Nú er sólarhringur síðan ég vaknaði síðast um miðja nótt, og þar áður var sólarhringur. En þá skrifaði ég ekkert. Enda ekki um margt að skrifa um miðjar nætur. Þá á maður að sofa. Helst að dreyma um bjarta framtíð og betri tíð. En dagurinn í gær var merkilegur. Flestir eru að pæla í áramótaheitum næsta árs, eða áramóta. Í dag lét ég eitt gamalt heiti rætast. Það var ekki einu sinni áramótaheiti. En samt var það ágætt.
Í morgun ætlaði ég að ná í hesta, tvo nánar tiltekið. Hóf. Hann þekkið þið öll. En hinn þekkið þið ekki. Hann heitir Greifi, enda greifalegur. Hann er móálóttur. Keyptur í eða réttarasagt eftir Laufskálaréttir sl haust. Hann var lítið taminn en úr því hefur verið bætt og nú skal hann þjálfaður. Hófur mun aðstoða við það. Þeir verða tveir í saman fyrst um sinn. Kannski koma fleiri síðar. Hinir. Glói, Flygill, Skuld og Hálfmáni verða úti áfram. Þeir eru á gjöf. Og svona í framhjáhlaupi þá var ég næstum búinn að kaupa graðhest í kvöld. Svartan með hvítan leista. Heitir Sokki. Til stendur að gelda hann. Ég finn til með honum. Það er eitthvað við graðhesta. Kannski bara greddan. En um hana ætla ég ekki að ræða í dag. En hvort mér tekst að bjarga greddunni hans Sokka mun ráðast á allra næstu dögum. Það verður framhaldssagan, ef til er framhaldslíf. En sjáið þið mig ekki í anda ríðandi um héruð á biksvörtum, glansandi graðhesti, sveittum og frísandi með faxið flaxandi. Ef það ekki ærir....
En semsagt í morgun átti að ná í hestana, en ekki eru allar ferðir til fjár (eða hesta!). Það sem meira var að synir mínir tveir sem eru meira fyrir innisport og sund voru tilbúnir galvaskir í slaginn og ætluðu að hjálpa öldruðum föður sínum að ná í hrossin. Fyrsta ferð okkar feðgja, þ.e.a.s. hestaferð okkar feðga þó ekki stæði til aðfara á bak. Þetta er samt áfangasigur. En eins og segir i annari sögu (án tilvitnunar) að ekkert rúm var fyrir þá í hestakerrum. Fórum við stað úr stað. Frá leigu til leigu, en engar kerru fengum. Þvi komust við feðgarnir ekki i hestaferð. Sem var eins gott því hestamenn tjáðu mér siðar um daginn að allt væri að verða vitlaust í hesthúsum borgarinnar, svo agalegt væri sprengiregnið. Við sögðum því, fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þetta gætu margir tekið sér í munn þessa daganna. Þessa síðustu og verstu daga.
Nú var liðið að hádegi. Svengd hrjáir ístrubelgi oftar en aðra segir máltækið. Eftir að hafa sveimað um bæinn. Troðið kvittunum upp á sjúkrasjóði vegna krankleika ársins, tannviðgerða, og heilsuræktar sem er meiri í orði en á borði. Eða réttara sagt of mikið á borði eða borðið of mikið. Því í dag varð ég að víkka beltið um eitt gat. Næstum allur ávinningur fyrri hluta ársins farin til andskotanst. Enda er mittismál mitt barometer á sálarástandið. Þetta heitir tröstespise eða angistarát. Eða kannski bara maturinn alltof góður heima hjá mér. Alltof reglulegar máltíðir og of mikið af heilsusamlegum heimalöguðum mat, sem eldaður er af nostursemi og tilbúinn á matmálstímum.
Til að bæta úr þessu og slá á angistina og söknuðinn og hestamennsku í handaskolum hringdi ég í einn aldavin minn. Þeir eru reyndar ekki margir sem vilja tala við mig núna. En þó leynist þar einn, og etv annar. Við fórum í göngutúr. Lögðum í miðbænum, 101 og gengum um Austurstræti, -þó ekki í rauðum skóm. Niður á Lækjartorg, eða upp. Pósthússtræti og Tryggvagötu. Þar settumst við inn hjá Sægreifanum. Það er sko almennilegur staður. Besti matssölustaður borgarinnar. Fengum þar hina landsfrægu humarsúpu. Allt fremur primitivt þar á bæ. Langborð sitjum við við, enda er það úr við og við það tunnur sem sæti. Vertinn með síldarsvuntu og bláa hanska ber fram súpuna í frauðplastskál og plastskeið. Ég kom í hestagallanum. Þó ekki reiðbuxum og leðurskálmum a.m. p.ó.h. heldur skítugum gallabuxum og úlpuræxni. Var dressed for the occasion eins og sagt er. En viti menn. Þessar hendur í bláu plasthönskunum hafði aldeilis hrært saman almennilega súpu. Einhver sú albesta súpa, eða le sup kom uppúr frauðplastmálinu og var sötruð úr plastskeiðinni af áfergju, sem aðeins sá sem prófað hefur getur skilið til fulls. Svo var ábót á boðstólum. Hefðum getað setið að súpusumbli allan daginn. Töldum þó ráðlegast að forða okkur og vömbum okkar þegar dýrindis ilmur kom frá útigrillinu þar sem vertinn var að matbúa hrefnu og skötusel á teini.
Kæru vinir. Legg til að þið strengið þess heit að fara á Sjávargreifann á nýju ári og borða landsins bestu humarsúpu úr frauðplastmáli með plastskeið. Kostar aðeins 650 kr. Gott fyrir þá sem eru á budgetti, eða hafa straujað kortið ofmikið þessi jólin. En ég? Já ég efndi þetta heiti að fara á Sægreifann áður en árið væri liðið og stóð við það.
Svo leið að næst síðasta kvöldi ársins. Ég dró fram Camus XO flöskuna mína, -á reyndar tvær. Gat ekki slitið mig frá graðhestinum honum Sokka. Var kominn með hann á heilann. Þetta yrði að ígrunda og helst undir áhrifum. Því nær sem ég íhugaði málið því nær varð ég þeirri staðföstu ákvörðun, án nokkurs valkvíða að mitt hlutskipti lægi í því að eiga graðhest. Jafnvel þó ég léti gelda hann fljótlega. Eitthvað var rökhugsun farin að slævast. Ákvað næst að athuga hvort rauðvín bætti eitthvað þar um. En þá kom hið óvænta. Gestir. Þeir eru sjaldséðir hér á bæ. Yfirleitt eru það aðeins sölumenn og menn að lesa af mælum sem hringja hjá mér. Stundum þó vandræðafólk að leita að nágranna mínum. En í þetta sinn var þar á ferð vinur minn nokkur og hestamaður. Hann var enn i útgallanaum eins og við köllum það. Svona algalla, bláum frá toppi til táar loðfóðraður enda verið í allan daga að byggja við hesthúsið sitt. Konan hans hafði náð í hann rallhálfan og sundrað góðri gleði hestamanna, án nokkura hesta og var áleið með hann heim góðglaðan, þegar hann tjáði henni að hann ætti ýmislegt ósagt við mig á þessu ári. Varð úr því hin besta skemmtun. Því inn kominn reyndist hann alltof lítið drukkin og sá ég þar hin ágætasta drykkjufélaga. Opnaði því þriðju rauðvinsflöskuna og til að hann drykki ekki á fastandi maga, dróg ég fram, að ósk konu hans, sem vildi bara Fjörmjólk, hrátt tvíreykt taðhangikjöt af sauði norðlenskum. Þetta fengu þau með rúgbrauði og vænni smjörklípu. Hann við rauðvíni og hún fjörmjólk. Fór nú að hitna hjá vini mínum sem fór úr útigallanum, -enda til stofu boðið að heldri manna sið. Innan klæða var hann bara í nærklæðum. Síðri blárri brók sem hann batt uppi með grænyrjóttum snærisspotta, heldur haldlitlum að sjá. Varð nú mikil stemming fyrir innaklæðaburði þessa vinar míns og skálað innilega í Camus XO, enda rauðvín á þrotum. En eins og um allar góðar sögur, þá líkur henni hér. Enda þá búið að reyna þriðja árið í röð að telja mér trú um að á næsta ári riði ég norður Sprengisand. En ef þið haldið að þetta hafi verið svallveisla þá er það misskilningur.
Er nema von að það sé erfitt að sofa.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Kom í hugann þegar ég las þessi næturskrif, kannski rætist þetta allt
„Þú komst í hlaðið á“ klárnum Sokka
þú komst með Gradda undir þér.
Ég sé í anda þig róa og rokka
og reisa hönd til að heilsa mér.
Þú gjörðist seint þessi sveitamaður
er sælu fann við að moka tað
með árum fór svo þú gjörðist glaður
ef gafst þér fær’ á að gera það
Ef þú bróðir minn buddu leysir
og bregður teygju af seðlapung
og svo á gröðum þú garpi þeysir
að gleyma ei hvað Þorbjörg er ung.
Eigi þið góð áramót
Bróðir
Takk bróðir, og gleðilegt nýtt ár til ykkar Norðlendinga.
Skrifa ummæli