endalausa vexti. Í tilefni orkunnar kvað Halur ambögu þessa:
Gamansamur guminn lærir,
gildin er hamingju færir.
Orkuna seldi
í öðru veldi
öldruðum vini - hann Ærir.
Skrifa ummæli