Fór á taugum á föstudagskvöldið og skandaliseraði.
Vaknaði eldsnemma á laugardagsmorgni og fór í hesthús og mokaði skít í mikilli stækju í hegningarskyni.
Tók þátt í hátíð hafsins af fullum þunga eftir hádegi. Hitti sveitunga mína og hvatti lið þeirra í sjómannalagakontrapunkti sem fram fór í Hafnarhúsinu, -listasafni Íslands. Í liðinu okkar Ólafsfirðinga voru engir sjómenn. Hljómsveit húsins Roðlaus og beinlaus spilaði tóndæmi er frá Ólafsfirði og í eru 8-17 hljómsveitarmeðlimir eftir aðstæðum. (Annars svona inn á milli má skjóta að, að með hljómsveitinni hafa komið fram 73 hæfileikarríkir tónlistarmenn og aðrir minna hæfileikaríkir. Ég held ég sé að verða eini ÓF-firðingurinn sem ekki hef fengið að troða upp með þeim. Ekki einu sinni á hristur. Enda segja innfæddir að ég sé ekki einn af þeim, heldur aðfluttur. Verð alltaf nýbúi í ólafsfirði, þó ég sé fluttur þaðan).
Síðan tróð uppáhaldsbandið mitt upp the South River Band og spilaði meðal annars lög sem frændi þeirra frá Kleifum lærði í finnska vetrarstríðinu og kenndi Kleifamönnum.
Hápunkturinn var þó þegar hljómsveitin Pastorale kom saman á ný eftir ríflega 30 ára hlé og lék af fingrum fram. Í hljómsveitina hafði bæst ungviði úr sömu fjölskyldu, en þetta eru allt frændur úr Garðshorni og nágrenni. Fann svo kúluskít á hafnarbakkanum sem var kominn alla leið úr Mývatni. Ætla taka upp nýtt áhugamál og rækta þessa furðulífveru sem aðeins vex í Mývatni og einu eða tveim japönskum vötnum.
Skandaliserði ekki á laugardagskvöldið. Mér voru færðar 69 birkiplöntur í bakka til að planta í Ljósheimum. Frábær gjöf og vel þeginn. Þakkir þeim sem það gjörðu í boði Kaupþings.
Sunnudagur var merkisdagur. Ekki fyrir það eitt að vera Sjómannadagur. Heldur hitt að ég var langt frá sjó. Í uppsveitum suðurlands og lenti í hinum mestu ævintýrum eða hremmingum myndu sumir segja.
Vaknaði kl 8 og dreif mig í að ná í hestakerru og sækja góðhestana Hálfmána og Greifa í Kópavog. Vetrarstöðum þeirra var að ljúka og haldið skyldi til haga. Gekk það eins og í sögu. Áhyggjur mínar af því að vera einn við að setja þá á kerru voru óþarfar, eins og flestar mínar áhyggjur eru víst, er mér sagt, og reynist alltaf rétt. Tók hestana af við hesthúsið í Víðidal og beið Finns sem kom kl 9.13 nákvæmlega. Hann hafði greinilega ekki skemmt sér síður en ég kvöldið áður. Ljóst var að ég yrði að vera bílstjóri dagsins.
Drógum skeifur undan Hálfmána sem vildi gjarnan losna við þrjár en halda í eina. Var með uppsteiti þar til ég tók hann í karphúsið og hann skildi hver réði þar ferð. Háflmáni er merkilegur hestur. Sjálfstæður og stoltur nema þegar hann verður óöruggur þá leitar hann alltaf í skjól hjá mér. Yndislegur karakter.
Kl 10.00 vorum við lagðir af stað í Ljósheima. Ég, Finnur, Hálfmáni, Greifi og Mói hans Finns. Þar reyndust grös góð og mínum hestum sleppt og Mói tekin í sjúkravist.
Kl 12.30 Á Kaldbak eða réttara sagt í Bolholti nýja óðalinu hans Finns og Óla og vinar þeirra Þráins fylgdums við með Viðari á Kaldbak bera áburð á. Óli bætist í hópinn ekki dugði minna til. Þar var spegulerað í tvígildum og þrígildum áburðir. Niturefni, fósfór og kalki. Landbroti og áreyrum. Í kaffi á Kaldbak pælt í Midasi frá Kaldbak sem er undan Gára Orrasyni sem fékk 29. maí 2007 fyrstu einkunn, 4 vetra gamall og er stóðhestaefni. Lagt inn orð fyrir folatolli. Finnur sagði sögur af skrýtnu samferðarfólki.
Kl 14.00 eitthvað. Hlaup um Geldingalæk við að ná hestum. Tók þrjár tilraunir og jafnmörg aðhöld, blót og svita handsama fjóra klára sem ekki vildu í bæinn loks þegar grös voru farin að verða græn. Ég fór með hestana heim til Reykjavíkur en Óli og Finnur í leiðangur. Ákveðið að hittast í Reykjavík.
Kl 18.00 Óli upplýsir að hann eigi eftir að sækja og senda hesta um Suðurland. Telur okkur Finni trú um að við séum til þess fallnir að hjálpa honum við það. Við létum til leiðast. Get ekki sagt frá mörgu en þó þessu:
Í Gaulverjabæjarhreppi var ég settur í fyrirstöðu fyrir hesta bónda nokkurs sem vildi færa á milli hólfa. Stillti ég mér upp á vegafleggjara frá aðalbrautinni sem þeir áttu að hlaupa eftir. Bóndinn vildi að ég stæði lengra frá og inn á túninu. Það vissi ég að var ekki gott ráð en ekki deilir maður við bónda á eigin bæ. Og viti menn hestarnir ruku auðvitað afleggjarann og virtu manni á túninu ekki viðlits enda hvergi nærri. Tók ég á rás og ákvað að hlaupa eins og fætur toguðu. En fann að þeir toguðu æ styttra í hverju skrefi og að um fætur mínar þvældist fjötur. Leit niður og mér til skelfingar sá ég og reyndar fann að buxurnar og innri klæði voru siginn niður að hnjám og ég var að bera bossann fyrir Gaulverja. Um hann lék suðaustan súld og rigning 13m/sek. Strengur greinilega heldur rúmur á buxunum og ég ekki með axlaböndin. Verður þetta í minnum haft og fært í annála býst ég við. Gott að ég kynnti mig ekki þegar ég tók í höndina á heimilisfólkinu.
Læt ég hér staðar numið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli