Fór í langa ferð um helgina, en tíminn leið hratt. Stalst úr vinnu klukkan tvö og dreif mig á stefnumót og þegar búið var að hlaða bílinn var keyrt norður í land á vit ævintýra og óvissu. Keyrðum við viðstöðulaust norður í Öxnadal til að ná kvöldverðir á Halastjörnunni á Hálsi, -næsta bæ við Hraun. Í mildri kvöldgolunni gengum við til bæjar eftir að hafa drukkið í okkur fegurð Hraundranga í stað fordrykkjar settumst við að 5 rétta máltíð dagsins.
Horfðum laumlega og hálf feimin á hvort annað og fórum með
,,Þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla"
lék í ljósi sólar,
lærði hörpu að stilla
hann sem kveða kunni
kvæðin ljúfu, þýðu,
skáld í muna og munni,
mögur sveitablíðu.
Vertinn Guðveig býður bara upp á einn matseðil sem er breytilegur frá degi til dags eftir því hvaða hráefni hún nær í ferskast. Af honum má velja 2, 3 eða 5 rétti. Við völdum þann fimm rétta og sáum ekki eftir því.
1. Laxakarapatsío með salati og límonudressingu og blárri fjólu úr túnfætinum.
2. Rækjuhjarta á saltfiskbeði með hvítlauks keim og örlitlu kraumandi salti
3. Bláskel frá Hrísey gufusoðin í hvítvíns og koriandersósu, toppaði kvöldið.
Drukkinn af stemmingu kvöldsins og í tilefni bláskelarinnar rifjaði ég upp gamalt kvæði sem ég hafði einu sinni hnoðað saman og átti svo einstaklega vel við.
Í storminum stóðstu styrkur og keikur
svo stæltur að baráttan reyndist leikur
við forynju fagra þú glímdir í nótt
en fannst undir morgun að hjarta var rótt
er forynjan breyttist í blómknappadís
sem bláskel fögur úr ólgandi hafinu rís.
Ó, geymdu þá munúð og mundu þann brag
er forynjan breyttist við blómknappans lag.
Var þá komið að aðalrétti kvöldsins og öll 4 fögur borð veitingahúsins þétt setin og augljóst að ekki þýðir að koma í mat án þess að gera boð á undan sér.
4. Koli með hvannar- og hundasúru salati og sætkartöflumús.
5. Tíramísu að hætti króatiskrar tengdamömmu vertsins og kaffi með.
Tveimur tímum síðar og gott betur var haldið út í kvöldkyrrðina og keyrt norður að Laugum í Reykjadal og gengið til hvílu upp úr miðnætti undir fuglasöng og suði húsflugunnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli