Helgin var viðburðarík. Laugardagsmorgun byrjaði á því að ég heimsótti móður skógfræðingsins og gerði upp gamlar skuldir. Þar hafði staðið yfir sláturgerð deginum áður og ekki við annað komandi en að smakka. Þar fékk ég í fyrsta sinn slátur með rúsínum og þótti gott, svo gott að ég lagði til við eigin sláturgerð og fjölskyldunnar að við útbyggjum slíkt hið sama. Að því loknu voru lagðar fyrir mig þrautir. Fimm sultutegundir til smökkunar og greiningar. Tókst mér ágætlega upp og greindi fjórar af fimm rétt. Þekkti ekki og hafði ekki áður smakkað Fjallarifs, en til að sulta það þarf miklar kúnstir sem ekki verða raktar hér.
Í hádeginu hitti ég svo tvo rannsóknarprófessora, -samstarfsmenn mína að stóra Verkefninu sem við erum með í bígerð, en nú var það allt upp í loft þar sem annar neitaði alfarið að fara í samstarf við Englendinga eins og áætlað hafði verið. Eftir að hafa úthúðað Geirmundi brúna og hans fylgifiskum tókst íslensk málamiðlun og er verkið sem áður í farvegi. Með þessu svelgdum við í okkur veitingar á Mílanó en þar hittist þessi sella núorðið reglulega.
Eftir hádegi fór ég að aðstoða stórfjölskylduna við sláturgerð en í ár tókum við 15 slátur og ekki veitir af. Á föstudagseftirmiðdegi hafði ég unnið það afrek að brytja allan mör í smátt og hlutverk mitt á laugardegi að brytja hann smærra (því stóri dómur hafði svo dæmt að ég hefði kastað til höndunum kvöldið áður) og í frekara hegningarskyni var ég látinn sauma fyrir vambir. Verk sem ég vann með tilhlýðilegri virðingu og undir haukfraum augum systur minnar og hennar dætra.
Á laugardagskveldi fór ég út á lífið, þrátt fyrir kreppu og volæði. Skemmti mér sæmilega. Best var þó að morgunteið á Sunnudegi drakk ég með þýðanda Sögu ástarinnar. Það hefði verið enn betra ef ekki hefði fylgt með foreldrar hennar en þau þekki ég frá fornu fari. Virðulegir bændur norðan úr Fljótum, einum fegursta stað Íslands. Allt var það í boði systur minnar sem framreiddi Earl Grey og kleinur í tilefni þessarar merkisheimsóknar. Margt var skrafað og atburðir líðandi stundar krufðir, en þó mest um vert að liðin tíð var vegsömuð og gantast með gleðilegar minningar. Þegar þessi góðu gestir höfðu kvatt skáluðum við systkinin í hnausþykku aðalbláberja safti ættuðu norðan úr Fljótum en þar eru berjalönd betri en á flestum öðrum stöðum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli