20. mars 2008

Innvígsla í fjölskylduna

Ég var búinn að hlakka lengi til Skírdags því þá ætlaði fjölskyldan að sameinast í hestamennsku. Tími var kominn að nýjasti meðlimurinn yrði vígður í þennan heim hestamennskunar sem hefur farið að skipta mig miklu máli hin síðari ár. Strákarnir komu báðir og loks hún Ylfa. Það kom í hlutskipti Hólmgeirs að leggja á Flygil í fyrsta sinn og Ylfa fékk gæðinginn minn hann Hóf. Síðan var farið í gerðið en þar byrja allir sem vilja koma með mér á hestbak. Við Hjörtur Már fylgdumst með og höfðum hlýjan bílinn til að sitja í. Þetta gekk vel. Hestar og knapar í góðu skapi þrátt fyrir vindstrekking. Greinilegt var að Ylfa hefur verið í hestamennsku áður þó nokkur ár séu liðin frá því að hún lét á það reyna síðast. Ég hélt mér því til hlés með leiðbeiningar en þær óþarfar þegar Hólmgeir var líka annars vegar sem leiddi liðkunaræfingar af mikilli líst. Af því loknu fengum við okkur kaffi í hesthúsinu og fögnuðum því að vera komin í páskafrí.

Engin ummæli: