Mér hefur oft verið hugsað til þess undanfarið hvað maður getur verið óttalegur mikil þorskhaus. Á jákvæðari nótum rifjaðist upp fyrir mér að á mínum yngri árum herti karl faðir minn þorskhausa. Að rífa þurkaðan þorskhaus var vandaverk og þurfti ákveðið handbragð til að ná fiskinum. En fyrst urðum við að börnin að borða tálknin vegna hollustu sem í þeim var fólgin (dulin - því ekki þótti það góður biti). Úr beinunum mátti svo búa til leikföng og mundi ég að öll höfðu þau nöfn sem ég var auðvitað búinn að gleyma. Eftir skamma leit fann ég eftirfarandi upplýsingar um nöfn beinanna í vísindavef hí. Læt þetta fljúga með til gamans.
"Beinin í þorskhaus heita ansi sérstökum nöfnum; mörgum þætti til dæmis heitið 'gelgjur' skemmtilegt. Einnig virðast nokkur beina þorsksins vera kennd við önnur dýr, þar á meðal krumma (svo sem 'krummabein', 'krummakambur'), kýr (til dæmis 'kúagrön' og 'kjaftakýr') og kisu (til dæmis 'kisuklær'). Sum beinin hafa mörg nöfn, oft mismunandi eftir landshlutum".
"Á myndinni hér til hliðar má sjá beinin í þorkshaus, séð frá hlið. Þau eru eftirfarandi:
k-k' Krummi, krummabein
h Krummakambur
h' Fleygbein
m Miðskoltsbein (slorbein)
o Efri skoltur
u-u' Neðri skoltur, u Kjaftbein, kjálkabein, kýr, kýrbein, kúagrön (Vf.), smalakjálki, kjaftakýr (Vestmannaeyjar)
p-p' Kjammabein, efsti hlutinn kallast koddabein
p' Bógbein, skjöldur (Eyjafjörður)
q Vangabein, kinnbein
r Þverbein
l Tálknloksbein, kjálkabarðsbein, barð, kjálkabarð, kerlingarspónn, karlspónn, kambur (Rangárvallasýsla)
s Rákarbein
v Plógbein
b Baula, baulubein, kerling, hafrabein (Vestfirðir, Norðurland), strokkur (Rang.)
st Karlprjónar, bauluprjónar, gelgjur, nálbein
t Köttur (Vf., Nl.), kisa (Eyjafjörður), svín
"Á myndinni hér til hliðar eru svo tálknbogar þorsksins sýndir með tilheyrandi beinum:
1-4 Tálknbogar, þanir
5 Neðra kokbein
s Kisuklær (Rang.), efri kokbein
t Tungubein
Við höfum sótt þennan fróðleik í Orðabók Sigfúsar Blöndals sem kom út á árunum 1920-24. Þar eru rakin þau nöfn sem notuð voru um það leyti. En nú á dögum fer litlum sögum af þorskhausaáti og því eru þeir sjálfsagt fáir sem nota þessi heiti núna þó að einhverjir kannist sjálfsagt við þau. Á sama stað, aftast í Orðabók Blöndals, er einnig að finna heiti á vöðvunum í þorskhausnum ásamt skýringarmyndum. Sömuleiðis eru þarna heiti á hlutum í árabát og seglskipi, á hinum ýmsu hlutum í vefstól og rokki og á fjármörkum, allt saman með glöggum skýringarmyndum".
Engin ummæli:
Skrifa ummæli