21. mars 2008
Langferð á föstudaginn langa
Í dag var einmuna blíða og um hádegisbil þegar sól var hæst á lofti var haldið til útreiða og með nesti. Í stórum hópi góðra hesthúsvina héldum við, ég og sonurinn út í náttúruna. Hann á Hófi sínum og ég á Flygli. Riðið var upp að Elliðavatni og þaðan inn í Heiðmörk og Hjallabrautinni fylgt að Gjáarétt. Gerðum við tvívegis stutt stans á leiðinni til að láta hestana pústa. Flestir voru með fleiri en einn til reiðar en við feðgar einhesta, enda okkar klárar að komast í ágætt form eftir æfingar undanfarinna vikna. Áð var í Gjáarétt, hestum sleppt í girðingu og nestinu gerð góð skil í vorblíðunni og ekkert bólaði á páskahreti. Þaðan var haldið um Vífilstaðahlíð að Vífilstaðavatni upp að Heimsenda og svo heim. Ferðin tók 4,5 klst og vegalengdin uþb hálft maraþon. Frábært að eiga slík útivistarsvæði.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli