28. júní 2006

Gott veður

Mætti ég biðja um áframhaldandi gott veður.

Byrjaði á að fara í sprikl í morgun. Var óvenju þungur á bárunni í morgun en dreif mig af stað. Veit ekki alveg hvers vegna. Lagði harðar að mér í spriklinu. Bætti hraðann en fór ekkert lengra en áður. Hlýtur að vera ágætt að taka svona sprett. Hef meira lagt upp úr því undanfarið að komast lengra, en sem sagt í morgun var hraðinn aðalatriðið. Hjartslátturinn var hraðari. Er aumur í skrokknum eftir átök síðustu helgi og síðdegis í gær. Komst ekki mína 170 sit-ups sem ég er farinn að gera daglega. Í dag urðu þær 130.

Fór svo í sund og svamlaði, ætli strákarnir mínir myndu ekki kalla þessa tilburði föðursins það, og lagðist augnablik í sólbað.

Fór svo í klippingu og skeggsnyrtingu. 4 mm voru það heillin.

Þarf nú að ljúka við eitt verkefni, sem er nánast í höfn. Mætti á gamla vinnustaðinn og fór í mat með kollega, - grænmetisréttardagur. Ákváðum að setjast út í sólina á veröndina fyrir framan matsalinn. Ekki tókst það nú vel. Ég hlammaði mér í einn stólinn sem var rennblautur. Stór pollur á setunni og ég beint í hann og varð heldur betur rassblautur og vakti kátínu. Alltaf gaman að gleðja aðra. Enginn er verri þó hann vökni, - jafnvel á daus.

Sit núna rassblautur og reyni að einbeita mér. Bregð mér út og læt golun þurrka...

27. júní 2006

Merarmannamót

Eins og áður hefur komið fram fljúga stundum kviðlingar í vinnunni, í misstórum hópum eftir því hvert tilefnið er og hversu viðkvæmar sálirnar eru /:-)

Fékk þessa tillögu um afþreyingu í fríinu senda í gær:

Beisla þína hrossa hjörð
og hafðu með þér fagra snót.
Skelltu þér í Skagafjörð
á skæslegt meramannamót.

Kkv/MÓla

og því var svarað svona:
Einn að gaufa ekkert veit,
allar snótir flúnar.
Engin þeirra á mig leit,
allar meydóm rúnar.

Sjálfsálitið sokkið er
sýnist flestum trylltur.
Engar snótir eru hér
ekkert er ég hylltur.

Eftir aðeins eitt er nú
annað hvorutveggja.
Með mönnum leggjast í moldarbú,
og merarhrossum hneggja.

26. júní 2006

Ör-ævi

Ör-ævi og auðn
eltir þann sem ósnortið
hjarta umbrýtur
ást þess deyr við minnsta skot
og ekkert er þá eftir.

24. júní 2006

Ljóðaljóðin

1
Já, fögur ertu, vina mín, já, fögur ertu. Augu þín eru dúfuaugu fyrir innan skýluraufina. Hár þitt er eins og geitahjörð, sem rennur niður Gíleaðfjall.
2
Tennur þínar eru eins og hópur af nýklipptum ám, sem koma af sundi, sem allar eru tvílembdar og engin lamblaus meðal þeirra.
3
Varir þínar eru eins og skarlatsband og munnur þinn yndislegur. Vangi þinn er eins og kinn á granatepli út um skýluraufina.
4
Háls þinn er eins og Davíðsturn, reistur fyrir hernumin vopn. Þúsund skildir hanga á honum, allar törgur kappanna.
5
Brjóst þín eru eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar, sem eru á beit meðal liljanna.
6
Þar til kular af degi og skuggarnir flýja, vil ég ganga til myrruhólsins og til reykelsishæðarinnar.
7
Öll ertu fögur, vina mín, og á þér eru engin lýti.
8
Með mér frá Líbanon, brúður, með mér skaltu koma frá Líbanon! Lít niður frá Amanatindi, frá Senír- og Hermontindi, frá bælum ljónanna, frá fjöllum pardusdýranna.
9
Þú hefir rænt hjarta mínu, systir mín, brúður, þú hefir rænt hjarta mínu með einu augnatilliti þínu, með einni festi af hálsskarti þínu.
10
Hversu ljúf er ást þín, systir mín, brúður, hversu miklu dýrmætari er ást þín en vín og angan smyrsla þinna heldur en öll ilmföng.
11
Hunangsseimur drýpur af vörum þínum, brúður, hunang og mjólk er undir tungu þinni, og ilmur klæða þinna er eins og Líbanonsilmur.
12
Lokaður garður er systir mín, brúður, lokuð lind, innsigluð uppspretta.
13
Frjóangar þínir eru lystirunnur af granateplatrjám með dýrum ávöxtum, kypurblóm og nardusgrös,
14
nardus og krókus, kalamus og kanel, ásamt alls konar reykelsisrunnum, myrra og alóe, ásamt alls konar ágætis ilmföngum.
15
Þú ert garðuppspretta, brunnur lifandi vatns og bunulækur ofan af Líbanon.
16
Vakna þú, norðanvindur, og kom þú, sunnanblær, blás þú um garð minn, svo að ilmur hans dreifist. Unnusti minn komi í garð sinn og neyti hinna dýru ávaxta hans.

23. júní 2006

Hjá Þórslundi

Stjörnurnar vikna
stef mitt hjartað svíður,
brár mínar blikna
brátt tíminn líður.
Megum við þá minnast
að áttum endurfundi,
hjá laufgrænum lundi.

Stórmenni

Nú sögur fljúga sem fiður
fæstar sannar því miður
að ég hafi lést
sem best af því sést
að enn kemst í buxurnar kviður
og hve lítill ég vaxinn er niður.

Ekki týna húmörnum.

Hnokki

Með eindæmum er flókið að flokka
það að farið er langt út að skokka
viðra svo hund
fara á einn fund
og finna skó á einn hnokka.

Lausgirt

Úr Kópavogi kona ein giftist
við kokkálaðan manninn hún firtist
brátt eftir brúðkaup
tók hún fljótt tilhlaup
og lörfunum síðan lausgirtist.

22. júní 2006

Sannleikur

Stundum sendum við vísur á milli okkar á vinnustaðnum, til að létta okkar lund. Stundum myndir. Þessa fengum við frá samstarfskonu okkar í morgun. Finnst hún einkar viðeigandi.

Andstæður

Andstæða vetrarkvölds og sumarblíðu,
í heiðmörk með allar stjörnur himinsins
og sólstöður með ilmandi gróðurinn,
er heimurinn minn.

21. júní 2006

Never Ask a Man the Size of His Spread

A Cowgirl´s Guide To Life eftir Gladiolu Montana. Er bókin sem ég er að lesa þessa daganna. Hún fjallar um einskisverðan fróðleik. Keypt í síðustu ferð minni til BNA.

Þar eru ýmis góð ráð:

1. Callin´ women the weaker sex makes as much sense as callin´ men the stronger one.

2. Opportunity may knock just once, but temptation is a frequent visitor.

3. Foolin´ a man ain´t that hard. Finding one that ain´t a fool is a lot harder.

4. The time to dance is when the music´s playin´.

5. Be sure to taste your words before you spit´em out.

6. If you want a little extra attention, ask your husband if you can borrow his six-shooter for the night.

7. Do not shoot at the horse; shoot at the jackass ridin´ it.

8. When kissin´ a cowboy in the rain, make sure you both fit under his hat.

9. Never - under any circumstances - admit that you like to cook.

10. A lesson every cowgirl should learn is where her business ends and someone else´s starts.

11. Its no big deal cleaning house, cooking meals, or doing laundry. More men oughta try it.

12. Always try to make folk happy, even if that means going out of your way to avoid´em.

20. júní 2006

8 og hálfur kíló meter

Hef verið að gaufa við 4,5 - 5,5 km undanfarið en ákvað í dag að taka mig tak og rauk í 8,5 km. Reyndar í tveim áföngum. Fór síðan í gufu og afslöppun fyrir framan arineldin. Þar sem rauður loginn brann og snarkaði í varð mér hugsað til nokkurs sem ég rakst á í dag. Ég var einn í salnum og valdi mér leisibojstól í horninu lengst frá hurðinni, en þó þannig að ég heyrði niðinn frá veggfossinum frammi. Þegar ég var búinn að slaka á í góða stund hrökk ég upp við hrotur. Í þetta sinn hafði maðurinn í þar, þar, þar næsta stól ákveðið að breyta til og hagræða sér í næsta stól. Þar var hann nú steinsofnaður. Ég leit í kringum mig og sá að allir hinir stólarnir voru tómir. Já, - félagslyndið getur tekið á sig ólíklegustu myndir.

Lífið er langhlaup.

Yllis berjasaft

Margt vex í garði æris. Stikkilsber hefur hann notað í sultu- og maukgerð. Rifs og sólber í hlaup á haustin. Nú vaxa þar líka svartir túlipanar og með öðrum litbrigðum.

Þar vex líka yllir einn stór. Rakst á uppskrift að svalandi yllisdrykk og þar sem ærir hefur fengið ákúrur fyrir snobb í víni og bent á, af Snúði, á berjasaft til betra lífernis í póstinum hér að undan. Hann ákvað því að skrá niður bruggaðferðina til síðari nota í sumar þegar yllirinn fer að blómstra.

Yllis drykkur:
20 vænir klasar yllisblóm
2 kg sykur
2 stk sítróna eða lime
50 g sítrónusýra
bensóat
2 lítrar sjóðandi vatn

Aðferð:
Raspið sítrónu/lime (eða skerið í sneiðar) og prssið úr henni safann. Yllisblóm, sykurinn, sítrónusýran og sítrónuraspið/sneiðarnar eru sett í stóran pott. Setjið sítrónusafann og sjóðani vatn saman við. Hræið vel. Haldið við suðu (ekki sjóða) og hrærið annað slagið, þar til sykurinn er uppleystur. Notið bensoatið skv. leiðbeiningum framleiðanda. Setjið á kaldann stað í 2 sólarhringa en hrærið annað slagði. Sigtið síðan á flöskur og lokið vandlega. Geymist á svölum stað.

Þetta er þykkni sem blandað er útí vatn eftir smekk.

19. júní 2006

Ljóð dagsinn, - en á ný

Steinhlessa eins og klessa, -í dag á ég aftur ljóð dagsins.

Brot

Angan af birki
eftir vætutíð ilmur
í lofti keimur sem kynntst þér einni hjá
og geymi í ljósheimum.

(tanka nr 6)

18. júní 2006

Aldrei týnist von!

Ef að sorgin sækir á
segðu vin þú grætur.
Sól þér aftur sitji hjá
og sæki eftir nætur.

Þegar virðist níðköld nótt,
neikvætt líf með öllu.
Mund´að veður skipast skjótt
skín nú sól á fjöllu.

Óvænt gerast ævintýr
aldrei gleym´að vona.
Hugmynd fæðist heimur nýr
hert´upp huga kona.

Sent sorgmæddri konu 18.júní 2006, sem reyndist bara ekkert svo voðalega sorgmædd þegar ljóðið var loks tilbúið. Hún var búin að taka gleði sína aftur.

Oenofil

Ærir skipuleggur skipulagt undanhald undan dyggðugu líferni sl. tvo mánuði. Því er rétt að rifja upp vínfræðin. Hann ætlar ekki bara að falla fyrir kaffi....

Um vín eitt og sér segir.

Þurrt ferskt Sancerre (Sauvignon Blanc) eða Chablis. Það er yndislegur drykkur og líka sem lystauki fyrir mat (til er líka ágætt Sauvignon Blanc frá Nýja Sjálandi). Ærir tekur vín búin til úr Sauvignon Blanc þrúgunni fram yfir Chardonnay.

Á fallegu sumarkvöldi er fátt meira freistandi en Riesling með sítrónukeim og sætu eftirbragði, frá Rheingau í Þýskalandi. Ég hef oft keypt Riesling frá Elsass og líkað vel. Elsass vín úr Pinot Blanc eru margra eftirlæti.

Ef sitja á lengi og láta eitt eða tvö glös nægja er hægt að snúa sér að ítölsku vínunum. Þau eru með miklum sýrukeim og ferskleika svo þú drekkur þau ekki eins og saft.

Ef skapið er rétt og þig langar í eitthvað mikið með góðri fyllingu, bregst Rioja aldrei. Nota líka Chianti.

Og ef tækifæri býðst þá er um að gera að opna eina Búrgúndar-vín af betri sortinni.


Eða eins og Jónas myndi orða það:
Látum því, vinir, vínið andann hressa,...

17. júní 2006

Sáffóarlag og kviðuháttur

Saffískur háttur er kenndur við grísku skáldkonuna Sappho frá Lesbos (600 f.kr.). Hana má kalla móður lýrisks skáldskapar í vestrænni menningu. Hvert erindi er 4 braglínur, þrjár hafa 11 atkvæði en sú síðasta fimm. Hóras (65 f.kr.) hafði braghvíld eftir fimmta atkvæði í löngum línum.

Íslensk skáld styttu línur háttarins og skiptu þeim þar sem braghvíldin hefði annars orðið og settu rím í staðinn.

Hlíðin mín fríða
hjalla meður græna
og blágresið blíða
og berjalautu væna,
á þér ástar-augu
ungur réð ég festa,
blómmóðir besta.

Nú ætlar Ærir að fara að spreyta sig á saffóarlagi en einnig kviðuhætti, sem er afbrigði fornyrðislags, nema með strangari reglum um atkvæðafjölda í línu. Fáir hafa glímt við hann síðan Egill forfaðir minn Skallagrímsson var upp og orti Sonatorrek. Hátturinn hefur átt erfitt uppdráttar á seinni öldum. Kannski drýpur Ærir í duftið líka.

Einkenni kviðuháttar er 3 atkvæði í stökum línum (1,3,5,7) og 4 atkvæði í jöfnum línum (hið fæsta) (2,4,6,8). Ekkert rím er í vísunum og hver vísa er 8 línur. Stuðlar eru ýmist einn eða tveir á móti höfuðstaf.

Púff, púff og meira púff.


Ærir hyggst leggjast í víking til að takast á við þetta verkefni.

Skrifað 17. júní 2006 í engra votta viðurvist.

16. júní 2006

L´amour fou

fór með hestana austur á Rangárvelli. Mikil var gleði þeirra og hrifning þegar þeir áttuðu sig á frelsinu. Aldrei hef ég séð Hóf minn rjúka svona hratt út í buskann, og hverfa við sjónarrönd. Gleði þeirra var einlæg og svo var einnig hjá mér. Hlustaði á L´amour fou. Disk sem ég keypti síðastliðinn vetur, en hef eiginlega ekki hlustað á fyrr en nú í þessari ferð. Þar er lagið Frostrósir spilað á fiðlu, píanó og aðra strengi, - án söngs. Ég stillti græjurnar á endurspil og lagið hljómaði aftur og aftur. Það held ég hafi bara aldrei gert áður. Var einn á ferð. Og merkilegt nokk þar var einnig lagið "Við gengum tvö", sem ég hef líka skrifað um hér á síðunni fyrir allnokkru.

14. júní 2006

Yfir vötnum andinn svífur
ekki komst í göngu.
Minning nú í huga hrífur,
hjartað stóð á röngu.

Börnin

Börnin gera hvert heimili bjartara. Þau slökkva aldrei ljósin.
(Ralph Bus)

Unglingar viðhalda birtu á heimilinu. Þeir geta ekki lært að slökkva ljósin.
(Ærir)

13. júní 2006

Í tilefni nýrra deildar í efra

Sent kollega LG í morgun og þá var out-of-office svar, svo ekki kveður hann mikið næstu daga.


Í Oddshúsi vakna nú væringjar
er veitast að spiki með særingar
og fitunni brenna
svo búkarnir renna
í teymi offitu og næringar

12. júní 2006

En af skáldskaparmálum

Ingólfur vinur minn Kristjánsson fór í reiðtúr á Löngufjörur um síðustu helgi og varð það tilefni nokkurra kvæða. M.Óla sendi honum eftirfarandi.


Löngufjörur

Við jökul sólin sígur,
sælir hesta beisla.
Teygar mjöð og mígur,
meramannaveisla!

Löngufjörur feta
fákar skeifum búnir.
Hrista fax og freta,
flestir ferðalúnir.

Ingó situr í söðli sæll,
en má vart mæla.
Kinnar rjóðar af röðli,
ríkir himnasæla.



Ég sendi IK bara eina gamla sonnettu sem ég átti frá fyrri tíð.


Löngufjörur
Er dagur rennur döggin sólu kyssir
og dagbjört bíður sjónarrönd í hafi.
Á fjörum löngum fæðast sker úr kafi
og fyrirheit sem aðeins einn þú vissir.

Þar aldan gárar eilíf létt við fætur,
og öðuskel á fjörugrjótið leikur.
Þú aldrei aftur orðið getur smeykur,
ef undralagið heyrir baki nætur.

Nú daggarbjartur drösull svífur heiður,
í dýrlegri reið engin orðin mælir,
er jórinn ber þig jökli nær og glaður.

Í eyjum fjarskans ernir búa hreiður,
og urta ein við fjöruborðið gælir,
þá hugsýn geymdu í hjarta þínu maður.




Fékk þá sendingu frá MÓla
Þarn fórstu alveg með mig fóstri! Þessi snilld er mér ofviða.



Mér er ei með tungu tamt
að tjá mig meira.
Ég mun kannski semja samt
sonnettu og fleira?


Undir lok dags fæddist þessi:

Nú erum vér gamlir og gráir
getum hvorki gengið né ort.
Höltum oss hugleysið háir
hamið er heilabú vort.

11. júní 2006

Angist

Óslitinn þráður
okkar á milli heldur
þrátt fyrir óra
sem fjarlægðin skapaði
með þögn minni og angist.


tanka nr. 11

10. júní 2006

Hvimleið

Hvimleið óð kona
í örvæntingu gripin
með rógburð yfir
heiðar og bratta hjalla
en rann á rassinn aftur.

(tanka nr. 10.
handa Gróu)

Hvísl

Hvísl þagnarinnar
er skrifað neðanjarðar
og berst upp til mín
í gegnum þræði möttuls
sem þú spannst fyrir löngu.


(tanka nr. 9)

Myrta

Myrtuvíðirinn
sem vex í garði mínum
er enn vetrarbrúnn
ég bíð fjólubláu rekkla hans
og grænu laufblaðanna

Ekki alveg í kút

Í klettum drengur klöngrast létt og kemst í fréttir,
kvíða léttir, kemst á stéttir,
kroppinn réttir, haminn þéttir.

9. júní 2006

Kveðinn í kútinn

Svei mér ef ég hef ekki verið kveðinn í kútinn og það allhressilega. Þetta var að berast frá MÓla úr efra:

Fjallakvíði finnst nú víða fólks með lýðum.
Undan svíður ofsa kvíða,
Esjuhlíðar fá að bíða.

Meður blíðum meyjum fríðum maður skríður
hátt í hlíðum haldinn kvíða,
HAMið síður frær að bíða.

Heiðin (13)

Hann hrökk skyndilega við. Vaknaði úr hugarástandi sem var farið að verða alltof algengt síðari hluta nætur. Hnífaparið lá enn á borðinu óhreyft. Það var dagrenning. Barstúlkan kom aftur og benti á ósnertan matinn og bandaði með höndunum. Hann áttaði sig á hvað hún vildi en yppti öxlum. Tónlistin ruglaði hann. Safi, safi, - safiatou, ómaði kunnuglega. Ljóð Mamadou Sissko, hann gat ekki fylgt vestur-afríska tungumálinu eða var það franska núna. En hann söng ekki sjálfur. Santana og Angélique Kidjo smullu saman í þessu gamla Herbie Hancock lagi. Hann rifjaði upp hvernig takturinn hríslaðist um taugar hans. Þetta er næturlag. Lag til að gleyma en lifa samt við frumleika. Láta aðrar kenndir ná tökum á sér. Það hafði það svo sannarleg gert. Oft. Hann notaði það alltaf.

Úti fjölgaði bláum ljósum, blikkandi, þannig að dagskíman hvarf og skuggar af stólunum í kring urðu annarlegir. Voru þeir búnir að finna hann. Hafði glæpurinn komist upp? Hann greip í barstúlkuna. Hrifsaði til sín annan hnífinn og hún vísaði honum þegjandi og hljóðalaust á bakdyrnar, sem lágu út í skúmaskot og öngstræti borgarinnar.

Að baki hans hljómaði safí, safí, - safíatou. Safíatou.

8. júní 2006

Raunamæddur

Þetta kom sent frá MÓla:

Reynir nú rauna er mæddur
og ræfillin illa er klæddur,
því slitinn er strengur
og strákur ei lengur
stígur á fjöll - hann er hræddur!



og því gat ég ekki látið ósvarað:

Hann Reynir er hættur að mæðast,
enginn sem séð hefur´ann klæðast,
á tilteknu svæði
í náttúru klæði
mun aftur að honum hæðast

Tangartak

Í brjósti mér slitnaði strengur
við hugrekki bý ég ei lengur
aftur á fjöllin ei sný
heldur í borgina flý
því þær leita með logandi tengur

Hvert þó í logandi..

Þetta var að berast frá kollega GKG, þeir gefast ekki upp í efra:

Nú er að toga og toga
þar til teygjan hún vísar í boga
en ekki er víst
sem drengur við býst
að ástin hún svo muni loga

Strengir / svar til kollega

Horfa vilja dömur á drenginn
og dásama ef missir hann þvenginn
því með andköfum sjá
hve langt hann mun ná
ef teygja þeir á honum strenginn

Aflabrögð

Þessa vísu fékk ég senda frá MÓla kollega mínum og segir frá aflabrögðum hans.

Í Mývatnssveit var mikið rok,
mér tókst þó að standa.
Tókst mér eftir talsvert mok
tugum tveim að landa
.

Höf: MÓla


PS: Skyldi Halur sem ég veit einan meiri veiðimann en aðra geta betur (kveðið)?

Kúturinn

Enn er reynt að kveða mig í kútinn. Þetta barst í morgun frá kollegum mínum:

Þessi kom frá MÓla:


Haldi´ð að þurf´ekki að HAM´ann?
Helvíti yrði það gaman!
Nærbuxnastrengjum
nær það úr drengjum.
Á Esjuna svífum svo saman.



Þessi frá G.Popp:


Haldið þið áfram að spjalla!
Orðhengilshátt má það kalla!
Um gleði og sorg
stunur og org
Reynis er hélt hann til fjalla.




og þessi frá GKG:


Þvílíkar þrumandi vísur
og þolmiklar göngukrísur
af lausgirtum drengjum
nærbuxnastrengjum
og óttaslegnar skvísur

7. júní 2006

Studiosi philosophiae

Ég þarf að fara að hressa upp á latínuna (og stafsetninguna). Er ekki viss um hausinn sé réttur. En hvað um það. Stráksi minn varð stúdent á dögunum eins og lesa mátti á bloggi mömmu hans. Þá höfum við öll fjögur útskrifast úr eðlisfræðieild. En leiðir okkar legið í allar áttir. Reyndar sá eldri farinn að feta í fótspor föðursins eftir að hafa verið 2 ár í stærðfræði. En ég er ekki síður ánægður með val þess yngri. Hann er búinn að skrá sig í heimspeki í H.Í. og reyndar muldrar eitthvað um sálfræði líka, - en ekki næsta vetur. Þetta er gott val og sýnir sjálfstæði í hugsun og verki. Vildi að ég hefði haft svona hugrekki á sínum tíma. En í minni heimabyggð var háskólanám það eitt sem skilaði manni embættisprófi.

Reyndar var árið eftir menntaskóla hjá mér viðburðarík. Kenndi 10 ára krökkum hálfan vetur í einangruðum útkjálka. Lærði rafsuðu og sauð ofna saman í Ofnasmiðju Norðurlands. Gerðist sjómaður. Vann í skógrækt í Skotlandi og var landvörður í Herðubreiðalindum um sumarið. Fór svo í háskólann um haustið og bjó á Garði. Þetta var viðburðaríkt ár. Mikið á strákurinn minn gott að vera á þessum aldri. Þá á maður að njóta þess að vera til og gera það sem hugurinn girnist.

(Reyndar á maður alltaf að gera það).

6. júní 2006

Gredda í gráum bíl

Gredda í gráum
bíl ekur hringbrautina
í leit að fróun
nýlokin við árekstur
þar sem ástin beið bana



tanka nr. 7

Svar við píslum

Ég bráðum fer plássið að panta
en hjá MÓla skal mér ei planta
því í hamskipta hug
með drengskap og dug
í næstu göngu mun ei mig vanta

Píslir og pínur

Þessi skilaboð biðu mín í morgun frá kollega LG:

Líf þitt er stútfullt af píslum og pínum
og púkarnir hlæja í skrokki þínum
en hættu að góla
og hugsað´ um Móla
"menn göfgast og vaxa af verkjum sínum".


Held ég fari að drífa mig í næstu fjallgöngu!

Ljóð.is

í dag á ég aftur ljóð dagsins. Annað sinn í þessum mánuði.

Meitill

Ég meitla kvæði
myndhegg í blaðið fannhvítt
með svörtum æðum
sem hvíslast á og segja
þér einni sögu mína.

(tanka nr 5)

4. júní 2006

Brot

Angan af birki
eftir vætutíð ilmur
í lofti keimur
sem kynntst þér einni hjá
og geymi í ljósheimum.

Þórslundur

Fór í dag austur í Land og leit á trjáræktina. Kuldakastið og næturfrostin í kringum 20. maí hafa tekið sinn toll sýnist mér. Drýpur lauf á öspunum og kal sést víðar en ég hefði viljað.

Í morgun las ég blogg skólasystur minnar, hennar Kötu sem býr vestan hafs. Hef undanfarna daga verið að ánægður með árangur Kristínar dóttur hennar og Halla vinar míns. Skólameistari (þetta orð hafði aðra merkingu hér í den) bandarískra háskóla í róðri er ekki smá afrek. Aðdáunarvert. Ég gratulera enn á ný.

En svo voru heldur sorglegri tíðindi í morgun. Heimilishundur þeirra, hann Þór dó í gær. Það var sorglegt, því þó ég hafi aldrei séð hann hef ég bæði lesið um hann og heyrt sögur. Meðal annars frá Reyðfirðingnum, þilskipaútgerðar skrásetjaranum en þeim mun hafa orðið vel til vina þegar Reyðfirðingurinn dvaldi um skeið hjá skólasystkinum okkar vestra.

Ég átti leið austur í Land og í tilefni þessa atburðar ákvað ég að kaupa nokkur tré og bæta við skógræktina mína. Í einum asparlundinum sem við skógfræðingurinn plöntuðum ekki fyrir svo margt löngu, setti ég niður fjórar fallegar birkihríslur og eitt grenitré. Fyrir voru um 80 aspir frá því í vor. Að því loknu var lundurinn helgaður og heitir hann hér eftir Þórslundur. Örnefnum fjölgar því í Landinu þó ekki hafi jarðeignin fengið nafn enn.

3. júní 2006

Meitill

Ég meitla kvæði
myndhegg í blaðið fannhvítt
með svörtum æðum
sem hvíslast á og segja
þér einni sögu mína.

Sniðugt / snúðugt

Þetta fékk ég sent frá Snúði:

Forsjálir Klettana Klífa
Færir út-Limunum Hlífa
Þurfa því Ekki
að Hlaupa í Kekki
ogá Netinu Kjaftinn að Rífa


takk og fleira óskast

2. júní 2006

Vindur

Hlustið á vindinn
raddir hans berast víða
heyrið ómstríðan
storm hvessa og logn strjúka
vanga og hvísla ljúforð

Klækir

GP vinkona mín norðan heiða sá mann skima laumulega til allra átta á miðju Kaupangsstræti og síðan....

Datt þetta í hug af því tilefni:

Að Kaupangi ég kom um stund
og karl einn sá með klæki.
Það minnti mig helst á hund
höndla eigin tæki.

Eftirköst

Þessi skilaboð bárust með vindinum frá starfsfélaga mínum MP vegna næstu skrifa á undan; undir fyrirsögninni: Ævintýri á gönguför-"mannlýsing" eða gáta??:


Undir nærunum er hann mjög strangur
Ítækur, en mjög mislangur
Hallur undir hól
Hefur sjaldan séð sól
Með aldrinum vex honum angur

1. júní 2006

Ljóð.is

Ærir á aftur ljóð dagsins á ljod.is; í dag 1. júní. Það er tanka nr. 2 - Urt.

Eftirköst Esjugöngunar

Ó, guð hversu lifandis lengi
leggurðu á mig þessa þvengi
ég er aumur í lærum
og undir nærum
er með þessa stingandi strengi