24. mars 2008

Viðburðarríkir páskar

Þetta frí hefur heldur betur heppnast vel og margt á daga mína drifið. Í morgun var farið snemma af stað að ná í fleiri hesta. Ekki veitir af þegar þeim fjölgar sem vilja koma í útreiðarnar. Fór ásamt Finni vini mínum og Hólmgeiri austur að Kaldbak og náðum þar í Glóa, Hálfmána og Skuld. Gekk það vonum framar. Strax tókst að handasama Glóa og Skuld en að vanda gaf Máni sig ekki. Í stað þess að fara í eltingarleik um hagana rákum við þá inn í gerði þar sem hann stóð svo "ljúfur sem lamb" og gekk á kerru án nokkurra vandkvæða. Glói hefur hestakerrufóbíu og vildi alls ekki um borð en lét undan þrýstingi frá Finni og Hólmgeiri, sem reyndar var orðin ansi mikill. Hann prjónaði síðan og stökk um borð. Mikið sem þetta er nú fallegur hestur. Hreint alveg ótrúlegur. Ekki ekki er hún Skuld mín minna fyrir augað. Heim kominn fór ég svo einn Rauðhólahring á Hófi í fylgd með Finni og Fanneyju og leið þessi dagur að kveldi í sátt við lífið og tilveruna.

Engin ummæli: