29. júní 2007

Garðvinna



Í garði mínum
vex gleym-mér-ei
sem minnir mig á bláu augun þín
sem ræktaðir hann

Á morgun
ætla ég að uppræta arfann
sem sáði sér í vetur
og vefur sig
um klukkur og blóm

Að kaupa öl

Það er vandaverk að fara vel og rétt með öl. Keypti fyrir viku 66 öl-plöntur. Tegundin heitir víst ölur og er líka þekkt sem elri. Í þetta sinn keypti ég einn bakka af gráelri sem er reyndar svolítið rauðleitur og því oft ruglingslega kallaður rauðelrir eða rauðölur. Annar bakki sem ég fékk var með sitkaöl eða sitkaelri. Þessu þarf að planta hið bráðasta áður en þurrkarnir gera útaf við plönturnar.

27. júní 2007

Að yrkja

Hef notað þessa síður sem dagbók til að skrá hvað hefur verið sáð og plantað í Ljósheimum. Er heldur á eftir áætlun með skrif-finskuna, sem er gott merki. Frá síðustu skráningu hafa uþb 50 birkiplöntur verið settar í Þórlund en þar voru fyrir aspir frá sl sumri. Þar bætti ég svo við 9 reynitrám fyrir skemmstu. Tíunda plantan varð fórnarlamb Flygils. En það er merkilegur hestur. Þegar ég kem þá kemur hann alltaf fagnandi og heilsar mér og fylgir eins og hundur og tekur eftir öllu sem ég geri. Hann þarf alltaf talsvert af strokum og spjalli. Flygill er stríðinn hestur hef ég tekið eftir og hefur einstaklega gaman af því að leika sér. Þannig háttar til að ég hef stórt kar sem ég set vatn í til brynningar. Síðast þegar ég kom var það tómt og komu allir hestarnir að fá sér sopa. Ég veitti því eftirtekt að af og til kipptust hestarnir til, nema Flygill sem greinilega þótti sopinn góður og var alltaf með hausinn ofan í karinu. Að lokum áttaði ég mig á því að hann var að leika sér með slönguna. Beit í hana og sprautaði framan í hina hestana sem brá við leikinn. Loks sá ég hann endurtekið, bíta í slönguna og drekka af stút. Stakk hann slönguendanum upp í sig og sprauta upp í sig. Ef þetta hefði gerst einu sinni, etv tvisvar hefði ég haldið þetta tilviljun, en hann gerði þetta mörgum sinnum og ætla ég að það hafi verið leikur hjá honum, fremur en mistök. Svo fílaði hann alltaf grön á eftir eins og hann væri að hlægja. En svo ætlaði ég að planta reynitrjánum 10 hér og þar í landið og hugsaði sem svo að fyrst þær væru tiltölulega stórar fengju þær frið og yrðu ekki traðkaðar niður. En þegar ég var búinn að gróðursetja þá fyrstu kom flygill og laumaðist upp að mér og þegar ég ætlaði að dáðst að sjálfum mér þá skaut hesturinn hausnum fram og beit toppin af hríslunni, eins og hann vildi segja að þetta væri ekki góð hugmynd. Hinar níu plönturnar fengu því stað innan gróðurgirðingarinnar í Þórslundi.

25. júní 2007

Á vit nýrra ævintýra - kyrrð

SUNNUDAGUR 24. júní. Reykjadalur - Jónsmessunótt - kyrrð.
Angan af birki
eftir vætutíð ilmur
í lofti keimur
sem kynntist þér einni hjá
og geymi í ljósheimum

Vaknað í ró og 18 stiga hita. Morgunverður úti á palli. Brauð með reyktum silungi frá Skútustöðum og tómötum. Lítill áhugi á að yfirgefa þessa paradís.

23. júní 2007

Á vit nýrra ævintýra - Jónsmessa

LAUGARDAGUR 23. júní. Jónsmessa.
Þrátt fyrir að hafa sofið lítið um nóttina var risið árla úr rekkju og haldið af stað snemma morguns og ekið um slóðir sem ég hafði aldrei komið á. Farið í gegnum Húsavík og Tjörnes og út á Melrakkasléttu. Stoppað til að ljósmynda, rætt við bændur og búalið og kaffi þegið víða. Veðrið fullt af dulúð. Fuglalíf mikið.

Bæir með sérstöku sniði. Öll húshorn máluð í öðrum lit en veggir og þakk. Í Öxarfirði með dökkum hornum en á Melrakkasléttu með ljósum hornum. Húsin gömul og full af sögu.



Mjög stingur í stúf fegurð sveitanna og eymd bæjarfélaganna sem eru að flosna upp á þessum ystu nesum landsins.
Úr Axarfirði og Sléttu var haldið í Þistilfjörð í heimabyggð formannsins græna. Keyrt inn að Flautafelli. Veiðimenn öfundaðir af fögrum ám. Komið við á bæ einum og þar mælt með gönguferð út á Rauðnes, en það varð að bíða sumarsins.

Úr Þistilfirði var haldið yfir Öxafjarðarheiði til baka. Á heiðinni var rigningarsuddi, landslagið mun fjallendara en ég hafði búist við og tilkomumeira. Á miðrið heiðinni stoppuðum við og pældum í umhverfi, hlustuðum á rigninguna hamra bílinn og móðuna safnast á gluggana. Upplifun eins og að vera á einangraðasta stað veraldar og njóta þess til fulls. Óspillt víðerni allt í kring á miðri Jónsmessu.

Við hæfi var að rifja upp kvæðið í heiðinni og hefði ég ekki ort það fyrr hefði þetta verið staðurinn og stundin.
Vina mín í heiðinni
hvar varstu í nótt.
veistu ekki að ég vakti
og beið þín í láginni
með litföróttum stráum
og læk sem hvísluðu
-sögu þína í eyra mitt.

Heim að Laugum komum við aftur um kvöldmat og fórum beint í heita pottinn og síðan borðuð nautalund með rúkóla salati og bökuðum kartöflubitum. Um kvöldið skrafað og beðið jónsmessunætur.

22. júní 2007

Á vit nýrra ævintýra - ljóðakvöldin

FÖSTUDAGUR 22. júní

Fór í langa ferð um helgina, en tíminn leið hratt. Stalst úr vinnu klukkan tvö og dreif mig á stefnumót og þegar búið var að hlaða bílinn var keyrt norður í land á vit ævintýra og óvissu. Keyrðum við viðstöðulaust norður í Öxnadal til að ná kvöldverðir á Halastjörnunni á Hálsi, -næsta bæ við Hraun. Í mildri kvöldgolunni gengum við til bæjar eftir að hafa drukkið í okkur fegurð Hraundranga í stað fordrykkjar settumst við að 5 rétta máltíð dagsins.

Horfðum laumlega og hálf feimin á hvort annað og fórum með

,,Þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla"
lék í ljósi sólar,
lærði hörpu að stilla
hann sem kveða kunni
kvæðin ljúfu, þýðu,
skáld í muna og munni,
mögur sveitablíðu.

Vertinn Guðveig býður bara upp á einn matseðil sem er breytilegur frá degi til dags eftir því hvaða hráefni hún nær í ferskast. Af honum má velja 2, 3 eða 5 rétti. Við völdum þann fimm rétta og sáum ekki eftir því.
1. Laxakarapatsío með salati og límonudressingu og blárri fjólu úr túnfætinum.
2. Rækjuhjarta á saltfiskbeði með hvítlauks keim og örlitlu kraumandi salti
3. Bláskel frá Hrísey gufusoðin í hvítvíns og koriandersósu, toppaði kvöldið.

Drukkinn af stemmingu kvöldsins og í tilefni bláskelarinnar rifjaði ég upp gamalt kvæði sem ég hafði einu sinni hnoðað saman og átti svo einstaklega vel við.
Í storminum stóðstu styrkur og keikur
svo stæltur að baráttan reyndist leikur
við forynju fagra þú glímdir í nótt
en fannst undir morgun að hjarta var rótt
er forynjan breyttist í blómknappadís
sem bláskel fögur úr ólgandi hafinu rís.
Ó, geymdu þá munúð og mundu þann brag
er forynjan breyttist við blómknappans lag.

Var þá komið að aðalrétti kvöldsins og öll 4 fögur borð veitingahúsins þétt setin og augljóst að ekki þýðir að koma í mat án þess að gera boð á undan sér.
4. Koli með hvannar- og hundasúru salati og sætkartöflumús.
5. Tíramísu að hætti króatiskrar tengdamömmu vertsins og kaffi með.

Tveimur tímum síðar og gott betur var haldið út í kvöldkyrrðina og keyrt norður að Laugum í Reykjadal og gengið til hvílu upp úr miðnætti undir fuglasöng og suði húsflugunnar.

8. júní 2007

Nú blæðir framsóknarmenn - grænu

A team of Canadian surgeons got a shock when the patient they were operating on began shedding dark greenish-black blood, the Lancet reports.
The man emulated Star Trek's Mr Spock - the Enterprise's science officer who supposedly had green Vulcan blood.

In this case, the unusual colour of the 42-year-old's blood was down to the migraine medication he was taking.

The man's leg surgery went ahead successfully and his blood returned to normal once he eased off the drug.

Dark green

The patient had been taking large doses of sumatriptan - 200 milligrams a day.

This had caused a rare condition called sulfhaemoglobinaemia, where sulphur is incorporated into the oxygen-carrying compound haemoglobin in red blood cells.

Describing the case in The Lancet, the doctors led by Dr Alana Flexman from St Paul's Hospital in Vancouver wrote: "The patient recovered uneventfully, and stopped taking sumatriptan after discharge.

"When seen five weeks after his last dose, he was found to have no sulfhaemoglobin in his blood."

The man had needed urgent surgery because he had developed a dangerous condition in his legs after falling asleep in a sitting position.

The surgeons performed urgent fasciotomies, limb-saving procedures which involve making surgical incisions to relieve pressure and swelling caused by the man's condition - compartment syndrome.

In compartment syndrome, the swelling and pressure in a restricted space limits blood flow and causes localised tissue and nerve damage.

It is commonly caused by trauma, internal bleeding or a wound dressings or cast being too tight.

According to the science fantasy television series Star Trek, Mr Spock had green blood because the oxidizing agent in Vulcan blood is copper, not iron, as it is in humans.

Mr Spock had a human mother, and Vulcan father, from who he inherited his inability to make sense of human emotion, as well as his green blood.

Hitasótt hrossa

Hestamennska tekur á sig ýmsar myndir. Í gær veiktust margir hestar í hesthúsinu okkar, þar af báðir hestarnir mínir Hófur og Skuld. Líka Glói og Flygill og margir aðrir hestar. Hengdu haus, átu ekki og mældust með 39-40 stiga hita. Sem betur fer ekki önnur merki um hrossasótt. Sennilega bráðsmitandi hitasótt. Flauta varð af hestaferðir um helgina. Athyglisvert að mæla hesta með rassmæli. Meðferð sem ráðlögð var einföld: AB-mjólk með púðursykri. Þeir hresstust mikið við það, en við fylgdumst með þeim fram eftir nóttu og hitinn virtist vera að koma niður eins hratt og hann reis.

7. júní 2007

Breytingar

Allt er breytingum undirorpið. Því er ómögulegt að stíga tvisvar í sömu ána.

Herakleitos (um 540 – um 480 f. Kr.)
frá borginni Efesos í Jóníu í Litlu-Asíu (nú í Tyrklandi).

6. júní 2007

Framkvæmdagleði

Þá er búið að rústa baðherberginu. Kraftakarlinn sonur minn rústaði flísum og fleygaði gólfið. Nú er bara eftir að finna iðnaðarmenn til að byggja staðinn upp á nýtt.

Á sama stað óskast húsnæði til leigu um óákveðin tíma. Verður að hafa sturtu eða bað sem virkar.

PS. munið að leiðbeiningar fyrir syni ykkar áður en þið látið þá fá krafttólin hendur!

Afmæliskvæði

Rúnar sáli sæll í anda,
siglir niður tímans fljót.
Árin fertug fjörug blanda,
færðu gleði kappa í mót.

Í vöðlum öslar veiðir fiska
vígamóður grípur bráð.
Fugla eltir útí buska,
oft þar drýgir hetjudáð.

Verkir marga vilja buga
vinna þín er mikið streð.
Sálir fangar sefar huga
svona bæta má nú geð.

Knattleik æfir kappinn eini,
kætist fyrir utan völl.
Bullur ei því lengur leyni
látum hljóma okkar köll.

Hrópum ferfallt húrra; - Rúnar!
hefjum okkar raust í lundi.
Bésex stúlkur býsna lúnar,
bíða eftir næsta fundi.

Bið

Liggur í dvala
ljósheimur allur
öndin gárar lækinn
speglast ásjóna
en bifast ei meir

5. júní 2007

Ljótur leikur

Á sunnudagskvöldið slepptum við einum ungfola í graðhestagirðingu. Þar tóku við honum heimaríkir hestar. Athyglisvert var að fylgjast með atgangi og hegðun dýranna. Greinilegt var að eldri hestarnir vildu prófa sig við þann nýja. Æðsti graðhesturinn fór fremstur í flokki og hafði sér til liðsinnis þrjá ungfola. Stilltu þeir ungu sér upp sitthvoru megin við þann nýkomna og sá þriðji fyrir þvert fyrir framan. Kom svo æðsti foli með stökk upp á þann nýja að aftan og sýndi sína tilburði. Niðurlægin þess nýkomna var fullkomin og algjör við þessarar aðfarir. Það er margt skrýtið í náttúrinni.

4. júní 2007

Fjötrar um fætur tvær og pastorale

Helgin leið sem aldrei fyrr með ótal uppákomum.

Fór á taugum á föstudagskvöldið og skandaliseraði.

Vaknaði eldsnemma á laugardagsmorgni og fór í hesthús og mokaði skít í mikilli stækju í hegningarskyni.

Tók þátt í hátíð hafsins af fullum þunga eftir hádegi. Hitti sveitunga mína og hvatti lið þeirra í sjómannalagakontrapunkti sem fram fór í Hafnarhúsinu, -listasafni Íslands. Í liðinu okkar Ólafsfirðinga voru engir sjómenn. Hljómsveit húsins Roðlaus og beinlaus spilaði tóndæmi er frá Ólafsfirði og í eru 8-17 hljómsveitarmeðlimir eftir aðstæðum. (Annars svona inn á milli má skjóta að, að með hljómsveitinni hafa komið fram 73 hæfileikarríkir tónlistarmenn og aðrir minna hæfileikaríkir. Ég held ég sé að verða eini ÓF-firðingurinn sem ekki hef fengið að troða upp með þeim. Ekki einu sinni á hristur. Enda segja innfæddir að ég sé ekki einn af þeim, heldur aðfluttur. Verð alltaf nýbúi í ólafsfirði, þó ég sé fluttur þaðan).

Síðan tróð uppáhaldsbandið mitt upp the South River Band og spilaði meðal annars lög sem frændi þeirra frá Kleifum lærði í finnska vetrarstríðinu og kenndi Kleifamönnum.

Hápunkturinn var þó þegar hljómsveitin Pastorale kom saman á ný eftir ríflega 30 ára hlé og lék af fingrum fram. Í hljómsveitina hafði bæst ungviði úr sömu fjölskyldu, en þetta eru allt frændur úr Garðshorni og nágrenni. Fann svo kúluskít á hafnarbakkanum sem var kominn alla leið úr Mývatni. Ætla taka upp nýtt áhugamál og rækta þessa furðulífveru sem aðeins vex í Mývatni og einu eða tveim japönskum vötnum.

Skandaliserði ekki á laugardagskvöldið. Mér voru færðar 69 birkiplöntur í bakka til að planta í Ljósheimum. Frábær gjöf og vel þeginn. Þakkir þeim sem það gjörðu í boði Kaupþings.

Sunnudagur var merkisdagur. Ekki fyrir það eitt að vera Sjómannadagur. Heldur hitt að ég var langt frá sjó. Í uppsveitum suðurlands og lenti í hinum mestu ævintýrum eða hremmingum myndu sumir segja.

Vaknaði kl 8 og dreif mig í að ná í hestakerru og sækja góðhestana Hálfmána og Greifa í Kópavog. Vetrarstöðum þeirra var að ljúka og haldið skyldi til haga. Gekk það eins og í sögu. Áhyggjur mínar af því að vera einn við að setja þá á kerru voru óþarfar, eins og flestar mínar áhyggjur eru víst, er mér sagt, og reynist alltaf rétt. Tók hestana af við hesthúsið í Víðidal og beið Finns sem kom kl 9.13 nákvæmlega. Hann hafði greinilega ekki skemmt sér síður en ég kvöldið áður. Ljóst var að ég yrði að vera bílstjóri dagsins.

Drógum skeifur undan Hálfmána sem vildi gjarnan losna við þrjár en halda í eina. Var með uppsteiti þar til ég tók hann í karphúsið og hann skildi hver réði þar ferð. Háflmáni er merkilegur hestur. Sjálfstæður og stoltur nema þegar hann verður óöruggur þá leitar hann alltaf í skjól hjá mér. Yndislegur karakter.

Kl 10.00 vorum við lagðir af stað í Ljósheima. Ég, Finnur, Hálfmáni, Greifi og Mói hans Finns. Þar reyndust grös góð og mínum hestum sleppt og Mói tekin í sjúkravist.

Kl 12.30 Á Kaldbak eða réttara sagt í Bolholti nýja óðalinu hans Finns og Óla og vinar þeirra Þráins fylgdums við með Viðari á Kaldbak bera áburð á. Óli bætist í hópinn ekki dugði minna til. Þar var spegulerað í tvígildum og þrígildum áburðir. Niturefni, fósfór og kalki. Landbroti og áreyrum. Í kaffi á Kaldbak pælt í Midasi frá Kaldbak sem er undan Gára Orrasyni sem fékk 29. maí 2007 fyrstu einkunn, 4 vetra gamall og er stóðhestaefni. Lagt inn orð fyrir folatolli. Finnur sagði sögur af skrýtnu samferðarfólki.

Kl 14.00 eitthvað. Hlaup um Geldingalæk við að ná hestum. Tók þrjár tilraunir og jafnmörg aðhöld, blót og svita handsama fjóra klára sem ekki vildu í bæinn loks þegar grös voru farin að verða græn. Ég fór með hestana heim til Reykjavíkur en Óli og Finnur í leiðangur. Ákveðið að hittast í Reykjavík.

Kl 18.00 Óli upplýsir að hann eigi eftir að sækja og senda hesta um Suðurland. Telur okkur Finni trú um að við séum til þess fallnir að hjálpa honum við það. Við létum til leiðast. Get ekki sagt frá mörgu en þó þessu:

Í Gaulverjabæjarhreppi var ég settur í fyrirstöðu fyrir hesta bónda nokkurs sem vildi færa á milli hólfa. Stillti ég mér upp á vegafleggjara frá aðalbrautinni sem þeir áttu að hlaupa eftir. Bóndinn vildi að ég stæði lengra frá og inn á túninu. Það vissi ég að var ekki gott ráð en ekki deilir maður við bónda á eigin bæ. Og viti menn hestarnir ruku auðvitað afleggjarann og virtu manni á túninu ekki viðlits enda hvergi nærri. Tók ég á rás og ákvað að hlaupa eins og fætur toguðu. En fann að þeir toguðu æ styttra í hverju skrefi og að um fætur mínar þvældist fjötur. Leit niður og mér til skelfingar sá ég og reyndar fann að buxurnar og innri klæði voru siginn niður að hnjám og ég var að bera bossann fyrir Gaulverja. Um hann lék suðaustan súld og rigning 13m/sek. Strengur greinilega heldur rúmur á buxunum og ég ekki með axlaböndin. Verður þetta í minnum haft og fært í annála býst ég við. Gott að ég kynnti mig ekki þegar ég tók í höndina á heimilisfólkinu.

Læt ég hér staðar numið.

1. júní 2007

Þorskhaus

Mér hefur oft verið hugsað til þess undanfarið hvað maður getur verið óttalegur mikil þorskhaus. Á jákvæðari nótum rifjaðist upp fyrir mér að á mínum yngri árum herti karl faðir minn þorskhausa. Að rífa þurkaðan þorskhaus var vandaverk og þurfti ákveðið handbragð til að ná fiskinum. En fyrst urðum við að börnin að borða tálknin vegna hollustu sem í þeim var fólgin (dulin - því ekki þótti það góður biti). Úr beinunum mátti svo búa til leikföng og mundi ég að öll höfðu þau nöfn sem ég var auðvitað búinn að gleyma. Eftir skamma leit fann ég eftirfarandi upplýsingar um nöfn beinanna í vísindavef hí. Læt þetta fljúga með til gamans.


"Beinin í þorskhaus heita ansi sérstökum nöfnum; mörgum þætti til dæmis heitið 'gelgjur' skemmtilegt. Einnig virðast nokkur beina þorsksins vera kennd við önnur dýr, þar á meðal krumma (svo sem 'krummabein', 'krummakambur'), kýr (til dæmis 'kúagrön' og 'kjaftakýr') og kisu (til dæmis 'kisuklær'). Sum beinin hafa mörg nöfn, oft mismunandi eftir landshlutum".


"Á myndinni hér til hliðar má sjá beinin í þorkshaus, séð frá hlið. Þau eru eftirfarandi:

k-k' Krummi, krummabein
h Krummakambur
h' Fleygbein
m Miðskoltsbein (slorbein)
o Efri skoltur
u-u' Neðri skoltur, u Kjaftbein, kjálkabein, kýr, kýrbein, kúagrön (Vf.), smalakjálki, kjaftakýr (Vestmannaeyjar)
p-p' Kjammabein, efsti hlutinn kallast koddabein
p' Bógbein, skjöldur (Eyjafjörður)
q Vangabein, kinnbein
r Þverbein
l Tálknloksbein, kjálkabarðsbein, barð, kjálkabarð, kerlingarspónn, karlspónn, kambur (Rangárvallasýsla)
s Rákarbein
v Plógbein
b Baula, baulubein, kerling, hafrabein (Vestfirðir, Norðurland), strokkur (Rang.)
st Karlprjónar, bauluprjónar, gelgjur, nálbein
t Köttur (Vf., Nl.), kisa (Eyjafjörður), svín



"Á myndinni hér til hliðar eru svo tálknbogar þorsksins sýndir með tilheyrandi beinum:
1-4 Tálknbogar, þanir
5 Neðra kokbein
s Kisuklær (Rang.), efri kokbein
t Tungubein
Við höfum sótt þennan fróðleik í Orðabók Sigfúsar Blöndals sem kom út á árunum 1920-24. Þar eru rakin þau nöfn sem notuð voru um það leyti. En nú á dögum fer litlum sögum af þorskhausaáti og því eru þeir sjálfsagt fáir sem nota þessi heiti núna þó að einhverjir kannist sjálfsagt við þau. Á sama stað, aftast í Orðabók Blöndals, er einnig að finna heiti á vöðvunum í þorskhausnum ásamt skýringarmyndum. Sömuleiðis eru þarna heiti á hlutum í árabát og seglskipi, á hinum ýmsu hlutum í vefstól og rokki og á fjármörkum, allt saman með glöggum skýringarmyndum".