27. júní 2007

Að yrkja

Hef notað þessa síður sem dagbók til að skrá hvað hefur verið sáð og plantað í Ljósheimum. Er heldur á eftir áætlun með skrif-finskuna, sem er gott merki. Frá síðustu skráningu hafa uþb 50 birkiplöntur verið settar í Þórlund en þar voru fyrir aspir frá sl sumri. Þar bætti ég svo við 9 reynitrám fyrir skemmstu. Tíunda plantan varð fórnarlamb Flygils. En það er merkilegur hestur. Þegar ég kem þá kemur hann alltaf fagnandi og heilsar mér og fylgir eins og hundur og tekur eftir öllu sem ég geri. Hann þarf alltaf talsvert af strokum og spjalli. Flygill er stríðinn hestur hef ég tekið eftir og hefur einstaklega gaman af því að leika sér. Þannig háttar til að ég hef stórt kar sem ég set vatn í til brynningar. Síðast þegar ég kom var það tómt og komu allir hestarnir að fá sér sopa. Ég veitti því eftirtekt að af og til kipptust hestarnir til, nema Flygill sem greinilega þótti sopinn góður og var alltaf með hausinn ofan í karinu. Að lokum áttaði ég mig á því að hann var að leika sér með slönguna. Beit í hana og sprautaði framan í hina hestana sem brá við leikinn. Loks sá ég hann endurtekið, bíta í slönguna og drekka af stút. Stakk hann slönguendanum upp í sig og sprauta upp í sig. Ef þetta hefði gerst einu sinni, etv tvisvar hefði ég haldið þetta tilviljun, en hann gerði þetta mörgum sinnum og ætla ég að það hafi verið leikur hjá honum, fremur en mistök. Svo fílaði hann alltaf grön á eftir eins og hann væri að hlægja. En svo ætlaði ég að planta reynitrjánum 10 hér og þar í landið og hugsaði sem svo að fyrst þær væru tiltölulega stórar fengju þær frið og yrðu ekki traðkaðar niður. En þegar ég var búinn að gróðursetja þá fyrstu kom flygill og laumaðist upp að mér og þegar ég ætlaði að dáðst að sjálfum mér þá skaut hesturinn hausnum fram og beit toppin af hríslunni, eins og hann vildi segja að þetta væri ekki góð hugmynd. Hinar níu plönturnar fengu því stað innan gróðurgirðingarinnar í Þórslundi.

Engin ummæli: