12. júní 2006

En af skáldskaparmálum

Ingólfur vinur minn Kristjánsson fór í reiðtúr á Löngufjörur um síðustu helgi og varð það tilefni nokkurra kvæða. M.Óla sendi honum eftirfarandi.


Löngufjörur

Við jökul sólin sígur,
sælir hesta beisla.
Teygar mjöð og mígur,
meramannaveisla!

Löngufjörur feta
fákar skeifum búnir.
Hrista fax og freta,
flestir ferðalúnir.

Ingó situr í söðli sæll,
en má vart mæla.
Kinnar rjóðar af röðli,
ríkir himnasæla.



Ég sendi IK bara eina gamla sonnettu sem ég átti frá fyrri tíð.


Löngufjörur
Er dagur rennur döggin sólu kyssir
og dagbjört bíður sjónarrönd í hafi.
Á fjörum löngum fæðast sker úr kafi
og fyrirheit sem aðeins einn þú vissir.

Þar aldan gárar eilíf létt við fætur,
og öðuskel á fjörugrjótið leikur.
Þú aldrei aftur orðið getur smeykur,
ef undralagið heyrir baki nætur.

Nú daggarbjartur drösull svífur heiður,
í dýrlegri reið engin orðin mælir,
er jórinn ber þig jökli nær og glaður.

Í eyjum fjarskans ernir búa hreiður,
og urta ein við fjöruborðið gælir,
þá hugsýn geymdu í hjarta þínu maður.




Fékk þá sendingu frá MÓla
Þarn fórstu alveg með mig fóstri! Þessi snilld er mér ofviða.



Mér er ei með tungu tamt
að tjá mig meira.
Ég mun kannski semja samt
sonnettu og fleira?


Undir lok dags fæddist þessi:

Nú erum vér gamlir og gráir
getum hvorki gengið né ort.
Höltum oss hugleysið háir
hamið er heilabú vort.

Engin ummæli: