31. mars 2008

Snæfellsjökull - áfanga lokið

Gengum á laugardag á Snæfellsjökul. Þurfti úr rekkju fyrir allar aldir til að keyra vestur á nes þar sem jökullinn beið okkar vaðandi í skýjum. Ágætis gluggaveður. Sól og bjart allt í kring en hvassviðri. Við vorum því undirbúnir undir skafrenningin á jöklinum. Eða það héldum við. Við gátum keyrt upp að Sönghelli sem er í 300 m hæð og þar var bílum lagt og í við klæddum okkur upp í strekkings vindi. Gengum þaðan í einni lotu að jökulbrún þar sem við áðum og fengum okkur drekka og nærðumst aðeins. Var þetta eiginlega eina stoppið og hvíldin sem við fengum allan daginn. Fengum smá stopp í 1150 m.h.y.s en það var stutt því skafrenningurinn var svo mikill að lítið var hægt að aðhafast annað en að fylgja sporum næsta manns. Sá varla út úr augum og kælingin orðin mikil. Þannig fraus í vatnsflöskum sem ég hafði utan á bakpokanum en sem betur fer hafði ég meiri vökva í pokanum sjálfum.


Á leiðinn var barist við kalbletti í andliti. Þegar ég var komin í um 1300 m hæð og átti eftir ca 150 m upp á topp stoppaði einn leiðsögumaðurinn mig og benti á að nefið á mér væri frosið og hvítt og spurði hvor mér væri ekki kallt en ég var löngu hættur að finna fyrir því. Það sem meira var að ég sá heldur ekkert með öðru auganu nema þoku. Varð úr að ég klæddi mig betur. Hafið haft bankaræningja lambhússettu meðferðis og við það eitt að fara úr vetlingum og klæða mig í hana króknaði ég á fingrum. Þetta var að verða hin mesta svaðilför. Að lokum héldum við áfram upp á tindinn og fögnuðum áfanganum með því að snerta hann og snúa strax til baka niður af fjallinu. Fjallið er rúmir 1430 m að hæð. Útsýni var ekkert og veður heldur að herða. Gengum við í halarófu niður aftur og var ekki fyrr en neðarlega á jöklinum að við fórum að sjá aftur til sólar og fallegt útsýni yfir Faxaflóann, Arnarstapa og inn eftir Snæfellsnesi. Þegar niður var komið og ég dreif mig úr jakkanum þá sá ég að svitinn sem hafði þéttst innan á var frosin og þar hengu grýlukerti í handarkrikunum, slíkt var frostið og vindkælingin. Mér var hinsvegar ekki kallt enda er lopapeysan mín orðin vel þæfð af þessu volki. Ferðafélgi minn var hinsvegar lengi að blása lífi í tærnar á sér sem mátti sennilega brjóta af án þess að hann findi mikið fyrir því.

Ferðin tók okkur tæpar 6 klst fram og til baka og þykir það nokkuð gott og vorum við komnir heim aftur kl 19 eða tólf tímum eftir að við lögðum af stað um morguninn.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svalar hetjur !!!
Stjáni

Nafnlaus sagði...

Ég dáist alltaf af þeim sem standast svona áskoranir eins og há fjöll, jökla og varasamt veður, og þora að leggja á sig erfiðleikana. Vá, flott hjá ykkur! kf

Nafnlaus sagði...

Jamm, jamm og já, já, minnir helst á lokakaflann í bók Edmund Hillary, Brött spor þar sem hann rekur söguna þegar hann kleif Everest, nema hann fékk aldrei grýlukerti undir hendurnar, þar toppaðir þú hann bróðir góður.
Helvíti er ég heppinn að þú fékkst þessi göngugen en ekki ég.
Gott hjá þér bróðir, alltaf á leið á toppinn.

Kv.
Bróðir

ærir sagði...

takk fyrir hvatninguna, og bróðir ég er nú eiginlega meira svona sófa týpan hin síðari ár, þess vegna skil ég ekkert í þessari áráttu sem hefur tekið sig upp aftur eftir margra ára dvala. en það er gaman að finna þrekið vaxa og svo hitt hvað hægt er skreyta hreystisögurnar.....
edmund á eftir að sjá eftir því að hafa ekki gengið með mér á fjöll.