
Bæir með sérstöku sniði. Öll húshorn máluð í öðrum lit en veggir og þakk. Í Öxarfirði með dökkum hornum en á Melrakkasléttu með ljósum hornum. Húsin gömul og full af sögu.
Mjög stingur í stúf fegurð sveitanna og eymd bæjarfélaganna sem eru að flosna upp á þessum ystu nesum landsins.
Úr Axarfirði og Sléttu var haldið í Þistilfjörð í heimabyggð formannsins græna. Keyrt inn að Flautafelli. Veiðimenn öfundaðir af fögrum ám. Komið við á bæ einum og þar mælt með gönguferð út á Rauðnes, en það varð að bíða sumarsins.

Úr Þistilfirði var haldið yfir Öxafjarðarheiði til baka. Á heiðinni var rigningarsuddi, landslagið mun fjallendara en ég hafði búist við og tilkomumeira. Á miðrið heiðinni stoppuðum við og pældum í umhverfi, hlustuðum á rigninguna hamra bílinn og móðuna safnast á gluggana. Upplifun eins og að vera á einangraðasta stað veraldar og njóta þess til fulls. Óspillt víðerni allt í kring á miðri Jónsmessu.
Við hæfi var að rifja upp kvæðið í heiðinni og hefði ég ekki ort það fyrr hefði þetta verið staðurinn og stundin.
Vina mín í heiðinni
hvar varstu í nótt.
veistu ekki að ég vakti
og beið þín í láginni
með litföróttum stráum
og læk sem hvísluðu
-sögu þína í eyra mitt.
Heim að Laugum komum við aftur um kvöldmat og fórum beint í heita pottinn og síðan borðuð nautalund með rúkóla salati og bökuðum kartöflubitum. Um kvöldið skrafað og beðið jónsmessunætur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli