4. júní 2006

Þórslundur

Fór í dag austur í Land og leit á trjáræktina. Kuldakastið og næturfrostin í kringum 20. maí hafa tekið sinn toll sýnist mér. Drýpur lauf á öspunum og kal sést víðar en ég hefði viljað.

Í morgun las ég blogg skólasystur minnar, hennar Kötu sem býr vestan hafs. Hef undanfarna daga verið að ánægður með árangur Kristínar dóttur hennar og Halla vinar míns. Skólameistari (þetta orð hafði aðra merkingu hér í den) bandarískra háskóla í róðri er ekki smá afrek. Aðdáunarvert. Ég gratulera enn á ný.

En svo voru heldur sorglegri tíðindi í morgun. Heimilishundur þeirra, hann Þór dó í gær. Það var sorglegt, því þó ég hafi aldrei séð hann hef ég bæði lesið um hann og heyrt sögur. Meðal annars frá Reyðfirðingnum, þilskipaútgerðar skrásetjaranum en þeim mun hafa orðið vel til vina þegar Reyðfirðingurinn dvaldi um skeið hjá skólasystkinum okkar vestra.

Ég átti leið austur í Land og í tilefni þessa atburðar ákvað ég að kaupa nokkur tré og bæta við skógræktina mína. Í einum asparlundinum sem við skógfræðingurinn plöntuðum ekki fyrir svo margt löngu, setti ég niður fjórar fallegar birkihríslur og eitt grenitré. Fyrir voru um 80 aspir frá því í vor. Að því loknu var lundurinn helgaður og heitir hann hér eftir Þórslundur. Örnefnum fjölgar því í Landinu þó ekki hafi jarðeignin fengið nafn enn.

Engin ummæli: